21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það furðulega gerðist í dag, að hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, tróð hér inn í umr. um atvinnuleysistryggingar ósönnum ásökunum á mig og ítrekaði þær aftur í ræðu sinni í kvöld. Ég er knúin til þess að fara um mál hennar áðan nokkrum orðum.

Hún endurtók þær ásakanir á hendur mér, að ég hefði, meðan ég var með plagg hennar í höndum til skoðunar, sett frv. mitt inn til prentunar, og vildi þar með meina að það hefði verið brot á trúnaði og óheiðarleg vinnubrögð. Ég bað hana í dag að sanna sitt mál. Ég rakti þá gang málsins og ætla ekki að endurtaka það hér. En hún sannaði hins vegar ekkert, en var þó örlítið vandaðri í málflutningi sínum hér í kvöld en í dag, því að hún gat um heimild og kvaðst hafa fengið þessar upplýsingar sinar hjá skjalaverði Alþ. þegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir spurði, hvenær ég hefði skilað mínu máli, sem er út af fyrir sig dálítið furðuleg spurning, þá segir hún hann hafa sagt að ég hafi skilað því upp úr kl. 4. Ég hef átt tal við skjalavörðinn, og ég má hafa það eftir honum að hann telur sig hafa sagt henni að ég hafi skilað því eftir kl. 4.

Ég get ekki láð skjalaverði Alþ. þó hann taki ekki nákvæmar til orða en eftir kl. 4. Það er ekki hægt að ætlast til þess að önnum kafið starfsfólk sé reiðubúið að svara nákvæmlega upp á klukkutíma eða mínútu hvenær málum er skilað. Það fara mörg mál um hendur starfsfólksins. Og ég hefði talið meiri manndóm í því hjá hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildi Helgadóttur, að kynna sér málið betur, t. d. tala við mig sjálfa. Það kom henni ekki til hugar, en hún æðir hér upp í ræðustól með ósannindi og ásakanir, og ég hef haft fregnir af því að hún hafi auk þess sagt hverjum þm. þetta sem heyra vildi í hliðarsölum, þannig að ég sé mig til knúna að koma þessari leiðréttingu hér í þingtíðindi.

Eins og ég sagði áðan, þá hefði hún getað sýnt þann manndóm að kynna sér málið rækilega. Það vill svo til að ég hef vitni að því hvenær frv. mitt fór í prentun, og þó að hv. 6. landsk. þm. hafi séð mig á tali við hv. 5. þm. Reykv. kl. rúmlega 5, þá er það náttúrlega ekkert annað en staðfesting á því sem ég sagði fyrr í dag og sannar auðvitað ekkert um það, hvenær ég setti mál mitt til prentunar, úr því að hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur þykir það svo mikið mál.

Ég má bera það hér frá formanni Alþb., Ragnari Arnalds, að honum var kunnugt um að ég sendi málið til prentunar af framkvæmdastjórnarfundi Alþb. úti í Þórshamri upp úr kl. 6. Ég hef reynt að ná í varaformann flokksins, Öddu Báru Sigfúsdóttur, það vill svo til að hún sat með mér þegar ég var að ganga endanlega frá mínu máli. Mér hefur ekki tekist að ná til hennar, en ég mun ná vitnisburði hennar síðar og efast ekki um að hún muni staðfesta að ég fer með rétt mál.

Hv. 5. þm. Reykv. verður þá að segja allt þetta fólk ljúga, og sjálfsagt munar hann ekki mikið um það. Ég yrði ekkert hissa á því. Þrátt fyrir það að ég hafi borið til baka það sem hún sagði í dag, þá dettur henni ekki í hug að biðja mig afsökunar á þeim ósannindum, heldur forherðist hún.

Hún segist hafa rakið þetta allt til þess að gefa skýringar á því, hvers vegna þm. Alþb. flutti ekki málið með henni. Ætli við séum ekki einfærir um það, þm. Alþb., að útskýra það. Það var nóg fyrir hv. þm., ef hún endilega vildi að skýra frá því að hún hefði boðið Alþb. það og það hafi ekki þegið. En útskýringar þarf hún ekki að gefa fyrir okkur.

Ég læt þetta nægja, nema sérstaka tilefni gefist til. en verð að lýsa skömm minni á þeim málflutningi sem hv. 5. þm. Reykv. hefur uppi, sem er þar að auki forseti þessarar hv. d. og mér þykir tvennt undarlegt: að henni skuli vera svona afskaplega mikið í mun að finna einhverjar sakir á hendur mér og skuli ljúga þeim upp frekar en leita hins sanna og að hún skuli ekki vilja hafa það er sannara reynist.

Um málið, sem hér er til umr., ætla ég ekki að fjölyrða. Það eru fáir á fundi og hefði mér þótt eðlilegt að hv. dm. hefðu verið látnir vita af því, að kvöldfundur mundi hefjast kl.9, þar sem flestir voru farnir af fundi kl. 7 og býst ég því ekki við að fregnir af kvöldfundi hafi náð þeim. Mér þykja þetta óeðlileg vinnubrögð.

Ég vil aðeins víkja að einu atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur áðan, þegar hún ítrekaði að hér væri ekki um ágreiningsefni að ræða varðandi það sem í frv. felst. Þetta er að dylja staðreyndir. Það er ágreiningsefni uppi — mjög stórt ágreiningsefni. Það varðar ekki fæðingarorlof, heldur það, hvort skerðingarákvæðið á eftir sem áður að ná til þeirra kvenna sem atvinnuleysisbóta eiga að njóta. Þetta er ágreiningsefnið og þetta skulum við ekki reyna að dylja. Hér er verið að reyna að mismuna sjóðsfélögum, og mér virtist að það hefði ekki komist heldur nægilega vel inn í hv. 5. þm. Vestf., að hann getur fylgt því, að skerðingarákvæði nái til fæðingarorlofs kvenna, með því að láta það ná yfir alla heildina.

Hann talaði í því sambandi um fjármagn, að ef ætti að láta skerðingarákvæðið ná til allra kvenna í þessu sambandi, þá mundi það kosta óhemjufjármagn og af því hefðu menn ekki miklar áhyggjur. Ég hélt að það þyrfti ekki að hafa sérstaklega orð á því, að menn hafa áhyggjur af sjóðnum og getu hans til greiðslu. En ég vil minna hv. 5. þm. Vestf. á það, að hann hefði afskaplega miklar áhyggjur einmitt af fjárreiðum sjóðsins vorið 1975. Þá sagði hann að ef ætti að greiða fæðingarorlof úr Atvinnuleysistryggingasjóði, þá væri greiðslugetu sjóðsins stefnt í hættu. En þá átti hann ráð og ég vil minna hann á það. Hann gæti tekið það ráð upp aftur. Þá flutti hann till. ásamt fulltrúa Alþb. í heilbr- og trn. um að fæðingarorlofið skyldi fjármagnað með stærri hlut atvinnurekenda.

Hv. 5. þm. Vestf , sem er einn af flm. þessa frv. og á, að ég hygg, sæti í þeirri n. sem bæði frv. munu fara til, gæti dustað rykið af þessari till. sinni núna og orðið þar með að liði öllum þeim konum í verkalýðshreyfingunni sem skerðingarákvæðið nær til.