02.03.1977
Efri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

106. mál, innflutningur á olíupramma

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið í nál. er ég því fylgjandi að mál þetta nái hér afgreiðslu. En þar sem ég hef verið inntur eftir því af ýmsum hv. þm., hvaða rök hnígi til þess að samgn. gengur hér gegn áliti Siglingamálastofnunarinnar, þá óska ég þess eindregið að bréf Siglingamálastofnunarinnar, þar sem fram koma rök hennar gegn kaupum á skipi þessu, verði lesið hér upp í heild, og tel raunar algjörlega óverjandi að þm. fái ekki að heyra þetta bréf, þannig að í ljós komi hví samgn. gengur gegn þessu áliti Siglingamálastofnunarinnar, svo að hv. dm. geti tekið rökstudda afstöðu til þessa máls.