14.10.1976
Efri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

21. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þá er að mæla fyrir frv. til leiklistarlaga. Aðdragandi þessa máls er í fáum orðum þessi:

Í febr. 1972 var samþ. á Alþingi svofelld þál.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka til endurskoðunar lög nr. 15 frá 15. mars 1965, um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna.“

Haustið eftir skipaði þáv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, 5 manna n. til þess að undirbúa málið og Knútur Hallsson skrifstofustjóri var formaður n. þessi n. samdi frv. til leiklistarlaga og fylgdi því grg. sem prentuð er sem fskj. með þessu frv. svo og þau frv: drög sem þessi n. samdi.

Mér þótti eftir töluverða yfirvegun rétt að víkja verulega frá till. n., einkum að því er varðar starfssvið leiklistarráðsins.

Þessu frv. er ætlað að marka í megindráttum hversu haga beri stuðningi ríkisvalds og sveitarfélaga við leiklistarstarfsemina í landinu. Í því eru hins vegar engin fyrirmæli um fjárhæðir framlaga, en gert er ráð fyrir að þær verði ákveðnar í fjárlögum ríkisins og fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna hverju sinni.

Annað meginatriði þessa frv. er að stofna leiklistarráð með aðild þeirra sem ætla má að einkum láti leiklist til sín taka. Ég ætla, eins og segir í frv., að þetta ráð geti orðið vettvangur skoðanaskipta og umræðna um leiklistarmálin og að það geti stuðlað að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma. Þá er í frv. gert ráð fyrir því að leiklistarráðið kjósi 3 manna framkvæmdastjórn. Leiklistarráðið skal vera ólaunað, en gert er ráð fyrir að greiða framkvæmdastjórninni þóknun og ferða- og dvalarkostnað utanbæjarmanna. Enginn annar kostnaður mundi fylgja þessari lagasetningu, nema framkvæmdastjórnin fengi þóknun og greiddur yrði ferða- og dvalarkostnaður fulltrúa utan af landi.

Það er, held ég, ekki ofsögum sagt að um þessar mundir er töluvert mikil gróska í leiklistarstarfsemi Íslendinga. Starfsemi Þjóðleikhússins hefur verið öflug. Leikfélag Reykjavíkur rekur orðið atvinnuleikhús og Leikfélag Akureyrar er að færast yfir á það svið einnig. Það er alkunnugt hvernig íslenskt leiklistarfólk hefur getið sér frægð á erlendri grund og það á mörgum stöðum. Starfsemi Bandalags ísl. leikfélaga og aðila þess hefur færst mjög í aukana á síðustu missirum. Félögum hefur fjölgað og starfsemi þeirra hefur almennt aukist mikið. Bandalagið hefur verið athafnasamt sem fyrirgreiðsluaðili. Það má enn geta þess í þessu sambandi, að stofnaður hefur verið Leiklistarskóli ríkisins, en áður hafði verið nokkur lægð í leiklistarkennslu um hríð og lítið skipulagt. Sá skóli tók við af tveimur einkaskólum sem höfðu þá starfsemi um hríð. Það má e.t.v. segja að óeðlilega margir hafi verið við leiklistarnám eins og komið var meðan þetta var svona skipulagslitið. En þá er jafnframt á það að líta, að það hafði orðið hlé á slíku skólastarfi og að sú gróska, sem er í leiklistarstarfseminni yfir höfuð, kallar auðvitað á aukinn starfskraft, leiðbeinendur t.d. og svo leikara við atvinnuleikhúsin. Þegar þannig er ástatt, þá held ég að megi teljast tímabært að setja rammalöggjöf um stuðning hins opinbera við leiklistina og þá jafnframt að efna til starfsemi á borð við þá sem áformað er að leiklistarráðið og framkvæmdastjórn þess hafi með höndum. Og ég held satt að segja að þó þetta frv. til leiklistarlaga sé ekki í sjálfu sér viðamikið og láti ekki mikið yfir sér, þá muni leiklistarfólk í landinu telja verulegan ávinning að lagasetningu í þá stefnu sem frv. gerir ráð fyrir.

Það mun rétt, þó hér sé ekki um háar upphæðir að ræða, að láta einnig gera áætlun um hvaða kostnað muni leiða af þessu frv. og koma þeirri áætlun til menntmn. þessarar hv. d. svo fljótt sem auðið er.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til hv. menntmn.