28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. samgrh. gaf hér áðan fyrir hönd ríkisstj., einkum þó þeim þætti hennar sem fjallar sérstaklega um Norðurveg og Austurveg.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, 9. landsk. þm., sagði áðan, að auðvitað hefur það hvorki glatt mig né aðra flm. frv. um Norðurveg og Austurveg, að framkvæmdir samkv. þeim lögum hafa verið hægari en efni stóðu til og við vonuðumst til. Og ég veit að þm. allir, sem svo til allir stóðu raunar að samþykkt þess frv., — að þm. allir telji að því miður hafi ekki miðað nógu hratt áfram, og hygg ég kannske að það hryggi hæstv. samgrh. meira en nokkurn annan. Við verðum einu sinni að horfast í augu við það, að við höfum lifað erfiðleikatímabil undanfarin ár og þess vegna hafa framkvæmdir á þessu sviði verið minni en við öll hefðum viljað, og vissulega harma ég það mjög.

Hitt er svo annað mál, að þegar það spurðist út að sú hugmynd hefði vaknað í hv. fjvn. og hjá yfirvöldum vegamála að skerða fé samkv. lögunum um Norðurveg og Austurveg, þá gat ég ekki a. m. k. sætt mig við það. Í fyrravor horfðu mál svo illa að erfiðlega gekk að koma saman vegáætlun, og þá varð um það viðtækt samkomulag að lánaðar yrðu af fjármagni Norðurvegar og Austurvegar 350 millj., en einungis framkvæmt fyrir 150 millj. kr. Við höfðum auðvitað allir gert okkur vonir um að þetta fé yrði endurgreitt nú á þessu ári og til framkvæmda kæmi með því fjármagni. Því miður er ekki ljóst að svo geti orðið. Og sérstaklega var höfð hliðsjón af því við ákvörðun um einstakar fjárveitingar nú að Borgarfjarðarbrú væri á Norðurvegi, eins og það var kallað og túlkað, og má kannske til sanns vegar færa að svo sé, og þess vegna teknar um 300 millj. af þessu fé til þeirrar framkvæmdar eða er öllu heldur hugmyndin að gera. En nú hefur verið gefin um það yfirlýsing að féð verði endurgreitt og skili sér allt til þessara vegaframkvæmda, og í yfirlýsingu ríkisstj. segir einmitt að hún muni beita sér fyrir því, að lögin nái tilgangi sínum þótt nokkru seinna verði en til var ætlast, þannig að þetta fé komi til baka og verði þá notað við framkvæmdir við Norðurveg.

Fjármagnið — þriðjungurinn af heildarfjármagninu — það sem fer til Austurvegar er óskert, og skal ég ekki neitt öfundast yfir því. Það var gert um það samkomulag þegar þetta frv. upphaflega var flutt og fjallaði fyrst um Norðurveg einan. Það var gert um það samkomulag, sem naut víðtæks fylgis, að þriðjungur af þessu fé rynni til Austurvegar, og má kannske segja að eðlilegt hafi verið að þeir vildu ekkert eftir gefa af því. Og þó að við viljum ekki heldur, sem sérstaklega berum hag Norðurvegar fyrir brjósti, gefa neitt eftir, þá höfum við á það fallist að eitthvað verði dregið lengur en við vonuðum að endurgreiða það fé sem til vegarins á að fara. Ég er þó að gera mér vonir um að þegar fram á árið kemur muni menn sjá að hugsanlegt sé að verja eitthvað auknu fjármagni til Norðurvegar og þá sérstaklega á Holtavörðuheiði, sem kemur raunar til nota fyrir vestfirðinga líka, a. m. k. strandamenn og vonandi vestfirðinga alla, þegar samtenging kemur sem síðar verður. Um það vitum við ekkert í dag, hvort efnahagsástandið verður talið leyfa að fara í slíka framkvæmd umfram það sem nú er gert ráð fyrir á vegáætluninni.

