21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2662 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Frsm. minni hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. frsm. meiri hl. iðnn., varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, virkjun Hvítár í Borgarfirði. Við erum tveir sem skiluðum minnihlutaáliti, auk mín hv. þm. Stefán Jónsson. Ég vil taka það fram í upphafi, að með þessu minnihlutaáliti erum við út af fyrir sig ekki að leggjast gegn virkjun Hvítár eða dæma Kljáfoss óhæfan til virkjunar. Vel má vera og margt bendir satt að segja til þess að Kljáfoss sé heldur hentug lítil virkjun og geti fallið inn í virkjanaáform okkar íslendinga ef rétt er á málum haldið. Það er öllu fremur að við erum að mótmæla þeirri málsmeðferð, sem hefur að vísu tíðkast alllengi hér hjá okkur á hv. Alþ. við meðferð slíkra stórmála, að veita heimild og láta svo slag standa með það. Við teljum að reynslan hafi sýnt okkur að þarna eigi að breyta um starfshætti. Auk þess verður að segja að í þeim, umsögnum, sem fram hafa komið um þetta mál, er sumt þannig að okkur finnst satt að segja ákaflega hæpið fyrir hv. Alþ. að afgreiða málið með jákvæðum hætti.

Eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. var málið sent til umsagnar. Það var sent til umsagnar til Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Umsögn samtakanna var að sjálfsögðu jákvæð. Ég segi: að sjálfsögðu, því að þau hafa þegar lagt mjög eindregið með málinu í fylgiskjali með þessu frv. Þá var það einnig sent til Rafmagnsveitna ríkisins, Orkustofnunar og Landsvirkjunar. Því miður hefur umsögn ekki borist frá Landsvirkjun, en ég hef hins vegar reynt að afla mér upplýsinga um það, sem þar er í undirbúningi, og sú umsögn mun, vænti ég, liggja fyrir þegar hv. iðnn. Nd. fjallar um málið. En það get ég sagt hér, að þar er mjög dregið í efa að þessi virkjun sé skynsamleg.

Ég get hins vegar ekki tekið undir það, að umsagnir Rafmagnsveitna ríkisins og Orkustofnunar séu jákvæðar, þótt þessar stofnanir sjái ekkert við það að athuga að heimild verði veitt eins og siður hefur verið. Þvert á móti koma fram í þessum umsögnum báðum vissar efasemdir. Báðar segja að málið sé ekki það vel undirbúið að hægt sé að skoða það tæknilega. Þó er umsögn Orkustofnunar langtum meira afgerandi á þennan máta heldur en umsögn Rafmagnsveitna ríkisins. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa aðeins úr þeirri umsögn sem hefur borið hér á góma. Þar segir m. a.:

„Fylgiskjöl með frv. eru ákaflega ófullkomin, svo ófullkomin að þau eru ekki frambærileg með frv. sem lagt er fyrir Alþingi.“ Þetta getur varla kallast jákvæð umsögn. „Engin leið er að sannreyna þær fáu lauslegu kostnaðartölur sem þar eru fram settar. Orkustofnun verður því að hafa allan fyrirvara í þessari umsögn sinni varðandi áreiðanleik þeirra áætlana sem liggja fyrir um virkjun við Kljáfoss.“

Ennfremur segir í umsögn Orkustofnunar: „Kljáfossvirkjun mundi senda orku sína inn á samtengt raforkukerfi sem nær innan fárra ára frá Suðurlandi til Austurlands. Til skamms tíma var þetta kerfi miklu minna og náði aðeins yfir Suðvesturland og hluta Vesturlands: Borgarfjarðar- og Mýrasýslu. Tenging milli Suðurlands og Vesturlands var einn sæstrengur undir Hvalfjörð og er raunar svo enn. Meðan svo var mátti því með nokkrum rétti kalla að samtenging þeirra væri veik. Af þessum sökum var áður lögð allmikil áhersla á öryggissjónarmiðið í sambandi við Kljáfossvirkjun. Með tilkomu Hvalfjarðarlinu til Grundartanga og byggðalínu gjörbreytast þau viðhorf hins vegar og Vesturlandskerfið verður tengt Landsvirkjunarkerfinu á miklum mun öflugri og traustari hátt en áður var. Gildi Kljáfossvirkjunar verður hér eftir bundið við að hún geti framleitt orku á hagkvæman hátt fremur en að hún sé varastöð.“

