03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

110. mál, meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. sem hér er til umr., er nánast einn þáttur í því mikla umbótastarfi sem hæstv. dómsmrh. hefur beitt sér fyrir í dómsmálum og réttarfarsmálum á undanförnum árum og hefur m. a. miðað að hraðari meðferð dómsmála og meiri aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds.

Það er sýnilegt að mönnum hættir til þess í sambandi við umr. um dómsmál og meðferð dómsmála og sakamála að skjótast yfir það, að þessi mál þurfa vandlega meðferð til þess að dómsniðurstaða verði rétt, og að því leyti til hafa íslensk lög og réttarákvæði gengið nokkuð langt í því að tryggja örugga meðferð dómsmála í því skyni að niðurstöður verði að lokum réttar. En þjóðfélagið hefur breyst og þ. á m. hefur komið til sú gífurlega verðbólga, sem við búum við. Hún hefur gert það að verkum, að mörg mál — smámál — eru þannig í eðli sínu að það borgar sig hreinlega ekki fyrir menn að leita réttar síns, ef um er að ræða peningaupphæðir, í gegnum hið almenna kerfi. Þess vegna hafa komið fram auknar kröfur um hraðari meðferð þessara mála.

Hér er um að ræða till. til þál. um fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum. Meðferðin er þannig í stuttu máli nú, sú almenna meðferð, að það þarf að stefna inn málum. Að vísu er aðalreglan sú samkv. lögum okkar, að mál skuli leggja til sátta fyrir sáttanefnd, en í reyndinni eru undanþágur frá þessari meginreglu svo margar að telja verður hana í framkvæmdinni sem undantekningarreglu. Aðalreglan er sú, að gengið er fram hjá sáttanefnd. Það er hægt að gera með samkomulagi aðila og er mjög algengt. Einnig eru margar tegundir mála sem beinlínis er ætlast til að dómari leiti sátta í, þannig að sáttastörfin fyrir sáttanefnd eru orðin mjög fátíð. Það mætti e. t. v. orða það svo, að þessi till. fjallaði m. a. um möguleika á því að auka að nokkru leyti sáttastörf dómaranna sjálfra og væri stungið upp á þeirri aðferð, að frekar væri um ákvörðun af hálfu dómara að ræða í minni háttar málum heldur en beinlínis dóm, — ákvörðun sem aðilar síðan sættu sig við, — og það væri hægt að koma þeirri skipan á meðferð slíkra mála, að meginþorri þeirra gæti sætt þessari meðferð.

Ég minntist á það áður, að þessi till. væri þáttur í miklu umbótastarfi sem hefur átt sér stað á sviði dómsmála á undanförnum árum, — miklu meira umbótastarfi en nokkru sinni hefur átt sér stað á seinni áratugum í dómsmálasögu landsins, ef svo mætti að orði komast. Ég hef tekið saman nokkurt yfirlit yfir þau lög um dómsmál sem hæstv. dómsmrh. hefur beitt sér fyrir síðan hann tók við starfi dómsmrh. Ég ætla að það sé í kringum 40 lög, sem hafa verið samþykkt á sviði dómsmála, og þessi háa tala gefur auðvitað til kynna hversu mikið umbótastarf hefur verið unnið á þessu sviði. En hún gerir það þó ekki ein, vegna þess að mörg þeirra laga, sem samþykkt hafa verið á undanförnum árum, eru stórir og merkir lagabálkar sem áreiðanlega marka djúp spor og þýðingarmikil í framvindu og þróun íslenskra dómsmála.