Ég skal ekki fara langt út í að deila um hvort það sé yfirleitt löglegt að taka fé af Norðurvegi til Borgarfjarðarbrúarinnar. Ég held að það sé álitamál hvort svo sé. Í fyrsta lagi er það nú svo, að á vegáætlunum eru brýr sérgreindar alltaf. Að vísu er ein undantekning frá því, og það var á Skeiðarársandi. En þar var líka um sérstakt verkefni að ræða sem sérstök fjáröflun var til í einu lagi til brúa og vegar. Þar að auki er alveg ljóst að þegar að þetta frv. var fram lagt, þá hafði þegar verið tekin ákvörðun um Borgarfjarðarbrúna og veitt til hennar fé. Það kom aldrei til umr. hjá einum eða neinum að þetta fé yrði skert til þess að hrinda þeirri miklu framkvæmd af stokkunum sem Borgarfjarðarbrúin er. Ég er ekki að fjargviðrast yfir Borgarfjarðarbrúnni, hún þurfti að koma. Hún hefði kannske getað beðið eitthvað. En úr því að ráðist var í hana þá tel ég einmitt að þurfi að hraða henni, nákvæmlega eins og hæstv. samgrh. sagði, og ég hef ekki talið frágangssök að taka til hennar stórlán og stakk raunar upp á því að þegar á þessu ári yrðu þessar 300 millj. teknar sérstaklega að láni til Borgarfjarðarbrúarinnar. En hinn hátturinn hefur verið valinn, að endurgreiða lánið til Norðurlandsvegarins skv. yfirlýsingu ríkisstj. Þar að auki er þess að gæta, að þegar samkomulag var gert hér í fyrravor, þá var enginn maður sem orðaði það að einn eyrir af þessu fé yrði tekinn til Borgarfjarðarbrúar. Auðvitað hefði þá ekkert samkomulag verið gert, vegna þess að enginn grundvöllur var þá fyrir samkomulagi því að féð hefði þá allt þangað farið, en ekki í veginn eins og til var ætlast. En yfirlýsing ríkisstj. er ótvíræð að því leyti, að hún miðar að því að lögin nái tilgangi sínum. Tilgangur laganna var frá upphafi sá, að byggja upp þennan meginveg milli Norðurlands og Suðurlands, og síðan bætt inn í frv. Austurveginum. Þegar undirbyggingu væri lokið yrði hafist handa um að leggja þennan veg bundnu slitlagi. En fyrst og fremst átti að byggja þennan meginveg upp.

Það er rétt sem samgrh. sagði, að óbeint hafa þessi lög auðvitað komið að notum, því að hluti af lánsfénu hefur farið til að vinna verkefni eins og t. d. þau sem hann nefndi: Hrútafjarðarháls, Holtavörðuheiði — var í það verkefni reyndar hein fjárveiting af happdrættisfé, Öxnadalsheiði, í Skagafirði, út frá Blönduósi og víðar, og það ber auðvitað ekki að vanmeta, þó að hitt sé rétt, að miklu seinna hefur gengið en við öll vonuðumst til. En aðalatriðið er það, að við þetta get ég fyrir mína parta unað og vona að aðrir þeir, sem að frv. stóðu á sínum tíma og veittu því fylgi sitt, muni líka við það sætta sig miðað við aðstæður eins og þær eru. Hitt hefði ég ekki getað sætt mig við, að þetta fjármagn hefði verið skert, og hefði þá jafnvel fremur kosið þann kost, sem hv. þm. Geir Gunnarsson, 11. landsk. þm., nefndi, þ. e. hreinlega að afnema lögin ef þau þjónuðu ekki þeim tilgangi sem þeim var ætlað. Ef fólk var látið kaupa skuldabréf, sem boðin voru út til sérstakrar framkvæmdar, en síðan væri fénu varið til annarra framkvæmda, var verið að blekkja menn. Það er sök sér að lána féð þegar erfitt er um fjárhag hjá ríki og Vegasjóði, en hitt hefði ég ekki getað sætt mig við, að flytja féð í Borgarfjarðarbrú. Ég held, að það sé sanngirnismál að leysa þetta á þann veg sem hæstv. samgrh. hefur nú greint frá og ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir. Ég mun sætta mig við það og vona að þingheimur allur geri svo.