28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hv. þm. Geir Gunnarsson hefur þegar gert það rækilega grein fyrir minnihlutaáliti okkar að það er í raun og veru fáu við að bæta, nema viss sératriði sem ég vildi hér koma að.

Ég hlýt að taka undir með honum að harma og vita um leið þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í fjvn., þar sem okkur var stillt upp fyrir gerðum hlut í lokin, og það því fremur sem ég hef ekki síður litið á mig í fjvn. sem fulltrúa Austurlandskjördæmis en fulltrúa Alþb. Þá var vissulega gremjulegt að fá ekki tækifæri til þess við umr. í n. að fjalla um það hver hlutur Austurlands í heild yrði. Það var aðeins í lokin spurt um hvort við hefðum einhverjar athugasemdir fram að færa. Þegar þær komu fram og við spurðum hvort einhverju væri hægt að hagga, þá var því neitað og allt varð óhreyft.

Ég lét í fjvn. bóka tvö atriði sem ég mótmælti alveg sérstaklega: Annars vegar því, að Austurlandsáætlun skyldi að öðru leyti en því, sem tók til Oddskarðs, algjörlega felld brott, en hún átti fullan rétt á sér samkv. nýjum vegalögum innan ramma vegáætlunarinnar og átti þess vegna þar að standa, miðað við það að hér var um áður umsamda verkþætti að ræða sem ekki var lokið við. Í öðru lagi lýsti ég mig ósamþykkan þeirri prósentu sem Austurlandi var úthlutað í þjóðbrautarflokknum. Þar var um minnkun að ræða úr 16% í 11% og því við borið að þessi flokkur vægi nú minna en áður hefði verið hjá okkur, vegalengdirnar hefðu minnkað frá landsbrautaflokknum áður og því væri eðlilegt að þessi prósenta minnkaði. Þá hefði auðvitað verið næst okkur að spyrja: Hvað þá um aukninguna í stofnbrautaflokknum ef við lækkuðum í þjóðbrautaflokknum? Sú aukning sást vitanlega hvergi. Það var greinilegt að vegalögin voru túlkuð til hins ítrasta varðandi þjóðbrautirnar, en allt öðruvísi gagnvart stofnbrautunum, og það harma ég mjög, vegna þess að þegar við vorum að starfa í vegalaganefndinni gekkst ég m. a. inn á þá lausn, sem þar var fallist á í lokin sem málamiðlunarlausn, vegna þess að ég áleit að t. d. okkar kjördæmi mundi þar með öðlast í þeim stóra flokki aukna hlutdeild miðað við það sem áður hafði verið, það var í raun og veru beinlínis gefið í skyn, með tilliti til þess að Austurland hafði ekki áður verið með í uppskiptingu yfir 50% vegafjárins, þ. e. a. s. hraðbrautafjárins í heild. Þetta urðu mér þess vegna þeim mun meiri vonbrigði, að við skyldum í engu fá aukna hlutdeild í þessum flokki þegar þjóðbrautaprósenta okkar var minnkuð úr 16% í 11%.

Meginmál þessarar vegáætlunar er auðvitað, eins og þegar hefur verið komið inn á, allt of lítið fé, of lítið til að skipta, og sú tilfærsla, sem hér hefur orðið á, kemur niður á því sem áður var eins konar stolt þessarar áætlunar, þ. e. a. s. viðhaldinu, og skapar vitanlega enga lausn í þessum efnum. Það verður hins vegar að teljast undarlegt að tilboð stjórnarandstöðunnar um tekjuöflun skyldi ekki skoðað betur en raun ber vitni. Það virðist þrátt fyrir yfirlýsingar nú að það hafi ekki verið nú á þessum vordögum ýkjamikill vilji til þess að kanna það ofan í kjölinn. Einhvern tíma hefði það verið gert. En hér mun um stefnu að ræða, stefnu sem m. a. birtist okkur í leiðara Morgunblaðsins s. l. sunnudag og ég vík e. t. v. að síðar.

Tvennt hefur komið fram í sambandi við þessa vegáætlun nú sem á að milda hana nokkuð. Annars vegar eru verktakalánin. Um þau er það að segja, eins og hv. síðasti ræðumaður, Sigurlaug Bjarnadóttir, kom inn á, að þau hljóta auðvitað að vera meiri og minni blekking. Það er ekkert um þau vitað, og það er viðurkennt m. a. í mínu kjördæmi að hér sé víðast um tölur út í bláinn að ræða. Og síðan þarf svo að greiða þessi verktakalán af næsta árs fjárveitingu.