Það er ástæða til þess að minnast á örfá mál. Ég vil fyrst minnast á lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o. fl. frá 1972, sem fjölluðu aðallega um að fjölga sjálfstæðum dómurum bæði við dómstóla utan Reykjavíkur og einnig hér í Reykjavík, sem vitanlega var stórt skref í áttina til þess að hraða meðferð dómsmála, — fjölga þeim mönnum, sem fjalla sem sjálfstæðir dómarar um dómsmál. og hraða þessum störfum. Það mætti minna á löggjöf eins og nýja löggjöf um framkvæmd eignarnáms, sem er að vísu nokkurs annars eðlis, en þó er dómsmál og sætir sérstakri meðferð. Það mætti minnast á löggjöf eins og lög um lögreglustjóra í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafeilssýslu, þar sem settur var lögreglustjóri og síðar sýslumaður með nýsettum lögum, eins og kunnugt er. Og það mætti minna á lög eins og heildarlöggjöf um fangelsi og vinnuhæli, sem gerir ráð fyrir að ríkið yfirtaki þau málefni. Er það merk löggjöf sem bíður eftir framkvæmdum og þarf auðvitað verulegt fjármagn til. Ætla ég að það sé nokkuð sterkur vilji til þess hér á hv. Alþ. að beina meira fjármagni til þeirra mála en gert hefur verið á undanförnum áratugum. Þá er ástæða til að nefna breytingu á lögum um Hæstarétt, æðsta dómstól landsins, þar sem fjölgað var dómendum í Hæstarétti. Þeir voru 5 fyrir, var fjölgað í 6 og jafnframt heimilað að þrír þeirra dæmdu vissar tegundir minni háttar mála. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að hraða meðferð mála fyrir dómstólum.

Þá er ástæða til að nefna lög um sérstakan dómara og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum. Það er ný tegund afbrota sem þessi dómstóll fjallar aðallega um, en hann hefur verið hlaðinn verkefnum og það e. t. v. í vaxandi mæli. Það var því vonum seinna að settur var upp sérstakur dómstóll til að fjalla um þessi alvarlegu mál og taka þau í öndverðu sterkum tökum.

Þá eru fjölmörg lög, sem fjalla um breytingar á lögum um meðferð bæði einkamála og opinberra mála. Má nefna lög um endurskipulagningu á saksóknaraembættinu, og fjölmargt fleira mætti tina til ef allt væri talið sem gert hefur verið í þessum efnum á undanförnum tiltölulega fáum árum. Ný lagaákvæði innan lagabálka, eins og t. d. almennra hegningarlaga, laga um meðferð einkamála í héraði, laga um meðferð opinberra mála og fleiri lagabálka, mætti og nefna, sem lögfest hafa verið á undanförnum árum. Á seinasta þingi voru t. d. gerðar breytingar á almennum hegningarlögum um reynslulausn fanga og á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um röskun á friðhelgi einstaklinga. Það mætti nefna frv. til l. um breyt. á l. um meðferð einkamála í héraði, þar sem breytt var ýmsum ákvæðum laganna í því skyni að heimila hljóðritanir á dómþingum. Allt er þetta gert til þess að hraða meðferð mála fyrir dómstólum. Breytingar hafa verið lagðar til á ýmsum ákvæðum umferðarlaga, m. a. að það væri hætt að umskrá ökutæki vegna flutninga á milli lögsagnarumdæma. Tekin hefur verið upp skráning á beltabifhjólum og hækkaðar lögboðnar ábyrgðartryggingar ökutækja. Þó að þetta séu ekki strangt tekið dómsmál, þá eru þetta málefni sem eru skyld og koma til álita þegar um er að ræða meðferð á brotum sem varða þessi hættulegu tæki. Þá hefur verið gerð breyting á almennum hegningarlögum sem varðar nauðsynlega viðbót við lögin vegna milliríkjasamninga um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þ. á m. sendierindrekum, breyting á lögum um meðferð opinberra mála sem fjallar um sektarheimild lögreglustjóra og lögreglumanna, þess efnis að sektarmörk verði hækkuð, frv. til l. um norræna vitnaskyldu sem fjallar um að norðurlandabúum verði gert skylt að mæta sem vitni fyrir dómstólum hvar sem er á Norðurlöndum, og fleira mætti nefna. Þá er ástæða til að minna á hinn mikla lagabálk um rannsóknarlögreglu ríkisins sem var samþ. á Alþ. hér í vetur og kom til framkvæmda 1. jan. s. l. Einnig er ástæða til að minna á frv. til l. um breyt. á l. um meðferð einkamála í héraði sem gerir ráð fyrir því að leita skuli álits sérstakrar n. áður en embætti héraðsdómara er veitt. Hér er um að ræða algert nýmæli um hvernig fara skuli með veitingu dómaraembætta. Það hefur oft verið gagnrýnt hvernig að þeim málum er staðið og hverjir fá veitingu embætta, en hér er gerð markviss tilraun til þess að sérstök n. segi álit sitt um umsækjendur áður en embætti héraðsdómara eru veitt. Það ætti að vera nokkur trygging fyrir því að vandvirknislega sé unnið að þessum málum.

