23.02.1977
Neðri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

163. mál, atvinnulýðræði

Ellert B. Schram:

Hæstv. forseti. Ég hafði áhuga á því að segja nokkur orð við þessa umr. um það frv. sem hér liggur fyrir, frv. til l. um atvinnulýðræði, og umr., sem fram fóru hér s. l. mánudag, hafa gefið mér enn frekara tilefni til þess. Það hefur verið réttilega bent á það í þessum umr., að margoft áður hefur verið rætt um till. sem lúta að svokölluðu atvinnulýðræði, en þær till. hafa verið í einu eða öðru formi. Og satt að segja hefur þetta hugtak og skilgreining á því verið mjög á reiki, allt frá beinni aðild eða hlutdeild að stjórn og valdi í fyrirtækjum og til tillöguréttar starfsmanna um tiltekin, ákveðin atriði í rekstri fyrirtækjanna.

Það hefur verið bent á það í þessum umr., að fyrir réttum 40 árum var hér á ferðinni till. flutt af nokkrum þm. Sjálfstfl. sem gerði ráð fyrir að launþegar eða starfsmenn fengju aukna aðild að stjórn fyrirtækjanna. Sú till. tengdist hugmyndum þessara þm. um þátttöku fjöldans, eignaraðild launþega og um leið ábyrgð og stjórnun í fyrirtækjum. Hv. þm. Benedikt Gröndal taldi, að þessar till. tengdust viðhorfum sjálfstæðismanna á þessum tíma til kapítalisma, og vildi þar af leiðandi gera frekar lítið úr þeim. En þær voru ekki ómerkilegri en svo, að mér sýnist jafnaðarmenn um gervalla Evrópu hafa verið mjög hlynntir sams konar hugmyndum sem m. a. hafa komið fram í almenningshlutafélögum og öðrum hliðstæðum rekstrarformum. Og reyndar byggist till. þeirra alþfl.-manna frá árinu 1973, sem samþ. var hér í þinginu, á þessari sömu grundvallarhugsun, en sá till. hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til þess að semja frv. til l. um atvinnulýðræði, þar sem launþegum væri tryggð áhríf'á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra.“

Það er auðvitað ljóst mál, að tilgangur þessarar till. var að starfsmennirnir tækju þátt í rekstri fyrirtækisins og nytu góðs af, ef um arð væri að ræða, og eignuðust þar af leiðandi fjárhagslega hlutdeild í fyrirtækinu. Að þessu leyti eru till. frá því fyrir 40 árum, sem fluttar voru hér af sjálfstæðismönnum, og till. alþfl.-manna frá 1973 algerlega hliðstæðar, hvort sem menn vilja kenna það við kapítalisma eða ekki.

Það er mín persónulega skoðun, að þessi aðferð, þ. e: a. s. hlutdeild í arði jafnframt því sem launþegar eða starfsmenn fái aukna aðild að rekstri fyrirtækjanna um ákveðin, takmörkuð efni, það sé besta aðferðin til þess að tryggja rétt launþega og til þess að gera öllum almenningi kleift að eignast og að ráðstafa fjármagninu í landinu, vera með í atvinnulífinu, uppbyggingu atvinnutækjanna og njóta gáðs af ef um arð er að ræða. Afleiðingin af þessu verður efnahagalegt sjálfstæði alls fjöldans. Ég held að allar aðrar leiðir, sem lúta því að auka rétt og hag launþega í þessu landi, séu gervilausnir meðan við víkjum frá því meginatriði, að fólkið sjálft eignist fjármagnið og hafi áhrif á hvernig því sé ráðstafað. Ég tel að við eigum nú í dag mjög alvarlega að athuga hvort ekki sé rétt. að formi margvíslegra opinberra fyrirtækja, sem teljast atvinnufyrirtæki og veita ýmsa þjónustu, sé breytt þannig að ekki aðeins starfsmennirnir, heldur almenningur eigi kost á því að eignast hlut í þessum fyrirtækjum og þannig geti fleiri fylgst með rekstri þeirra heldur en einstakir embættismenn í þjónustu ríkisins.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um svokallað atvinnulýðræði, hafa komið fram, eins og fyrr segir, mjög margvíslegar hugleiðingar og skilgreiningar á þessu hugtaki. Hafa verið settar fram mjög róttækar hugmyndir um að starfsmenn tækju þátt í stjórn fyrirtækjanna og það yrði lögleitt að launþegar hefðu meiri völd í stjórnum fyrirtækja. Jafnvel hefur þeim hugmyndum verið hreyft, að atvinnurekendur greiddu ákveðið fé í sjóð sem síðan yrði ráðstafað þannig að launþegum yrði kleift að eignast meira hlutafé, eignast meiri hlut í fyrirtækjunum og tækju þau þannig smám saman yfir. Á það hefur verið bent í þessu sambandi, að slíkar hugleiðingar og slík lög brytu í bága við stjórnárskrá sem í gildi er á Íslandi, enda hefur enginn hreyft þessu í fullri alvöru hér svo að ég viti til. En ýmsar aðrar leiðir hefur verið bent á um stjórn eða íhlutun launþega um ýmis málefni fyrirtækjanna, og menn hafa verið mjög að fóta sig á þessu og margvíslegar athuganir farið fram, ekki síst á vegum aðila vinnumarkaðarins.

