07.03.1977
Neðri deild: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

67. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. hefur athugað þetta frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Álit n. er á þskj. 349. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl., sem sett voru 24. ágúst 1976, um breyt. á l. um Lífeyrissjóð bænda. í sambandi við setningu þeirra brbl. sagði svo í aths. við þau:

„Í sambandi við lausn kjaradeilunnar í febrúarmánuði s. l. gerðu Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna með sér samkomulag um málefni lífeyrissjóða, þar sem m. a. var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir á samningssviði þessara samtaka veittu lífeyrisþegum sínum, sem rétt eiga skv. l. nr. 63/1971, sérstaka uppbót árin 1976 og 1977, þannig að lífeyrisgreiðslur þessar verði betur verðtryggðar en hingað til.

Með l. nr. 33 20. maí 1976, um breyt. á l. nr. 63/1971, var þessu áformi hrundið í framkvæmd. Jafnframt var gert ráð fyrir að sambærilegar breytingar yrðu gerðar á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Ekki vannst þó tími til þess á s. l. þingi að bera fram slíkt frv. þótt ljós væri þörf slíkrar breytingar þegar á þessu sumri,“ — þ. e. sumarið 1976, — „en lífeyrisfjárhæðir til aldraðra félaga í Lífeyrisssjóði bænda hafa ekki hækkað síðan á árinu 1974.“ Þetta var ástæðan fyrir setningu brbl. sem hér eru nú til staðfestingar. Þetta skýrir málið nægilega og hef ég því ekki neinu við það að bæta.