28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðum síðustu þriggja ræðumanna.

Hv. þm. Jónas Árnason, og hv. fyrirspyrjandi tóku undir það, þeir virðast álíta að þetta mál sé svo einfalt að hæstv. menntmrh. geti afgreitt þessi prófamál á hné sér og bara byggt á einhverri reynslu austan úr Mjóafirði þegar hann var að kenna þar 10–12 börnum! Það er ekki til neins að tala svona, nema ef menn náttúrlega vilja taka upp „skemmtilegar“ umr., eins og um hríðskotabyssurnar áðan. Þá er náttúrlega hægt að hafa uppi svona tal. En þetta er alveg tilgangslaust, því að við vitum það allir þm. jafnvel, að málin eru ekki lengur leyst á þennan hátt. Við Jónas Árnason erum hins vegar innilega sammála um það, og það kom glöggt fram í skemmtilegum umr. um menntamál fyrir nokkrum árum, að við söknuðum þessara gömlu daga þegar lífið var örlítið einfaldara en það er nú. Það er alveg áreiðanlegt að við erum sammála um það. En við vitum báðir jafnvel, að við snúum ekki hjólinu til baka að þessu leyti.

En ég vil út af þeim orðum, sem hafa fallið t. d. hjá þessum tveimur hv. þm. sem ég nefndi núna, leggja áherslu á það, að þessari breytingu er alls ekki dembt á fyrirvaralaust. Það hefur haft mikinn aðdraganda og það hefur margt bréfið út gengið um það, þó að sum kunni að hafa verið torskilin, eins og hv. þm. Jónas Árnason vék hér að.

Ég kann ákaflega illa við það hjá hv. þm., hverjum eftir annan, að lýsa því nánast yfir að sú menntun, sem menn kynnu að afla sér erlendis, t. d. á Norðurlöndum, t. d. í hinum breska heimi, svo að ég nefni þau lönd sem eru næst okkur og líkust að menningu, sé bara til bölvunar. Mér finnst eiginlega ómögulegt að sitja undir slíku tali og mótmæli því algerlega. Ég er ekki þannig hugsandi, að ég geti ímyndað mér það og því síður að ég mundi nokkurn tíma setja það fram á Alþ., að fólk, sem fer út fyrir landsteinana til að afla sér menntunar, komi til landsins aftur uppblásið og tali á máli sem enginn íslendingur skilur lengur. Það er ómögulegt að taka undir þetta og ómögulegt að hlusta á þetta án þess að mótmæla því. Hitt skal ég auðvitað manna fúsastur viðurkenna, að okkur séu oft mislagðar hendur og takist ekki að samhæfa þá menntun, sem menn afla sér erlendis, við okkar íslensku aðstæður, því að það er vissulega mjög rétt og það er í sjálfu sér öllum ljóst, að okkar þjóðfélag er vegna smæðar sinnar og af ýmsum fleiri ástæðum mjög ólíkt öðrum og stærri samfélögum.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði eitthvað á þá leið, að menn gæfu sér of lítinn tíma til þess að ræða þessi mál hér og fara ofan í þau, þ. e. skóla- og menntamál. Það er ég hræddur um að sé alveg rétt. Og ég er mjög í vafa um það, að hv. þm., sem núna eru að tala um þessa nýju tilhögun prófa og fordæma hana, hafi kynnt sér það sem þm. var sent í nóv., þær upplýsingar og þá skýrgreiningu sem þá var fram sett um það. Ekki skal ég neitt fullyrða um það, en mér kemur það nú í hug samt. En ég vil taka undir þau ummæli hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. Páls Péturssonar, að það væri mjög æskilegt að hafa á Alþ. umr. um málaflokka hinna einstöku rn. og í þessu tilfelli menntamálin. Það kom fram hér á þingfundi að æskilegt væri að einstakir ráðh. gæfu einu sinni á ári skýrslu um viðfangsefni sinna rn. Nú kann að vera, að þetta yrði í reynd of umfangsmikið, þannig að við hefðum varla rúm fyrir það á okkar löngu dagskrá og þegar alltaf þarf að ætla æðitíma til umr. utan dagskrár, fyrir utan allar fsp. á dagskránni. En þetta hefði ég haldið að væri mjög æskilegt og til þess fallið að auka tengsli milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. Og ekki skyldi ég skorast undan því að eiga þátt að slíku fyrir mitt rn. Satt að segja hefur mér komið það í hug og hafði raunar komið í hug áður að taka saman yfirlit og dreifa til þm. — um meginatriði sem unnið er að í menntmrn. En af því hefur þó ekki orðið. En undir þetta vil ég mjög sterklega taka, að það er æskilegt að auka þannig tengslin. En hins vegar vil ég leyfa mér að benda á það, að menntmrn. einmitt gerir nokkuð mikið að því að kynna alþm. viðfangsefni rn. með því að senda þeim Fréttabréf þess því að í Fréttabréfinu eru, eins og hv. þm. hafa séð, fjölmörg atriði reifuð, ekki einasta fagleg atriði af því tagi sem hér er verið að ræða um, heldur fjölmörg önnur viðfangsefni sem fjallað er um í rn.