Nú hafa nokkrir þm. Alþfl. valið þann kostinn að leggja til að lögleitt yrði að á stofn skyldu settar svokallaðar samstarfsnefndir, þar sem starfsmenn fyrirtækja, sem hefðu að jafnaði 40 starfsmenn í þjónustu sinni, hefðu möguleika á því í gegnum þessar samstarfsnefndir að hafa tillögurétt um hvað einá er varðar vinnuaðstöðu, vinnutilhögun og starfsumhverfi. Mér finnst þetta frv. vera athyglisvert að því leyti til, að þarna virðist Alþfl. hafa mótað sér þessa stefnu. Hann hefur m. ö. o. hafnað þeim leiðum sem ganga lengra og m. a. komu fram í till. hans á árinu 1973. Þetta finnst mér mjög athyglisvert og ánægjulegt. (SighB: Hefur hv. þm. ekki lesið frv.?) Það hef ég gert mjög vel.

Eins og margoft hefur komið fram, hafa svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins, þ. á m. Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands, verið mjög andvígir hvers konar löggjöf um þessi efni. Ég hygg að enda þótt till. frá 1978 hafi verið samþ., þá hafi frekari úrvinnsla hennar strandað einmitt á andstöðu þessara aðila, vegna þess að þeir hafi talið frekar að þessi mál skyldu þróast með samningum. Við getum líka haft í huga í þessu sambandi viðbrögð Hannibals Valdimarssonar, þáv. þm. og þáv, forseta Alþýðusambandsins, hvernig hann brást við till. sem m. a. kom fram frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni hér fyrir nokkrum árum, en þá taldi hann að það væri viturlegast að ráða þessum málum með samningum, en ekki með löggjöf. Þess vegna var það líka athyglisvert í umr. hér s. l. mánudag, að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, sem er áhrifamikill aðili í verkalýðshreyfingunni og vissulega maður sem mark er á takandi, lýsti sig fylgjandi því að slík ákvæði sem frv. felur í sér væru sett í lög. Ég get ekki dregið af þessu aðra ályktun en þá, að þarna sé um nokkuð breytta afstöðu af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að ræða.

Benedikt Gröndal taldi sjálfsagt að Alþ. tæki nú af skarið, hafnaði því að hér væri farin samningaleiðin, en löggjöf yrði sett um þessi félagslegu mál sem frv. fjallar um. Ég get tekið undir þessi viðhorf. Mér finnst vera allt of mikil linkind á Alþ. varðandi og gagnvart aðilum utan þings. Það er allt of mikið tillit tekið til æsingamanna og skrifa í blöðum eða hagsmuna eða viðhorfa einstakra samtaka úti í hæ. Gleggsta dæmið er kannske umr. sem fram hafa farið um væntanlegt frv. um breytingar á vinnulöggjöf. Öllum er kunnugt um að samið hefur verið frv. um breytingar á vinnulöggjöfinni. Þetta frv. hefur ekki verið lagt fram enn þá, og e. t. v. eru ástæðurnar fyrir því að einhverju leyti þær, að ýmis hagsmunasamtök, fjölmiðlar og ákveðnir einstaklingar utan þings hafa sett sig mjög gegn hvers konar breytingum, og af einhverri hræðslu eða tillitssemi hefur Alþ. ekki enn þá mannað sig upp, a. m. k. ekki þeir sem eiga að leggja fram frv., — ekki mannað sig upp í að leggja það hér fram og taka afstöðu til þess. Ég held að Alþ. eigi að taka af skarið í ýmsum félagslegum málum, eins og því, sem hér er um að ræða, og eins t. d. um hugsanlegar breytingar á vinnulöggjöfinni.

