26.10.1976
Sameinað þing: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er nú til umr. það samkomulag sem hæstv. ríkisstj. taldi þess eðlis að hefði inni að fela alger endalok deilna okkar við breta í sambandi við útfærslu fiskveiðilandhelginnar.

Það hefur komið hér fram og þarf ekki að ítreka það frekar, að miklar deilur voru nm þetta samkomulag þegar það var gert, og einnig hefur það komið hér fram, að stjórnarandstæðingar töldu eðlilegt og sjálfsagt að samkomulag af þessu tagi yrði borið undir Alþ. Það er raunar furðulegt að vera að ræða nú hér samkomulag sem er búið að gilda í um 5 mánuði, og nú fyrst verið að leita staðfestingar Alþ. á samkomulaginu. Það sýnir hversu ráðandi menn sýna hv. Alþ. mikinn sóma, að ætla því í lok tímabils á samkomulagi, sem hér um ræðir, að rétta upp höndina, þ.e.a.s. ef það verður þá búið að ganga frá því þegar samningstíminn er útrunninn. Þetta var gagnrýnt og er full ástæða til þess að gera það.

En það er fleira í þessu máli sem gerðist um þetta leyti eða svipað sem er ámælisvert af hálfu hæstv. ríkisstj. hvernig hún hélt á. Það var nokkuð vitað um hugsanagang og vilja a.m.k. sumra hverra hæstv. ráðh. til þess að gera samning við breta um veiðiheimildir, áður en endanlega var gengið frá þeim samningi í Osló í byrjun júnímánaðar s.l. En með þetta mál var farið af hendi hæstv. ríkisstj. á þann hátt, að það var krafist þagnareiðs af stjórnarandstæðingum í umr. um þetta mál á sínum tíma, en jafnframt gerðist það, að málgögn ríkisstj. sjálfrar vorn með samkomulagið svo til orðrétt í fyrirsögnum og umr. í viðkomandi málgögnum. Þetta finnst mér a.m.k. að sé ámælisvert. Það er varla hægt að fara fram á það, finnst mér, eða krefjast þess, að stjórnarandstaðan haldi málum í þagnargildi á sama tíma og þannig er haldið á málum af hæstv. ríkisstj., að málgögn og fjölmiðlar stuðningsliðs hennar birta svo til orðrétt það sem um er að ræða, í þessu tilviki í samkomulaginu við breta. Þetta er ekki síður ámælisvert í sambandi við þetta mál og meðferð þess heldur en hitt, að nú fyrst í lok samningstímabilsins skuli það vera borið undir hv. Alþ. hvort það vill staðfesta samkomulagið eins og það var gert.

Það hefur verið sagt hér áður og er auðvitað satt, að það þjónar tiltölulega litlum tilgangi að vera að rifja upp það sem gerst hefur í þessu máli, tala um orðinn hlut. En það verður þó varla hjá því komist að fara um það nokkrum orðum, kannske fyrst og fremst vegna þess að mér finnst að hér hafi verið haldið þannig á máli að furðulegt megi teljast, slíkur skollaleikur af hálfu æðstu ráðamanna þjóðarinnar, og hafa fengið til liðs við síg í þeim efnum furðulega marga hv. þm. úr stjórnarflokkunum til þess að taka þátt í þeim leik. Hv. þm. muna það, þegar þýski samningurinn var til umr. hér fyrir um einu ári, hverjar röksemdafærslur voru þá uppi af hálfu hæstv. ráðh. og sumra hverra stjórnarliða fyrir að gera þann samning við þjóðverja. En röksemdafærslurnar voru einfaldlega á þá leið, að það væri nauðsynlegt að gera þann samning við þjóðverja til þess að geta beitt sér af fullri einurð gegn bretum. Þetta voru röksemdirnar. Þessu má fletta upp í umr. hér frá Alþ. á þeim tíma sem rætt var um þýska samninginn fyrir um ári. Ég var einn í þeirra hópi sem héldu því fram að þýski samningurinn, ef gerður yrði, yrði grundvöllur að því að samningur yrði gerður við breta. Og það sýndi sig að vera rétt. Það held ég að enginn geti neitað nú að reynslan hafi leitt í ljós.

