09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2521 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Umr. þessar hafa orðið alllangar og hefur hjá langflestum ræðumanna komið fram mjög vinsamlegur áhugi á því málefni sem um er rætt, sem sagt dvalarheimilum aldraðra, en það er aðeins einn þáttur í málefnum aldraðra. Það er ekki verið að fjalla um sjúkradeildir fyrir aldraða. Það er í raun og veru allt annað mál sem tilheyrir hreinlega heilbrigðissviðinu. Og svo eru komnar fram nýjar hugmyndir, eins og hv. 8. þm. Reykv. benti á í ágætri ræðu sinni, um hugsanleg dagvistarheimili.

Ég skal ekki lengja umr. með því að fjalla frekar um málefni aldraðra almennt, en víkja að örfáum atriðum sem varða afgreiðslu málsins hér á Alþingi.

Mér kom nokkuð á óvart ræða hv. 5. þm. Reykn., ekki af því að hann talaði eins og hreinn íhaldsmaður sem hann er, — ég þakka yfirleitt fyrir það þegar menn gera það, — heldur hver tónn var í honum í sambandi við þau sveitarfélög sem hafa á síðustu árum eða eftir samþykkt laganna 1973 hafið byggingu elliheimila. Alþ. samþykkir með lögum að ríkið geti veitt 1/3 í byggingarstyrk til elliheimila. Sum sveitarfélög hefja slíka byggingu eftir að lögin hafa verið sett. Svo kemur þessi hv. þm. núna og skammar þessi sveitarfélög fyrir að þau hafi gert sig sek um einhverja firru. Eiga sveitarfélögin og á landsfólkið yfirleitt ekki að taka neitt mark á því sem Alþ. er að gera? Nú er mér vel kunnugt um það, að stundum er þetta ekki bindandi, heldur er þetta heimild. En Alþ. þarf í sjálfu sér ekki að veita sjálfu sér neinar heimildir með lögum til fjárveitinga. Þess vegna hefur það farið svo í skólamálum og öðru, að það hefur verið lítið á að sveitarfélög gætu reiknað með slíkum styrk, en hitt væri svo Alþingis, að ákveða hversu fljótt fjárhagsaðstæður leyfðu það. Ég vil því algerlega vísa því á bug sem óverðskuldaðri árás á sveitarfélögin að ráðast á þau fyrir að þau skyldu hefja byggingu elliheimila eða dvalarheimila aldraðra í kjölfar þess að Alþ. hafði samþykkt ný lög um slíka aðstoð.

Hv. þm. sagði að við, sem stöndum að þessu frv. og styðjum það, séum menn sem ekki treysta sveitarstjórnum. Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla þessu algerlega og skýra hv. þm. og öðrum dm. frá því, að ég samdi þetta frv. og flutti það ásamt einum flokksbróður mínum samkv. beinum óskum frá sveitarstjórnum. Sú ósk kom fram í samþykkt sem var gerð einróma á fundi í Sambandi sveitarfélaga á Vesturlandi. Einn af gestum fundarins var flokksbróðir hv. þm., sýslumaðurinn í Borgarnesi, sem stóð upp og tók sérstaklega undir þessa till. af því að hann hefur með eitt elliheimili að gera. Síðan hef ég fengið beinar óskir um þetta frá bæjarstjórnarmönnum á Akranesi, þar sem annað slíkt heimili er að rísa, þannig að það er algerlega út í hött að vera að bera mönnum á brýn að þeir treysti ekki sveitarstjórnarmönnum eða séu að hygla ríkisvaldi um of þegar þeir eru að flytja mál fyrir sveitarstjórnarmenn í sinu eigin kjördæmi, af því að þeir eru í vandræðum með þessi nauðsynlegu mannvirki vegna þess að núv. ríkisstj. hefur klúðrað þessu máli og gerði það á algerlega óverjandi hátt, því að hún ætlaði að láta ákvörðunina gilda aftur fyrir sig og neita mönnum um að standa við 1/3 af því sem hafði verið byggt þegar lögin voru afturkölluð með bandorminum. Það er því út í hött að vera með prédikanir um að menn séu eitthvað andstæðir því að sveitarfélögin hafi sitt vald. Ég held að hv. þm. ætti að kynna sér betur eða íhuga betur — hann veit þetta allt saman — reynsluna í sambandi við skólamálin áður en nokkuð var gert til þess að koma á samræmi í skólabyggingum, þegar einhver hreppsnefnd einhvers staðar á landinu gat bara með einfaldri samþykkt eða jafnvel byggingarnefnd hreppsnefndar samþykkt að setja hurðarhúna úr skíra gulli í heilan barnaskóla og enginn gat hindrað það, þá varð ríkið að gera svo vel að borga sinn hluta af þeim kostnaði. Heilbrigð skynsemi virðist ekki mega koma hér til, þá fær maður þessar íhaldsprédikanir með viðeigandi ásökunum sem eru auðvitað algerlega út í hött.

Ég ætla svo að lokum að segja örfá orð um þetta atriði, sem sumum virðist vera eingöngu formsatriði, þegar stjórnarmeirihl., sem eins og hv. síðasti ræðumaður sagði þarf stundum að gegna því hvimleiða hlutverki að drepa góð mál, — ég skal ekki neita því, ég hef orðið að gera það, — að það er ekki alltaf sama hvernig það er gert. Í þessu tilfelli vil ég aðeins benda mönnum á, að það hefur verið upplýst að n. starfi að endurskoðun laga sem snerta þetta atriði. Ég hafði ekki hugmynd um þá n. þegar ég flutti frv., og það er flutt samkv. óskum sveitarstjórna, svo að ég get ekki tekið því þegjandi að það sé kallað sýndarmál eingöngu. Ef frv. er fellt á Alþ. núna og segjum svo að þessi n., sem er að starfa einhvers staðar úti í bæ, kæmist að þeirri niðurstöðu að það væri þrátt fyrir allt rétt að taka þennan lið úr bandorminum og taka upp styrkina til ríkisins aftur, mundi sú u. þá geta talið sér fært að leggja til við Alþ. að það tæki upp ríkisstyrki sem voru felldir hér fyrir nokkrum dögum, ef hún skilaði áliti bráðlega? Við skulum athuga það, að þó að okkur þyki lítið til svona formsatriða koma við afgreiðslu máls þá gildir það að bókstafurinn blífur og því hefur oft verið flett upp hvernig Alþ. hafi farið með mál. Ég veit ekki hvernig þm. mundu líta á það ef n., sem er að starfa á vegum ríkisstj., sem er aðeins þingnefnd í raun og veru þó að hún sé þeirra æðst, vildi leggja til að þessir styrkir til byggingar elliheimils væru teknir upp, hvort hún gæti gert það þvert ofan í það að stjórnarliðið í stærri deildinni hefði fellt þetta frv. Það er þetta sem veldur því, að hér er ekki eingöngu um blæbrigði eða formsatriði að ræða og þaðan af síður sárindi. Ég vil því benda á að það eru raunverulega málefnaleg rök fyrir því, að það er skynsamlegri og eðlilegri lausn að vísa málinu til n. úr því að henni er á annað borð falið að vera ráðgefandi fyrir stjórnarmeirihl. í þessu máli, heldur en að fella málið, því að þá á n. einskis kost framar hvað þetta atriði snertir.