Mjög er deilt á Alþ. og alþm. fyrir að hafa sett niður á undanförnum árum, að það sé ekki sama reisn yfir þessari stofnun og var á árum áður. Ég held að skýringin sé að einhverju leyti a. m. k. sú, að Alþ. hefur of mikið látið snúa sér eftir vindi og veðrum annars staðar og utan þings. Við eigum ekki að hlaupa eftir goluþyt. Við eigum auðvitað að sýna vissa reisn og rétta úr kútnum og vera menn til þess að hafa þor og kjark til þess að taka afstöðu enda þótt málin séu umdeild utan þings:

Hv. þm. Benedikt Gröndal taldi að Alþ. hefði sýnt ótrúlega íhaldssemi á þessum vettvangi og ekki sem skyldi fylgst með þeirri þróun sem átt hefur sér stað varðandi atvinnulýðræði í öðrum löndum. Það má til sanns vegar færa. En ég vil þó minna á í þessu sambandi að ýmsir aðilar hafa vissulega tekið upp slíkt samstarf milli launþega og milli stjórnar fyrirtækja. Má þar nefna Reykjavíkurborg og ýmis fyrirtæki á hennar vegum. Bent hefur verið á í þessum umr. að samstarf hafi komist á milli farmanna og fiskimanna annars vegar og útgerðarfyrirtækja hins vegar.

Ég vil vekja athygli á því, vegna þess að hér er fullyrt að Alþfl. og alþfl.- menn hafi tekið sérstaka rögg á sig og það sé nýtt í þessu máli að þeir hafi unnið það mjög gaumgæfilega, þá vil ég að gefnu því tilefni vekja athygli á því, að árið 1972 réðust ungir sjálfstæðismenn í það að láta taka saman mjög ítarlega og fróðlega skýrslu um atvinnulýðræði og þróun þess. Þar eru settar fram hugmyndir um markmið og leiðir, gagngerar till. í því sambandi, og ég veit ekki betur en ýmis samtök á vegum Sjálfstfl. hafi ályktað í framhaldi af þessari skýrslu um atvinnulýðræði. Og það er skemmst frá því að segja, að margar þær ályktanir hníga mjög í sömu átt og þetta frv.

Ég vil taka það fram, að ég persónulega tel að þetta frv. sé efnislega þess eðlis, að vel sé hægt að samþykkja það. Það hafa verið gerðar hér aths. við form og uppsetningu frv. Það skal ég láta liggja á milli hluta, en lýsa því yfir, að ég er efnislega hlynntur því að slík ákvæði séu sett í löggjöf. Ég tel að eftir atvikum séu þau ákvæði í frv., sem hér um ræðir, þannig úr garði gerð að vel megi við þau una. Það er reiknað með því að þau nái til fyrirtækja eða félaga sem hafi að jafnaði 40 starfsmenn eða fleiri í þjónustu sinni. Samkv. 5. gr. skulu samstarfsnefndir, sem þannig eru settar upp, vera til ráðuneytis um hvað eina er varðar vinnuaðstöðu, vinnutilhögun og starfsumhverfi. Síðan segir í síðustu mgr. þessarar 5. gr. að engar samþykktir samstarfsnefndar séu bindandi fyrir fyrirtæki eða stofnun né heldur stjórnendur eða eigendur. Ég held að þarna sé eftir atvikum skrefið stigið nokkuð varlega, en verið sé á réttri leið.

Mér sýnist það vera rétt ábending hjá hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, að þetta eigi að ná og nái fyrst og fremst til ýmissa opinberra fyrirtækja, og ég tel heppilegt að byrjað sé hjá þeim.

Kostirnir við slíkar samstarfsnefndir og slíkt samstarf, sem hér er gert ráð fyrir, eru ýmsir, m. a. þeir, að þarna er komið til móts við þá almennu kröfu vinnandi fólks, að það geti látið heyra til sin, og með því er stigið skref í átt til aukins lýðræðis. Í öðru lagi hafa starfsmenn meiri möguleika á að fylgjast með því að réttur starfsmanna sé virtur þegar ákvarðanir eru teknar af stjórnendum fyrirtækja. Meiri líkur eru á því að ráðstafanir, sem fyrirhugað er að ráðast í af hálfu fyrirtækjanna séu ekki beinlínis í fullri andstöðu við hagsmuni starfsmanna og séu þá ekki svo óvinsælar að þær nái ekki fram að ganga. Þarna er í fjórða lagi tekið tillit til margvíslegra hagsmuna starfsmanna. Og í síðasta lagi eru miklu meiri líkur á að starfsmenn hafi skilning á því, af hverju ákvarðanir eru teknar, og hafi meiri skilning á því, hvernig fyrirtæki eru rekin og hvernig aðstaða og hagur fyrirtækis er hverju sinni.

Ég vil herra forseti, um leið og ég lýk máli mínu, endurtaka það, að ég er í öllum aðalatriðum fylgjandi þeirri hugsun sem fram kemur í þessu frv.