21.03.1977
Efri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð til viðbótar að gefnu tilefni. Hæstv. iðnrh. gerði áðan grein fyrir þörf hinna einstöku landshluta og byggðarlaga fyrir grunnaflstöðvar þannig að byggðarlögin þurfi ekki að reiða sig eingöngu á háspennulínur um langan veg og oft og tíðum viða yfir fjallvegi á þessu stormasama og ísingarsama landi. Undir þetta viðhorf hans vil ég taka. Mér finnst liggja í augum uppi, að þörf er á því að sem flest byggðarlög fái slíkar grunnaflstöðvar í öryggisskyni. Aftur á móti vil ég vekja athygli á því, er hæstv. ráðh. gerði grein fyrir háspennulínunum sem liggja munu nú innan skamms um Suðvesturland, þá liggja þær ekki aðeins frá suðri um Vesturland til norðurs, heldur liggja þær, svo sem eðli línunnar jafnan er, sömu leið til baka. Og það er nú ætlan okkar ýmissa að Norðurland verði á næstu missirum aflögufært um rafmagn til að selja suður á bóginn líka þessa sömu leið, þannig að öryggi Suðvesturlands verður þarna raunverulega tvöfalt þar sem möguleiki verður á því að fá raforku bæði af Suðurlandinu, frá Landsvirkjunarsvæðinu, og einnig að norðan um þessa sömu háspennulínu. Og því vil ég trúa, hvað sem hrakspám líður, að Kröfluvirkjun verði aflögufær á næstu missirum um slíka orku að þaðan sé hægt að selja raforku til Suðvesturlandsins eftir þessari háspennulínu.

Hv. þm. og frsm. meiri hl. iðnn. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, vék því að okkur, sem stöndum að áliti minni hl. n., eins og honum hefði skyndilega komið það til hugar, að um fleira mætti nú ræða en stórvirkjanir og stóriðju. Ég er næstum því alveg viss um að hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni hefur ekki komið til hugar raforkuþörfin á Suðvesturlandi þegar hann greiddi atkv. með málmblendiverksmiðjunni í Hvalfirði sem á að taka u. þ. b. sexfalda þá orku til sinna nota sem nú er rætt um að heimilað verði að virkja í Kljáfossi skv. máli því er hér liggur fyrir til umr.

Ég leyfði mér áðan í fyrri ræðu minni að orða það svo, að gengið hefði verið fram hjá Alþ. þegar ríkisstj. notfærði sér 5 ára gömul heimildarlög nú um áramótin, öllum á óvart, til þess að leyfa virkjun Hrauneyjafoss. Ég biðst afsökunar á því, að ég skyldi komast þannig að orði að misskilja mætti á þá lund að hér hefði ríkisstj. gerst sek um lögleysu. Það var ekki meining mín. En einmitt sú staðreynd að ríkisstj. getur notfært sér 5 ára gömul heimildarlög við gjörbreyttar aðstæður og með þeim hætti m. a. bundið landsmönnum efnahagslegar skuldbindingar, sem ættu að koma til kasta Alþ., — einmitt þessi staðreynd er ein af þeim sem við notum til rökstuðnings því áliti okkar að nú eigi að breyta um vinnubrögð og að heimildarlög af þessu tagi fram í tímann geti verið hættuleg. Ég vil vitna til þess til staðfestingar því, sem ég segi um efnahagslega bagga og skuldbindingar sem þessari ákvörðun fylgja, að hæstv. iðnrh. hefur sjálfur opinberlega nefnt þann möguleika til ráðstöfunar á orkunni, sem frá Hrauneyjafossi á að koma, að hún renni til þriðja kerskála Alusuisse í Straumsvík, og mér vitanlega hefur hæstv. Alþ. ekki fallist á neinn þriðja kerskála við Straumsvík hjá Alusuisse. Það hvarflar ekki einu sinni að mér að hæstv. ráðh. vilji að slík ráðstöfun verði gerð gegn vilja Alþ. eða án fengins samþykkis Alþ., en ég sé ekki betur en einmitt með því að heimila virkjun Hrauneyjafoss án þess að þegar sé tekin um það ákvörðun fyrir fram til hvers sú orka skuli vera notuð, þá sé verið að binda hendur Alþingis.

Ég vil vekja athygli á því, að þingfl. Alþb. hefur þegar lagt fram þáltill. í þá veru að breytt verði um stefnu í þessum málum, og að því vikið að ákvörðunin um virkjun Hrauneyjafoss verði tekin til endurskoðunar þangað til búið verði að sjá fyrir eðlilegum markaði fyrir orkuna, sem þaðan fæst, til eðlilegra innanlandsnota.