Það mátti lesa fjálglegar yfirlýsingar í sumum stuðningsblöðum hæstv. ríkisstj., hafðar eftir hæstv. sjútvrh. á sínum tíma, um það að enginn samningur yrði gerður við neina þjóð nema því aðeins að tollfríðindi fylgdu með, þ.e.a.s. bókun sex. Ekki gerðist þetta þegar samið var við þjóðverja. Og auðvitað vissi hver og einn sem vildi vita og vildi viðurkenna, að því aðeins komu tollfríðindi í gegnum bókun sex til framkvæmda að einnig yrði samið við breta. Það var svo augljóst sem verða mátti hverjum þeim sem vildi sjá. En menn muna hver framvinda þessara mála var. Það var samið við þjóðverja, og nokkur tími leið, tími sem notaður var af hæstv. ríkisstj. til þess að undirbúa jarðveginn til samninga við breta. En þegar að því kom og málin voru rædd hér á Alþ. aftur og aftur í umr. utan dagskrár, því öðruvísi fékkst málið ekki rætt hér á Alþ. þá kom það í ljós að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sumir hverjir a.m.k., voru þá komnir á þá skoðun eða réttara sagt viðurkenndu þá skoðun, að því aðeins væri hægt að fá fram tollfríðindi í gegnum bókun sex að líka yrði samið við breta, þ.e.a.s. þá var farið að nota röksemdafærsluna til samninga við breta með því að segja: Tollfríðindin fást ekki án þess. — Þetta tel ég skollaleik í málinu. Þarna var tvívegis búið að þvæla svo hv. stjórnarþingmenn marga hverja hér á Alþ. að þeir voru farnir hver um annan þveran að gefa yfirlýsingar sem komu þvert á þær sem þeir höfðu stuttu áður gefið í sambandi við samninga við vesturþjóðverja. Og auðvitað er þetta óeðlilegt. Ég er alveg viss um það, að innst í hjarta þessara hv. stjþm. sjá þeir eftir slíku, að hafa látið hafa síg til þess að taka þátt í leik af þessu tagi. Og vonandi verður þessi reynsla til þess að sömu hv. þm. taka ekki áfram þátt í leik af þessu tagi, þó að nú sé reynt að undirbúa að um veiðar breskra togara. 238 gerðir á svipaðan hátt og hér hefur komið fram á hv. Alþ., þ.e. undirbúa jarðveginn til áframhaldandi samninga við breta eða Efnahagsbandalagið um veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilandhelgi.

En það hefur gerst meira í sambandi við þetta mál. Síðla sumars, ég man ekki gjörla dagsetningu, var haft viðtal við breskan þingmann sem hér var í heimsókn, og talið barst að landhelgismálinu. Þessi breski þm. notaði þetta tækifæri til þess að rökstyðja þá skoðun sína og væntanlega margra annarra breskra þm. og breskra ráðamanna á þá lund, að það væri forkastanlegt ef bretar fengju ekki samning um veiðiheimildir til jafnlangs tíma og þýski samningurinn gilti og gildir, þ.e.a.s. til loka árs 1977. Þá voru bretar strax — þá þegar — farnir að beita þeim áróðri og þeim röksemdafærslum, að það næði ekki nokkurri átt að setja þá til blíðar á þeim tíma sem þýskir stjórnmálamenn, spekingar, hefðu komið því til leiðar að þjóðverjar fengju veiðiheimildir hér til loka árs 1977. Slíkur samningur við þjóðverja hlyti að verða til þess að bretar fengju sama rétt til veiða hér, og líklega á það eftir að koma á daginn að því er öll sólarmerki benda til.

Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um þetta sem liðið er. Það er, eins og hér hefur komið fram, meiri spurning hvað tekur við að loknu þessu samningstímabili við breta. Enginn vafi er á því að enn eru öfl innan hæstv. ríkisstj. sem eru hvetjandi til áframhaldandi samninga við breta og samningsgerðar, annaðhvort breta eða Efnahagsbandalagið sem heild. Og aukinn þrýstingur virðist nú vera á það frá Bretlandi og breskum stjórnvöldum að gengið verði úr skugga um það hið allra fyrsta hvort Efnahagsbandalagið geti komið sér saman í þessu máli á þann veg að það sem heild geti tekið upp viðræður við íslensk stjórnvöld um landhelgismálið. Verði það ekki gert innan tíðar, þá taki bretar sjálfir og einir upp þessar viðræður. Og meira að segja gengur þetta svo langt, að utanrrh. breta, Crosland, að því er virðist hefur látið eftir sér hafa að búið sé að dagsetja viðræðufund með íslenskum ráðamönnum í sambandi við þetta mál. Hæstv. utanrrh. hefur að vísu lýst því yfir hér á Alþ. að hann sé undrandi á slíkum ummælum þess breska og kannist ekki við að neitt slíkt hafi gerst. Og ekki skal ég að óreyndu vefengja það, að hæstv. utanrrh. fari með rétt mál. En við höfum áður heyrt slíkt. Við höfum áður fengið um það fréttir erlendis frá, að búið væri að ákveða stað og stund og að viðræður hafi farið fram án þess að íslensk stjórnvöld vilji við það kannast.

