23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2786 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Í nál. á þskj. 387, sem sjútvn. hv. d. er sammála um og allir nm. hafa ritað undir, segir svo, að n. hafi haft um nokkurt skeið til meðferðar frv. til staðfestingar á brbl. nr. 90 16. júní 1976, um breyt, á lögum nr. 81 frá 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Nm. eru allir sammála um afgreiðslu þessa máls, enda um leiðréttingar að ræða.

Í jan. barst n. erindi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna með ályktun frá aðalfundi samtakanna, sem haldinn var dagana 8.–10. des. 1976, um breyt. á framangreindum lögum frá 31. maí og 16. júní 1976. Hélt n. fund með fulltrúum L. Í. Ú. sem skýrðu þær átta óskir um breytingar sem fram komu í ályktun aðalfundarins. Í n. voru skiptar skoðanir um erindi þetta og þótti sumum nm. skammt liðið á nauðsynlegan reynslutíma gildandi laga, þau hefðu náð fram vegna víðfeðms samkomulags meðal ólíkra hagsmunahópa til sjós og lands, útgerðarmanna, sjómanna og fiskverkenda auk þeirra mörgu, sem héldu fram hinum staðbundnu hagsmunasjónarmiðum. Þá væri kunnugt um fjölda óska um þýðingarmiklar breytingar frá sjómönnum og útvegsmönnum, sem enn væru til skoðunar, þ. á m. hjá Hafrannsóknastofnuninni. Var sú skoðun áberandi í n., að þegar fjallað væri um jafnviðkvæmt mál og umrædd lög ætti að varast að líta á þau eins og hlífðarfat sem farið væri úr og í eftir stundarhagsmunum ákveðinna hópa.

N. tók þá ákvörðun að senda málið til umsagnar nokkurra aðila, þ. á m. til Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, þótt nm. væri vel kunnugt um aðild þess félags að L. Í. Ú. Þetta var gert vegna þess að n. var kunnugt um að ein þeirra breytinga, sem L. Í. Ú. leggur til, mundi hafa í för með sér, ef samþ. yrði, að allstórt svæði vestur af Snæfellsnesi yrði lokað fyrir veiðum togara sem eru meira en 39 m á lengd. Um er að ræða veiðisvæði sem togarar úr Reykjavík og Hafnarfirði hafa nýtt nær alfarið frá því að togveiðar hófust hér við land. Með samþykkt þessari yrði í raun ákveðið hvort fiskur sá, sem veiddur er á ákveðnu svæði á vetrarvertíð, yrði veiddur af stórum togurum eða litlum, á línu eða net.

Í svari F. Í. B. kom það fram, að fullkominn stuðningur félagsins við mál þetta lægi fyrir, bæði hjá fulltrúum F. Í. B. í sambandsstjórn L. Í. Ú. svo og hjá fulltrúum allra útgerðarfyrirtækja í F. Í. B. sem aðalfund sóttu. Formaður n. færði mál þetta í tal við talsmenn nokkurra togaraútgerðarfyrirtækja í Reykjavík, og var ekki annað á þeim að heyra en að þeir létu sér þessa breytingu lynda.

Stjórn Fiskifélags Íslands hefur tjáð n. með bréfi 16. febr. s. l. að hún mæli með umræddum breytingum. Nokkrir stjórnarmenn létu þó þá skoðun í ljós, að breytingarnar sem óskað er eftir undir f-lið, mætti auðveldlega framkvæma með breytingum á reglugerð.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar kom fram eindregin andstaða gegn rýmkun togveiða við Norðurland, en hún taldi sig eftir atvikum geta fallist á þá rýmkun, sem farið er fram á við Suðausturland og Suðurland því hún muni ekki hafa í för með sér almenna aukningu sóknar í smáþorsk.

Í bréfi sínu til Hafrannsóknastofnunarinnar óskaði n. álits um það, hvort ekki væri tímabært að veita heimildir til dragnótaveiða svo að kolastofninn verði betur nýttur og — ef álit stofnunarinnar væri jákvætt að gera till. um hvar, á hvaða tíma og um bátafjölda. Við þessari fyrirspurn kom ekkert svar.