Ég vek sérstaklega athygli á þessu, því að þessu öryggissjónarmiði hefur mjög verið haldið á lofti, einkum á fyrri árum, t. d. 1964, þegar athugun var gerð á Kljáfossi. En eins og þarna kemur fram er það gjörbreytt og verður að skoða málið frá öðrum sjónarhring. Er ljóst af því, sem ég hef nú lesið — og skal ég ekki þreyta menn á frekari slíkum lestri — að mörgu er mjög ábótavant í undirbúningi þessa máls. En eins og ég sagði í upphafi, er það kannske ekki meginatriðið, heldur sú málsmeðferð sem tíðkast hefur hjá hv. Alþ. á þessum stóru málum, og ætla ég aðeins að ræða það.

Hér hefur það tíðkast lengi að Alþ. samþykkti heimildir til virkjana, og ég verð að segja það — og ég tala þar af dálítilli þekkingu því ég hef lært á þessu sviði — að það hefur oft vakið undrun mína hve þessi heimildarfrv. eru raunar lítt undirbúin. Þeim fylgir oftast lítil greinargerð, lítil tæknileg rannsókn og yfirleitt raunar litlar niðurstöður. Hins vegar er þetta samþ. í skjóli þess að hæstv. ríkisstj. muni láta fara fram nauðsynlegar athuganir áður en heimild er notuð. Staðreyndin er hins vegar sú, að ef illa fer, sem því miður hefur stundum orðið, hefur venjulega verið til þess vísað að Alþ. hafi veitt heimildina og ábyrgðin því öll þess.

Við getum litið á dæmi, t. d. heimildir til virkjunar Sigöldu og Hrauneyjafoss sem var veitt í einum pakka fyrir mörgum árum, 1971. Við lásum í blöðum nýlega að nú væri verið að nota heimildina til virkjunar Hrauneyjafoss. Það hefur ekki komið aftur til Alþingis, en kemur eflaust þegar fjármagnið vantar. En verða þá einhverjir til þess að neita um lánsheimild þegar virkjunin er jafnvel af stað komin? Ég tel að skoða hefði þurft málið að nýju með tilliti til gjörbreyttra aðstæðna og hefði átt að vera skylda Alþ. að gera það með tilliti til þess, sem þróunin hefur verið á síðustu árum, frá því að upphaflega heimildin var veitt.

Við veittum einnig heimild til Kröfluvirkjunar. En tekið var eftir því, að þegar Krafla var til umr. nýlega í sjónvarpi minntist enginn maður á, að þetta hefði verið heimildarfrv., heldur var hvað eftir annað sagt: Þetta var samþykkt á Alþ. og ábyrgðin er Alþingis. Ég er ekki að tala um að þarna hafi eitthvað farið úrskeiðis, um það hefur mikið verið rætt, að þarna hafi orðið óhapp, og deilt er um framkvæmdaleiðir. En staðreyndin er sú, að heimildin var veitt hér á Alþ. á grundvelli þskj. sem var, ef ég man rétt, þrjár síður eða svo, og sumt, sem segir í grg. þess þskj., hefur farið á allt annan veg. Þar er talað um aðra stærð á orkuvélum en síðan hafa verið settar niður. Þar er talað um að virkja megi í áföngum. Þar er sagt að virkjun yrði a'ð öllum líkindum lokið 1978 o. fl. Þetta mál var ekki þaulskoðað hér. Menn voru sammála um Kröfluvirkjun, og ég vil endurtaka það sem ég sagði við þær umr., að ég tel enn mjög nauðsynlegt að við höldum innreið á þetta orkusvið, þetta virkjanasvið, förum að nýta okkar jarðgufu. Ég tel sjálfsagt að það verði gert, en ætla ekki að fara út í umr. hér um ýmislegt sem kannske hefði mátt fara betur við Kröflu. Sumu hafa æðri máttarvöld ráðið.