Það er sem sagt ljóst, að gífurlegur þrýstingur verður á um það að veita áframhaldandi veiðiheimildir til handa bretum innan landhelginnar eftir 1. des. Spurningin er því sú, hvort það verður staðið þannig að málum af hálfu þeirra sem ráða, þ.e.a.s. íslensku ríkisstj, að slíkt verði ekki gert. Það fer ekkert milli mála að minni hyggju, að langsamlega mikill, yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar vill að það verði ekki gerðir samningar við breta, vill losna undan því að það verði gert.

Og ég vil vænta þess af hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir þann samningsvilja sem mér virðist vera í brjóstum sumra hverra hæstv. ráðh., að þá verði það ofan á að ekki verði teknir upp frekari samningar um veiðiheimildir bretum til handa eftir 1. des.

M.a. hefur það upplýst hér á hv. Alþ.,hæstv. sjútvrh. er þess hvetjandi að viðræður verði teknar upp, og hæstv. utanrrh., ef ég man rétt, var á svipaðri skoðun hér í umr. ekki alls fyrir löngu í hv. Nd. Það segir auðvitað ekki allt þó að þessir hæstv. ráðh. séu þeirrar skoðunar að taka beri upp viðræður. En hættan er bara sú, kannske fyrst og fremst vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur enga ákveðna stefnu í málinu, að þegar búið er að gangast inn á að taka upp viðræður og komið út í viðræður, þá leiðist menn enn þá lengra, vonandi þrátt fyrir aðra skoðun, og það endi með því að samningar verði gerðir. Og ég sé að í öðru síðdegisblaðanna í dag er á forsíðu haft eftir hæstv. sjútvrh.ríkisstj. muni vafalaust tala hvort sem er við breta eða Efnahagsbandalagið sem heild um landhelgismálið, og það boðar ekki gott í mínum huga með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur af því sem gerst hefur af hálfu ríkisstj. í málinu á undanförnum mánuðum.

Það fór ekkert á milli mála að við lýstum okkur andvíga samningnum við breta sem gerður var í júní s.l., þannig að það er ljóst að sú þáltill., sem hér er, um það samkomulag, fær ekki okkar stuðning. En ég held að það ætti að vera orðið öllum ljóst, hversu mikill vilji sem fyrir því annars kynni að vera að leysa mál með einhvers konar samkomulagi nú í sambandi við breta, hversu mikill vilji sem fyrir því væri, þá er ekkert um að semja af okkar hálfu. Það er gersamlega um tómt mál að tala. Ástand fiskstofnanna og sóknin á miðin er með þeim hætti að það er bókstaflega um tómt mál að tala að veita útlendingum frekari aðgang að þessari auðlind heldur en þegar hefur verið gert. Það ber því fremur að nota hvert tækifæri, sem gefst til þess að losna undan oki þýska samningsins, heldur en að taka nú upp áframhaldandi samningsviðræður og samningsgerð við breta. Ég skal ekkert um það segja á þessu stigi, hvort endirinn verður sá. Ég óttast það með hliðsjón af því sem reynslan sýnir og einnig með það í huga sem hæstv. ráðh. sumir hverjir hafa látið eftir sér hafa, óbeinlínis sagt í sambandi við þær horfur sem fram undan eru þegar samningurinn við breta fellur út núna 1. des.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða lengri tíma í umr. um þetta mál á þessu stigi, því að eins og ég sagði áðan, þá þjónar það kannske litlum tilgangi að vera í löngu máli að ræða það sem búið er og gert. Framtíðin sker svo úr um það hvert framhaldið verður, hvort ég og aðrir þeir, sem eru þannig þenkjandi að þeir óttast að hæstv. ríkisstj. geri áframhaldandi samning, höfum rétt fyrir okkur eða ekki. Þar verður framtíðin ein að skera úr. En ég vona þjóðarinnar vegna að við stjórnarandstæðingar höfum rangt fyrir okkur í þessum efnum, þannig að það takist að afstýra því að hæstv. ríkisstj. gangi til frekari samningsgerðar og samkomulags um veiðiheimildir bretum til handa.