07.03.1977
Efri deild: 48. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

150. mál, fávitastofnanir

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breyt. á l. um fávitastofnanir frá 1967. Breyt. er í því fólgin að umorða 15. gr. þeirra laga. 15. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við aðalfávitahæli ríkisins skal reka skóla til að sérmennta fólk til fávitagæslu. Forstöðumaður er skólastjóri, en undanþeginn skal hann kennsluskyldu. Um stjórn skólans, námstíma, námsefni, prófkröfur og annað, er varðar starfsemi hans, skal ákveðið í reglugerð.“

Í frv. er lagt til að 15. gr. orðist svo:

„Ríkið skal starfrækja skóla, Þroskaþjálfaskóla Íslands. Hlutverk skólans er að mennta fólk til að gegna uppeldi, umönnun og þjálfun þroskaheftra.

Skólastjóri Þroskaþjálfaskóla Íslands skal hafa lokið háskólaprófi í uppeldis- og sálarfræði eða hafa lokið sérkennaraprófi frá viðurkenndum háskóla. Skólastjóri skal einnig hafa staðgóða þekkingu á uppeldi og umönnun fólks með sérþarfir.

Um stjórn skólans, starfslið, námstíma, námsefni, inntökuskilyrði og annað, er varðar starfsemi hans, skal ákveðið í reglugerð.“

Hér er sem sagt um að ræða með breyt. á 15. gr. að stuðla að því, að skólastjóri við Þroskaþjálfaskóla Íslands hafi jafnan þann lærdóm til að bera sem nauðsynlegur er. Mál þroskaheftra og möguleikar hafa breyst allmikið núna á síðustu árum. Ýmsar nýjungar í þjálfun, andlegri og líkamlegri, hafa verið teknar upp, og sömuleiðis hafa aðferðir við kennslu stórkostlega breyst. Þess vegna var talið nauðsynlegt að tryggja með breyt. á þessari grein að skólastjóri með sérþekkingu á þörfum þessa fólks yrði ráðinn við skólann.

N. kallaði á sinn fund fulltrúa þroskaþjálfa og að viðræðum loknum voru allir á einu máli um að leggja til að frv. yrði samþykkt óbreytt.