Hins vegar er sú yfirlýsing sem hæstv. ráðh. gaf áðan um endurupptöku í haust. Við skulum vona að það verði meira að marka þessa yfirlýsingu heldur en þær yfirlýsingar sem í fyrra voru bæði beint og óbeint gefnar út með bráðabirgðavegáætluninni þá, enda er þessi yfirlýsing nú ákveðnari að vísu og svo það, sem kannske mestu máli skiptir, að næsta ár er kosningaár, og kann vel að vera að það bjargi málinu og eitthvað verði gert í alvöru vegna þess að menn þurfa að standa reikningsskil gerða sinna á næsta ári. En ég dreg þessa yfirlýsingu nokkuð í efa, vona þó hið besta því vissulega er hér full þörf á, og hefði betur verið farið að tilboði okkar í stjórnarandstöðunni um að athuga þetta mál nú þegar og gera eitthvað í því. En ég geri mér ekki allt of miklar vonir um þetta heldur af þeirri ástæðu, að stefna þessarar ríkisstj. í byggðamálum virðist nú, sbr. Morgunblaðsleiðarann sem ég minntist á áðan, einmitt vera að færast enn meira í samdráttarátt hvað landsbyggðina snertir. Ég tek hann sem lýsandi dæmi hér um.

Ég vildi aðeins víkja að Austurlandi sérstaklega þó ég skuli ekki vera þar langorður. Um vanefndirnar á Austurlandsáætlun er ekki margt að segja. Við vissum það fyrir að þar kom Oddsskarðið aðeins eitt inn í — og skárra hefði það nú verið ef það verkefni hefði líka verið af okkur tekið ! En þannig var frá þessum málum gengið, þannig var um þessi mál samið á sínum tíma, að hér hlýtur að vera um í raun og veru algjör svík og brigðmæli að ræða, að þessi áætlun skuli ekki halda sér til þessara tilteknu verkþátta.

Við eigum mörg verkefni eftir á Austurlandi, eins og hér var verið að ræða um áðan á Vestfjörðum. Ég minni á þann flöskuháls, sem nú er á leiðinni hingað suður að austan um Lónsheiðina, og það sérátak sem vissulega þarf að gera til þess að losa okkur við þann flöskuháls. Það er rétt, hefði happdrættisféð í Norður- og Austurveg komið til skila á eðlilegan hátt, þá hefði það getað þarna miklu bjargað og sennilega öllu bjargað. En vegna þess hvernig með það er farið, þá kemur það vitanlega ekki okkur til góða, síður en svo. Og það mun að því vikið síðar hve hörmulega í raun við erum leiknir varðandi þetta sérstaka fé eða þetta sérstaka fjármagn. Það átak verður ekki gert án sérstaks átaks, án sérstaks lánsfjár eða tekjuöflunar. Hér er um það dýrt verkefni að ræða. Við höfum nú tekið um það ákvörðun að gera þarna tilraun með vetrarveg og eftir er að sjá hvernig það tekst.

Það þarf ekki að minna á einangrun vissra byggðarlaga yfir veturinn. Neskaupstaður hefur lengi verið í hinni miklu einangrun, og Oddsskarð er vissulega mikil lausn á því. En við skulum ekki gleyma því, að vegurinn sinn hvorum megin er ógerður að mestu. Seyðisfjörður er í mikilli einangrun, og það er ekki fyrr en á seinasta ári í raun og veru, seinasta ári áætlunartímabilsins núna, sem þar á að gera sérátak. Og Vopnafjörður er enn í sinni miklu einangrun og vantar enn þá tilfinnanlega sérátak til þess að gera sæmilegan sumarveg yfir Hellisheiði til Vopnafjarðar af Héraði, því að það er það sem vopnfirðingar kjósa eðlilega, að ná góðu sambandi við Austurland með þeim hætti. Þetta verkefni ásamt ýmsum fleirum urðum við gjörsamlega að láta eiga sig í þingmannahópi Austurlands, m. a. hinar hrikalegu Kambanesskriður, ruðningsveg, sem þar liggur um og enn er í raun og veru ólokið að gera akfæran. Þannig mætti vissulega lengi telja. Og ég minni enn þá á sveitavegina, vegina í sveitunum sem voru lækkaðir núna með prósentuskiptingu úr 16 í 11. Þessir vegir eru svo slæmir að þeir standa í vegi fyrir réttu skipulagi á landbúnaðarframleiðslu í heilum héruðum austur þar, þ. e. a. s. að bændur í héruðum, sem miklu betur eru fallin til mjólkurframleiðslu heldur en til sauðfjárframleiðslu, neyðast til þess samgangnanna vegna að stunda það sem síður skyldi. Við gerðum að vísu tilraun til þess að færa frá stofnbrautunum lítils háttar til þessara þjóðbrauta nú til þess að bjarga mestu neyðinni, en vissulega þarf í þessum vegum að gera alveg sérstakt átak, svo sem ég hef áður flutt till. um. Þar kemur auðvitað fleira inn í en skipulag landbúnaðarframleiðslunnar á þessu svæði. Þar koma inn í vitanlega menntamálin, félagsmálin og ýmislegt annað.