Varðandi þessa þáltill. er ástæða til að minna á það, að fyrir Alþ. liggur frv. til lögréttulaga sem er talsverður lagabálkur og gerir ráð fyrir verulegum breytingum á dómstólakerfinu. Segir svo í grg. fyrir þessu frv., með leyfi forseta:

„Hinn 6. okt. 1972 skipaði Ólafur Jóhannesson dómsmrh. n. til að endurskoða dómstólakerfi landsins og til að kanna og gera tillögur um hvernig breyta megi reglum um málsmeðferð 1 héraði til þess að afgreiðsla mála verði hraðari.“

N. þessi hefur verið kölluð réttarfarsnefnd og hefur samið umsagnir um nokkur mál sem til hennar hefur verið vísað. Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún sendi málið til umsagnar eða óski eftir því að það verði sent til umsagnar réttarfarsnefndar, þannig að hún geti athugað gildi þess. Jafnframt gæti komið til greina að fella slíka málsmeðferð sem hér er stungið upp á inn í lögréttulög. Það er hugsanlegt.

Í grg. fyrir frv. til lögréttulaga segir enn fremur á þessa leið:

„Svo sem brátt verður nánar rætt, eru aðaltillögur réttarfarsnefndar þær, að stofnaðir verði tveir nýir dómstólar, sem n. leggur til að kallist lögréttur. Dómstólar þessir skulu aðallega starfa í Reykjavík og Akureyri, en umdæmi þeirra vera landið allt. Þeir skulu fjalla um hin stærri mál sem fyrsta dómstig, en um önnur mál sem annað dómsstig, áfrýjunardómstóll. Er lögrétta hefur fjallað um mál sem áfrýjunardómstóll, ætti yfirleitt ekki að mega skjóta því til Hæstaréttar nema í undantekningartilvíkum.“

Það er sýnilegt af þessu lagafrv., að því er m. a. ætlað að vinna í sömu átt sem fjölmörg ný lagaákvæði og breytingar á lögum sem varða dómstóla og dómsmál er ætlað að vinna, sem sagt í þá átt að hraða meðferð dómsmála. Og eins og ég sagði í upphafi er þessi þáltill. aðeins till. um þátt í þessu máli, uppástunga um hvernig hugsanlegt væri að haga meðferð minni háttar mála, sérstaklega með tilliti til þess að hraða meðferð þeirra. Þá er sérstaklega haft í huga, eins og fram kom hjá frsm. og kemur fram í grg., að huga að þeirri meðferð, sem tekin hefur verið upp hjá sumum öðrum þjóðum, og hvaða reynslu þær hafa af þeirri málsmeðferð sem þar hefur verið tekin upp í þessu skyni varðandi minni háttar mál.

Ég taldi rétt í sambandi við þetta mál að vekja athygli hv. þm. á því, hversu gífurlega mikið starf hefur verið unnið á sviði endurbóta á dómsmálum á undanförnum árum. Það má segja, að á tímabili hafi þetta mikla löggjafarstarf í raun og veru horfið í skugga þeirra gífurlegu umr. í fjölmiðlum sem voru á köflum með þeim hætti að ekki samrýmdist umbótastarfi. Þetta mikla umbótastarf hefur fallið í skugga fyrir þeim miklu umr. Ástæða er til að minna á það hér á hv. Alþ., að í engan annan tíma á seinni áratugum hefur Alþ. verið eins mikilvirkt á sviði dómsmála og á undanförnum fáum árum, og vil ég vekja athygli á því og undirstrika það, að það hefur verið gert undir forustu hæstv. dómsmrh.