25. febr. s. l. boðaði sjútvrn. til fundar með nm. sjútvn. beggja deilda Alþ. og ræddi þar m. a. till. L. Í. Ú. og breytingar sem rn. vildi koma á framfæri. Í bréfi rn. til sjútvn. Nd., sem dagsett er 4. mars s. l., er þess farið á leit við n. að hún flytji brtt. við frv. það sem fyrir Nd. liggur. N. hefur orðið við þessari ósk og flytur brtt. þessar á sérstöku þskj. Í þessum till. er markverðast, að rn. tekur ekki undir till. L. Í. Ú. um rýmkun togveiða við Norðurland þótt farið sé að öðrum till. þess. Rn. leggur auk þess til breytingu við 8. gr. laganna um lengingu á þeim tíma, sem skyndilokanir geta staðið, þ. e. úr 3 sólarhringum í 7, og aðrar nauðsynlegar breyt. við þessi ákvæði.

Eru nm. sammála um, að mæla með þessari breytingu við 8. gr. frv. svo og frv. sjálfu. Um aðra liði í brtt. þessum hafa nm. óbundnar hendur og áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Ég vil þá, herra forseti, fara nokkrum orðum um þær brtt. sem fluttar eru að ósk rn. Það er rétt að rifja það upp, að í lögunum, sem sett voru á s. l. vori, var mörkum, sem reiknað var frá, breytt í svokallaðar viðmiðunarlínur og viðmiðunarstaði. Það var nokkur breyting gerð á gömlu grunnlínupunktunum og í gildandi lögum er miðað við viðmiðunarlínu. 1. brtt. er þess efnis, að í stað 4 sjómílna fjarlægðar frá viðmiðunarlinu verði fjarlægðin miðuð við fjörumark meginlandsins.

Í 2. brtt. á þskj. 392 er um að ræða opnun og rýmkun fyrir hin stærri botnvörpuskip á mjög takmörkuðu svæði við Vestmannaeyjar. Hef ég margrætt þetta t. d. við þá hv. þm., sem frá Vestmannaeyjum koma, og telja þeir að sjálfsagt sé að verða við þessari ósk og sé til hins góða, m. a. af tæknilegum ástæðum í sambandi við tog.

Nokkur rýmkun er gerð samkv. 3. till. í sambandi við þá línu sem þar er dregin, eins og menn geta betur kynnt sér ef þeir skoða þetta á sjókorti.

Sama má segja um 4. brtt., en þar er höfuðbreytingin sú, að í stað þess að miða við Skálasnaga — það er viðmiðunarstaður — er miðað við Malarrif og fjarlægð frá Malarrifi í staðinn fyrir Skálasnaga.

En höfuðbreytingin, sem gerð er á Breiðafirði, er sú, að á allstóru svæði vestur af Snæfellsnesi er hinum stærri togurum fyrirmunað að veiða nú, en hins vegar öðrum veiðarfærum gefinn meiri réttur en öðrum til þess að nýta það hafsvæði. Ég hef í nál. sjútvn. dregið fram það sem þar kom fram um þetta, og eins og þar er vitnað til minna orða, þá átti ég viðræður við nokkra togaraútgerðarmenn hér úr Reykjavík sem hreyfðu engum mótmælum við þessum breytingum og létu gott heita.

Aðrar breyt. eru ekki þýðingarmiklar að mínu mati, en hins vegar vitna ég aftur til þeirra orða sem ég hef þegar vitnað til í nál.