Það er auðvitað alveg satt sem hv. þm. Páli Péturssonar sagði, þetta vor kemur aldrei aftur, og það er auðvitað slæmt ef verða mistök í prófum. En almennt skoðað er ég nú ekki eins sannfærður og hann um úrslitagildi prófa fyrir framtíð hins unga manns, þó að þau hafi auðvitað mjög mikið að segja.

Hv. þm. gagnrýndi það, að stúdentsprófs væri krafist við inngöngu í þennan eða hinn skólann. En mér virðist örlítið ósamræmi í því miðað við það, hversu menn virðast sjá eftir gamla kerfinu, landsprófinu og því öllu saman, sem þó var vissulega mjög gagnrýnt á sínum tíma.

Ég held að það sé ekki rétt og ég vil ekki láta því ómótmælt, að foreldrar, þ. e. a. s. hinn almenni borgari, hafi ekki haft aðstöðu til þess að vera með í leiknum við uppbyggingu menntakerfisins, þ. e. við undirbúning grunnskólalöggjafarinnar. Ég held að það hafi varla nokkurt frv., sem lagt hefur verið fram á Alþ., verið eins rækilega kynnt og eins rækilega farið í gegnum allar þær aths., sem fram komu eftir mikil fundahöld og kynningar, eins og einmitt það frv., því að það var mjög rækilega kynnt undir forustu fyrrv. menntmrh. Og ég vil einnig leggja áherslu á það, og grunnskólalögin fela það í sér með meiru, að það er reynt að fylgja því eftir að efla samtök foreldra, efla foreldrafélög, koma þeim á sem víðast og auka þannig gegnum foreldrafélögin samstarf heimila og skóla, samstarf foreldra og forsjármanna skólanna.

Ég veit að það hljóta að vera skiptar skoðanir um möguleika á því að nota útvarp og segulbönd við próf, bæði hér á landi og annars staðar. Ég hef sjálfur hugleitt þetta, t. d. hin mismunandi hlustunarskilyrði. Þá koma segulböndin til, þar sem ástæða þykir til að óttast þetta. Samt sem áður, hætta á mismunandi hlustunarskilyrðum er alltaf fyrir hendi. Er ástæða til að vekja athygli á því, um leið og menn velta þessu fyrir sér og gagnrýna þetta, að það verður aldrei komið við fullum jöfnuði að þessu leyti, þegar hver einstakur kennari, hver á sínum stað, þó að allir geri sitt besta, leggur prófið fyrir. Það er kannske ekki minni munur á því, hvernig próf er lagt fyrir af nokkur hundruð eða þúsund kennurum, heldur en þó það komi fram í svo og svo mörgum hljómflutningstækjum og útvarpstækjum.

Ég skal svo ekki lengja þetta miklu meira núna. Hv. fyrirspyrjandi áréttaði það, að hann vildi að ég segði gerr en ég áðan gerði álit mitt á þessari nýju tilhögun. Hann þarf ekkert að spyrja um það. Ég hef skrifað undir þessi bréf og í því felst samþykki að sjálfsögðu, þannig að það liggur alveg fyrir hvernig afstaða mín er til þess sem þarna er verið að gera. En hitt sagði ég og ég ætla að halda mig við það, enda er nokkuð liðið á fundartímann, að ég tel ekki hægt, satt að segja, að gera grein fyrir þessum málum faglega með örfáum orðum. Ég tel það nánast ekki hægt og með því sé maður bara að fella sleggjudóma án þess að reyna að rökstyðja þá.