Alþingi veitti heimild til virkjunar Bessastaðaár. Sú heimild var byggð á athugun sem ungur, efnilegur námsmaður gerði úti í Kaupmannahöfn. Margir efuðust um hvort hún væri rétt. Síðan er deilt um hvort jafnvel rakvatn sé í ánni. En búið er að verja, ef ég veit rétt, nokkrum tugum millj. til byrjunarframkvæmda.

Við stóðum að því nokkrir þm. Vestf. að fá heimild til virkjunar Suður-Fossár. Varið var þar nokkrum tugum millj. kr., við skulum segja 20–30 millj. kr., í veg upp að stíflustæðinu þegar mönnun var ljóst að þar var lítið efni í jarðstíflu. Áætlunin var endurskoðuð og tvöfaldaðist við þá endurskoðun. Síðan hefur ekkert verið gert þarna. Ég ræddi við orkumálastjóra fyrir helgina um þá framkvæmd. Orkustofnun var frá upphafi andsnúin þeirri framkvæmd og taldi þá áætlun, sem þar var byggt á, ekki raunhæfa. Ég sagði áðan að áætlunin tvöfaldaðist þegar hún var athuguð nánar. Orkumálastjóri segir mér að þeir séu enn þessarar skoðunar. En við töldum ekki þörf á því að fara að ráðum Orkustofnunar í þessu tilfelli og gerðum ráð fyrir að málið yrði þar vandlega athugað áður en af stað yrði farið, að engin hætta væri þarna á ferðum. Í öllum þessum tilfellum, sem ég hef nefnt, eða a. m. k. tveimur síðustu tilfellunum, sem ég hef nú nefnt, hefur hins vegar farið á nokkurn annan máta. Heimamenn, sem gjarnan vilja fá virkjun á sínu svæði, hafa þrýst á og undan hefur verið látið, framkvæmdir hafa hafist, e. t. v. í smáum stíl, athuganir fylgt á eftir og niðurstöður ekki orðið þær sem vænst var í upphafi.

Ég vil enn taka það fram, að ég er alls ekki að fullyrða að svo færi með Kljáfoss — alls ekki. Vel má vera að Kljáfoss sé hentug virkjun. En niðurstaða okkar af þessum hugleiðingum er sú, að það geti alls ekki skemmt fyrir þessum virkjunaraðila að láta athuga málið vandlega, gæta að hinum ýmsu atriðum, sem kanna þarf, og leggja það síðan fyrir Alþ. og þá ekki endilega að biðja um heimild, heldur fá lög um þessa virkjun. Ætti það að koma að sök? Ætti það að tefja málið? Það mætti þá leita heimildar og fá fjármagn til slíkra rannsókna. Það væri allt annað mál. En það ætti ekki að tefja málið að athuga það vel og sýna Alþ. þá virðingu að leggja málið fyrir Alþ. vandlega undirbúið, þannig að við þurfum ekki að fá í höfuðið setningu eins og þessa frá Orkustofnun: Fskj. með frv. ákaflega ófullkomin, svo ófullkomin að þau eru ekki frambærileg með frv. sem lagt er fyrir Alþ. Mér þykir satt að segja engin furða þótt virðing Alþ. sé fremur lítil með þjóðinni þegar svona er unnið. Ég ætti erfitt með að líta til Alþ. með virðingu standandi frammi fyrir slíku sem ég hef nú lesið.

