21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

193. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Á þskj. 386 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar á þá leið, að g-liður í 1. málsgr. 16. gr. l. verði felldur niður. Í þessu ákvæði er svo ákveðið, að atvinnuleysisbætur skuli ekki greiðast þeim sem á maka sem á síðustu 12 mánuðum hefur haft og hefur hærri tekjur en sem svarar tvöföldum daglaunataxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Hér er um að ræða tæpar 1500 þús. kr. Í raun bitnar þetta ákvæði ekki nema á giftum konum því konur með eigin atvinnutekjur, sem ná þessu tekjumarki, munu fáséðar í þessu þjóðfélagi og því er það svo í raun, að tekjur eiginkvenna hafa ekki áhrif á atvinnuleysisgreiðslur til eiginmanna þeirra. Ég vek athygli á því, að skv. þessu ákvæði er konan svipt atvinnuleysisbótum með öllu hafi maður hennar þessar viðmiðunartekjur. Þar er ekki um að ræða neina stiglækkun eða hlutfallssamanburð. Einar 50 þús. kr. fyrir ofan eða neðan við mörkin ráða alveg úrslitum.

Athygli mín var fyrst vakin á þessu ranglæti þegar það gerðist að heil stétt kvenna varð atvinnulaus þegar Mjólkursamsalan lokaði búðum sínum og konur, sem áður höfðu unnið þar, urðu að leita sér annarrar atvinnu. Þá var haft samband við mig vegna þeirra tilfella að sumar þessara kvenna nutu engra atvinnuleysisbóta. Ég get nefnt hér tvö dæmi sem ég þekki og mér var bent á. Önnur konan hafði unnið hjá Mjólkursamsölunni í 18 ár, og þegar hún ætlaði að leita atvinnuleysisbóta fékk hún engar þar eð eiginmaður hennar hafði tekjur yfir tekjumörkin á bilinu eitthvað milli 200 og 300 þús. kr. Það hlýtur að teljast ranglæti þegar konu, sem hefur unnið í nær tvo áratugi og stendur svo uppi atvinnulaus, er neitað um atvinnuleysisbætur líkt og hún hefði einskis í misst. Hin konan, sem ég veit um, missti líka atvinnu sína vegna lokunar mjólkurbúðar. Hún fékk atvinnuleysisbætur og þóttist heppin því eiginmann hennar vantaði 50 þús. kr. upp á tekjumörkin. Ég held að þetta sýni gífurlegt misræmi milli heimila.

Þá er vitað að þetta skerðingarákvæði bitnar helst á sjómannskonum, og ég held að við getum verið sammála um að það sé ranglátt að sú stétt verði fyrir missi fremur en aðrar vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem þar á heimilum ríkja.

Eins og ég sagði áðan, þá hefur þetta ákvæði í för með sér ranglæti innbyrðis milli launþega. En hér er líka önnur hlið á sem vert er að hafa í huga. Einstaklingur fær atvinnuleysisbætur óskertar án tillits til þess hvaða tekjur hann hefur sjálfur haft á árinu. Það mælir ekkert gegn því að einstaklingur fái greiðslur úr sjóðnum þó hann hafi haft tvöföld tekjumörk vikurnar eða mánuðina áður en hann varð atvinnulaus.

Auk þess að hér er nauðsyn að leiðrétta misréttið, þá hlýtur það að teljast í samræmi við nútímaviðhorf að lítið sé á hjón sem tvo einstaklinga. Greiðslur í sjóðinn eru greiddar á einstaklingsgrundvelli. Þær eru miðaðar við vinnutíma einstaklings, og hefur hjúskaparstétt eða tekjur maka engin áhrif þar á. Það er því óeðlilegt að einstaklingur sé öllum öðrum skilyrðum uppfylltum sviptur bótum með öllu. Og af því að þetta bitnar á konum, giftum konum, þá ýtir það undir viðhorf sem er algjörlega úrelt, það viðhorf að konan sé á framfæri og vinnutekjur hennar hafi ekki verið til framfærslu henni sjálfri né heimili hennar, heldur aðeins aukatekjur sem skipti engu máli hvort hún og heimili hennar nýtur eða ekki. Það fer ekki hjá því að þetta grafi undan sjálfsvirðingu hennar sem vinnandi manns. Henni hlýtur að finnast sem þjóðfélagið meti vinnu hennar lítils eða einskis.