Meginbreytingin, sem mér finnst vera, fyrir utan þá sem ég hef nú farið örfáum orðum um, er breytingin við 8. gr. laganna og kannske sú þýðingarmesta. Um hana eru líka allir nm. sammála. Samkv. 1. mgr. þessarar brtt. yrði lögfest að trúnaðarmenn, sem eru um borð í skipunum, skuli tilkynna til lands, til Hafrannsóknastofnunarinnar, sem sjái um að það séu alltaf menn við til þess að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka, þessar ákvarðanir séu sem sagt ekki teknar um borð í skipunum. Það hefur valdið bæði sársauka og leiðindum. En það skal sett hins vegar í vald þeirra, sem í landi eru, en eru ekki um borð í skipunum sjálfum og með þeim mönnum sem verið er að stöðva kannske eða meina að veiða á ákveðnum veiðisvæðum.

Í 2. mgr. er verið að leggja til að bannið geti verið allt að 7 sólarhringa, en í gildandi lögum er um að ræða 3 sólarhringa. Með þessu er nokkuð komið á móti þeirri till. sem á sínum tíma var lögð til af n. sem vann að tillögugerð í þessum málum, áður en þingmannanefndin tók við, þannig að nú er komið aftur á móti þeirri skoðun að lengja þetta tímabil.

Nokkrar kvartanir komu um það frá flotanum og reyndar frá yfirmönnum í Landhelgisgæslunni einnig, að einhver vandkvæði hefðu verið á að tilkynningar hefðu borist nógu skýrt og fljótt til viðkomandi aðila á miðunum og þ. á m. landhelgisgæsluskipanna. En nú er þetta sett inn í lögin sjálf og ætti þá að vera úr sögunni sú gagnrýni sem kom fram í sambandi við þetta, ef samþ. verður.

Herra forseti. Ég hef sem formaður sjútvn. flutt þetta mál eins og til var ætlast af mér í n. Og til þess að vera ekki að eyða of miklum tíma frá þingstörfum í að efna til umr. um málið, þá get ég fyrir mig persónulega sagt það, að ég mun fylgja þessum brtt., þótt ég hins vegar taki undir ýmsa þá gagnrýni, sem fram kemur í nál. okkar, og taki undir það sem einstaklingur og telji sjálfur að vel hefði mátt bíða lengur með að fá meiri reynslu af því sem fyrir liggur. Ég segi þetta líka vegna þess, að það eru ýmis atriði og ýmsar fleiri breytingar, sem menn hefðu viljað fá umr. um og fá fram.

Ég vek enn einu sinni athygli á því sem ég hef ár eftir ár talað um, sérstaklega þó þegar þetta mál hefur verið á dagskrá, betri nýtingu á skarkolanum, en fiskifræðingar telja að það sé um 10 þús. tonna magn, sem óhætt sé að veiða hér við strendur landsins af þessari fisktegund, en þessi veiði er nú í algjöru lágmarki. Eftir að inn í gildandi lög voru sett ákvæði um stærð möskvans í dragnótinni, þá virðist, eins og þegar hefur komið í ljós samkv. rannsóknum sem fram hafa farið, hætta á því að of smár fiskur veiðist í dragnæturnar verða úr sögunni. En að sjálfsögðu verður að setja reglur um að ekki sé tekið of mikið magn, ekki séu of margir bátar að veiðum og að þeir séu þá á takmörkuðum svæðum. Það hefur nefnilega komið í ljós, gagnstætt því, sem sumir þm. hafa haldið fram hér áður fyrrum og þó sérstaklega þeir sem nú er verið að gera hvað mest fyrir samkv. þeirra óskum á Vesturlandi og annars staðar, — þeir hafa haldið því fram að það væri ekki til neitt dauðavopn fyrir smáfisk nema dragnót, — en það kom vel á vonda þegar sjútvrn. þurfti nú fyrir skömmu að stöðva línuveiðar á Breiðafirði vegna þess óhóflega dráps á smáfiski sem þar fór fram á línuna, það goðumborna veiðarfæri.

Herra forseti. Ég legg málið fyrir á þennan veg eins og ég hef gert, lýsi minni persónulegu afstöðu, jafnframt að ég mun standa með þessum brtt. sem fram hafa komið, en endurtek það sem ég sagði, að allir nm. hafa óbundnar hendur um, að flytja eða fylgja brtt.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði ekki vísað til n. að lokinni þessari umr., heldur til 3. umr.