Ég sagði áðan að það hefði verið gerð hér svo rækileg grein fyrir þessu máli af hálfu hv. þm. Geirs Gunnarssonar að litlu væri við að bæta. Það ber hér allt að sama brunni. Það skortir fé til þessara framkvæmda. Samdrátturinn í þessum þýðingarmiklu framkvæmdum er gífurlegur og við hljótum að ætla að hér sé um beina stefnumörkun í byggðamálum að ræða. Og mér þykir það býsna mikið tímanna tákn, að þessa daga, afgreiðsludaga vegáætlunarinnar, kemur leiðari þess blaðs, sem mestu ræður um stjórnarstefnuna, með sannleikann ómengaðan, segir meira um stjórnarstefnuna í raun heldur en allt annað, og er vissulega ástæða til þess að vitna í lokin í nokkur gullkorn úr þessum leiðara, með leyfi hæstv. forseta. Það er fullyrt með mikilli skelfingu í leiðara blaðsins 27. mars: „Byggðajafnvægi er að raskast á hinn veginn.“ Og þar segir: „Hitt er svo annað mál, að nú má spyrja hvort byggðajafnvægi sé e. t. v. að raskast á ný og þetta sinn halli á hinn veginn, að svo halli á höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin í ýmsum efnum að gera þurfi ráðstafanir til þess að rétta hlut íbúanna á þessum svæðum.“ Og svo segir hér í harmþrungnum tón: „Á undanförnum árum hefur verið lögð svo rík áhersla á atvinnuuppbyggingu úti um land, að hallað hefur verulega á höfuðborgarsvæðið og Suðurnes.“ Harmstónninn í þessu leynir sér ekki. Það var ægilegt að ráðist skyldi í hina miklu atvinnuuppbyggingu úti á landsbyggðinni þar sem allt var í raun og veru að leggjast í auðn í lok viðreisnartímabilsins. Og síðan segir áfram, með leyfi forseta: „Áhrif þessa misvægis í atvinnuuppbyggingu á lífskjör fólks hafa ekki látið á sér standa.“ Það er þokkalegt eða hitt þó heldur. Lífskjörin hafa sem sagt batnað úti á landsbyggðinni. Og það er hætta á þessu, er sagt. „Það er nú samdóma álit þeirra, sem hafa atvinnurekstur með höndum, að fólk á landsbyggðinni hafi mun meira fé handa á milli en íbúar höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.“ Ja, þvílík ósköp og skelfing! Og spurningin er nú auðvitað um það, hvernig þessi niðurstaða er fengin, hversu rétt hún er, og svo hins vegar, hvernig þetta fólk úti á landsbyggðinni hefur fengið þetta fé handa á milli með sinni gífurlegu yfirvinnu. Og vafalaust er verið að vitna í loðnuvertíðina núna sem dæmi um árstíðabundna atvinnu. Og meira er sagt í þessum ágæta leiðara sem ég veit að þeir framsóknarmenn hafa lesið með mikilli athygli og eflaust aðdáun einnig. Þar segir: „Enda sýna tölur að á sama tíma og tekjuaukning á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1975 til 1976 er milli 30 og 40% er hún víða á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi milli 50 og 100%.“ Það er ekki verið að tala um tekjurnar, hverjar þær séu, tekjurnar hjá þessu fólki, heldur tekjuaukninguna. Viðmiðunin var lág frá árinu áður vegna þess að landsbyggðin var smám saman að rétta úr kútnum eftir þá uppbyggingu sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir, og það er óskaplegt að dómi Morgunblaðsins að þessi tekjuaukning skuli hafa átt sér stað úti á landsbyggðinni. Síðan segir í þessum leiðara áfram: „Sjálfsagt má rekja mörg fleiri dæmi um það, að jafnvægi í byggð landsins er að raskast á þennan veginn. En nú er óhjákvæmilegt að stjórnvöld beini athygli sinni að þessum vandamálum suðvesturhornsins.“ Örlítil huggun kemur þó hér í lokin: „Íbúar landsbyggðarinnar mega undir engum kringumstæðum taka þessar athugasemdir sem vísbendingu um að amast sé við uppgangi í atvinnulífi og lífskjörum á landsbyggðinni.“ Það er rétt, það er dálítið erfitt að fara að selja eða sökkva togurunum sem voru fengnir út á landsbyggðina. Það er von að mörgum aðilum finnist það. „En þeir verða að gera sér grein fyrir því, að íbúar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, sem með skattgreiðslum sínum hafa að verulegu leyti staðið undir fjárfestingum úti um land, eiga líka sinn rétt og verða ófáanlegir til þess að halda áfram ef svo mjög hallar á þeirra hlut eins og nú sýnist stefna í.“

Þetta er lýsandi dæmi um það, hver stjórnarstefnan er nú, og það er alveg rétt, þessi vegáætlun, sem við erum nú að afgreiða, er merkur áfangi að því marki sem Morgunblaðið er hér að tala um, mjög merkur áfangi, og það má óska þeim hv. stjórnarsinnum til hamingju með þennan áfanga.