22.02.1977
Sameinað þing: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

152. mál, samstarf við grannþjóðir um sjávarútvegsmál

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Jónsson virtist taka það mjög nærri sér, að hann taldi að dr. Gunnar G. Schram hefði „ nappað “ frá sér hugmynd eða talið sig eiga uppgötvun sem þm. bæri og hefði verið fyrstur til að gera í sambandi við samvinnu okkar við færeyinga og norðmenn um fiskveiðimál, fisksölumál og fiskverndarmál. Nú er það alveg ljóst að íslendingar hafa gert sér grein fyrir því að langa tíð, að þessa samvinnu þyrfti að auka, enda hefur hún verið talsverð um marga áratugi og raunar við fleiri þjóðir en þessar. En ég get gjarnan vakið á því athygli að það munu vera ein sjö ár síðan ég flutti hér till. um að auka samskipti við færeyinga, ekki síst á þessum sviðum. Mig minnir að meðflm. hafi verið þm. Eysteinn Jónsson, Hannibal Valdimarsson. Benedikt Gröndal, Lúðvík Jósepsson og Birgir Kjaran. Auðvitað eigna ég mér engar hugmyndir í þessu efni. Það er alveg ljóst mál að þessar þjóðir eiga að starfa nánar og betur saman. Ég leyfði mér að ræða um það úr þessum ræðustól fyrir allmörgum árum, að jafnvel gæti svo farið í framtíðinni aðunnt yrði að hafa sameiginlega landhelgi færeyinga, íslendinga og grænlendinga. Ég veit ekki nema svo kunni að fara um það eru lýkur, þó það sé ekki tímabært eins og er.

Auðvitað er ástæðan til þess, að þessi samvinna hefur ekki verið mikil að undanförnu. einmitt sú, að norðmenn hafa verið ótrúlega seinir í landhelgismálum, afturhaldssamir, vil ég segja, færeyingar raunar líka og það af skiljanlegri ástæðu, vegna þess að þeir sækja mikið á erlend mið.

En ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, er ekki þessi, heldur hin, að hv. þm. leyfði sér að drótta óheiðarleika að fiskimálastjóra, Má Elíssyni. Hann brigslaði honum um óheiðarleika, og hann gerði það með sínum venjulega hætti, með dylgjum. Ég þekki Má Elísson best ykkar hér inni, býst ég við, þótt allir hér hljóti að þekkja hann að góðu, að drenglund einni og heiðarleika. Ég leyfi mér að mótmæla svona framferði að viðkomandi manni fjarstöddum. Ég fullyrði að Már Elísson er heiðarlegur maður í hvívetna, ekki síst í málflutningi, og það er meira en hægt er að segja um hv. þm. Stefán Jónsson.