Þá hefur það orðið ljóst að undanförnu, að skerðingarákvæði þetta hefur áhrif á fæðingarorlofsgreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í því tilfelli hlýtur einnig að vera óeðlilegt að greiðslur ákvarðist af tekjum maka. Greiðslur vegna fæðingarorlofs eru til þess að bæta upp tekjumissi móðurinnar, gera henni kleift að vera heima hjá nýfæddu barni sínu án þess að hún þurfi að hafa áhyggjur af fjárhagsörðugleikum eða neyðast þess vegna til að fara út til starfa fyrr en ella.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt var þessu skerðingarákvæði ekki heitt á árinu 1976 og þetta skerðingarákvæði mun því ekki hafa bitnað á mjög mörgum konum. Því held ég að rétt sé að þær konur, sem hafa lent í þessu skerðingarákvæði síðan um áramót, ættu að fá gagnverkandi rétt, og því hef ég lagt til í ákvæði til bráðabirgða að þær konur, sem synjað hefur verið um greiðslur vegna þessa ákvæðis sem hér er til umr., skuli fá fullan rétt til fæðingarorlofs.

Eins og hv. þm. er kunnugt fá konur ekki nema um 70% af fjórða taxta Dagsbrúnar í fæðingarorlof og því ekki full laun endurgreidd meðan fæðingarorlof stendur yfir, og er varla á skerðinguna bætandi.

Ég ætla ekki hér að rifja upp þær umr. sem urðu vorið 1975, þegar það var ákveðið með lögum að fæðingarorlof skyldi greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði. En ég hygg að þetta sýni að Alþ. hefði þurft að taka sér lengri tíma til þess að skoða lögin sjálf. Umr. snerust að mestu um það, hvort fjármagna skyldi fæðingarorlof á þennan hátt eða á annan hátt. En af þeim umr., sem ég man eftir, virtist enginn hv. þm. hafa athugað það, að fæðingarorlofsgreiðslur gætu ekki með góðu móti og án meiri breytinga á lögunum fallið þarna inn í.

Ég hygg að ef farið yrði í saumana á lögum um atvinnuleysistryggingar, þá séu í rauninni fleiri ákvæði en þetta sem hindri greiðslur fæðingarorlofs á þann veg sem við hugsum okkur að þær eigi að fara fram. Mér dettur t. d. í hug í sambandi við að nú er órói fram undan á vinnumarkaði, að þá væri t. d. fróðlegt að fá að vita hvort þær konur, sem kynnu að lenda í verkfalli, yrðu þess vegna sviptar fæðingarorlofi. Ég vona, að hv. alþm. íhugi hve alvarlegar afleiðingar það kynni að hafa fyrir móður og barn og hve alvarlegar afleiðingar sem það kynni að hafa fyrir verkalýðshreyfinguna í heild. Hér er stórt mál sem ég ætla ekki að fjölyrða um nánar, en Alþ. verður vissulega að taka afstöðu til.

Fyrir hinu háa Alþ. liggur annað frv., sem gengur að því leyti skemur að það gerir ráð fyrir að þetta skerðingarákvæði verði eingöngu afnumið vegna kvenna sem þiggja fæðingarorlof. Þetta frv. er auðsjáanlega til komið vegna þeirra vinnubragða sem höfð voru á Alþ. vorið 1975. Hér eru raunar tvö atriði, sem flm. þessa frv. leggja til, að leiðrétt verði. Þeir leggja til að almannatryggingar skuli ekki hafa áhrif á fæðingarorlofsgreiðslur. Á þetta ákvæði get ég fallist. En ég tel að sú n., sem fær þessi frv. til meðferðar, gæti samræmt þessi frv., og ég hygg líka að n. beri skylda til í þetta sinn að grandskoða lög um atvinnuleysistryggingar til þess að við þurfum ekki að standa frammi fyrir því á næsta þingi að laga enn eitt atriðið vegna þess að það skerði fæðingarorlof.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. trn.