Það er fleira sem þarna kemur til. Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. iðnrh. hefur nýlega sett á fót n. til að fjalla um skipulagsmál orkuframkvæmda og rekstrar orkuvera. Hv. frsm. meiri hl. er formaður í þeirri n. Ég bind miklar vonir við störf þeirrar n. Ég bind m. a. þær vonir við störf þeirrar n., að hún muni athuga vandlega það, sem hér hefur farið úrskeiðis á undanförnum árum, og gera sér grein fyrir hvort ekki megi koma skipan raforkumála fyrir á betri máta og koma þannig í veg fyrir mistök, hvort ekki megi tryggja betri samræmingu, bæði í framkvæmdum og rekstri, hvort ekki megi tryggja betri nýtingu þess fjármagns sem við verjum til orkuframkvæmda. Og mér finnst vafasamt að vera að veita enn eina heimild fyrir enn einn landshluta til virkjunar á meðan þessi mál eru í athugun.

Ég sagði áðan að aðstæður eru jafnframt breyttar frá því sem áður var, því að samtenging er nú komin á nálægt því frá Suðvesturlandi til Austfjarða, a. m. k. gerum við ráð fyrir að svo verði mjög fljótlega, að því er stefnt. Ég vil leyfa mér að lesa — með leyfi hæstv. forseta — enn úr bréfi Orkustofnunar, þar sem segir:

„Orkustofnun sér ekki neitt því til fyrirstöðu að Alþ. veiti umbeðna virkjunarheimild. Hún vill jafnframt leggja áherslu á það, sem hér að ofan er rakið, að áður en til framkvæmda kemur hafi virkjunaraðilar, sem hlut eiga að máli, samræmt virkjunaráform sín innbyrðis og komist að niðurstöðu um það, hvenær heppilegast sé að ráðast í virkjun Kljáfoss með heildarhagkvæmni fyrir hið samtengda svæði fyrir augum.“

Þetta er kannske eitt aðalatriði málsins eins og nú háttar. Er til of mikils ætlast að hv. Alþ. biðji þann aðila, sem vill fá heimild til virkjunar, að athuga það mál áður en Alþ. er beðið um leyfi? Er til of mikils ætlast að þeir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, Andakílsárvirkjun, Landsvirkjun og Laxárvirkjun og aðrir, sem eru á þessu kerfi, setjist niður og samræmi hugmyndir sínar og segi okkur fyrir fram hvort þeir telji þessa virkjun falla inn í þetta kerfi og þá kannske jafnframt í hvaða röð? Ég fyrir mitt leyti vil m. ö. o. bíða með að veita leyfi til virkjunar, hvort sem það kallast heimild eða endanlegt leyfi, þar til athugun á þessum ýmsu þáttum liggur fyrir, bæði athugun á virkjunarkostnaði og athugun á því, hvernig þessi virkjun fellur inn í hið samtengda kerfi. Þá finnst mér sjálfsagt, ef niðurstöður af slíkri athugun verða jákvæðar, ef í ljós kemur að þessi virkjun er hagkvæm, og ekki verður hægt að vefengja á þann máta, sem gert er í bréfi Orkustofnunar, þá útreikninga sem liggja fyrir, og ef ljóst er að gætt er þeirrar samræmingar, sem er mjög mikilvæg í okkar tiltölulega litla orkukerfi sem er nú að samtengjast, sýnist mér eðlilegt að málið verði lagt að nýju fyrir Alþ. og við fjöllum um það að nýju.

Þess vegna höfum við hv. þm. Stefán Jónsson lagt fram nál. á þskj. 358. Við rekjum þar í fáum orðum ástæðurnar fyrir því að við viljum vísa málinu til ríkisstj., en við leggjum jafnframt áherslu á að hagkvæmni þessarar virkjunar verði rannsökuð nánar og málið lagt fyrir Alþ. að nýju ef virkjunaraðilar að samtengdu orkukerfi komast að þeirri niðurstöðu að virkjunin sé hagkvæm og rétt sé að ráðast í virkjun Kljáfoss með heildarhagkvæmni fyrir hið samtengda svæði fyrir augum.