28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög 1977

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Gamalt máltæki segir, að allt er þá þrennt er. Ég er viss um að allur almenningur í landinu vill að þetta sé rétt hvað varðar fjármálastjórn landsmanna í tíð hæstv. fjmrh. og ríkisstj. Ég vænti þess að hv. þm. muni fyrsta loforðið í stefnuræðu hæstv. forsrh. um verðbólguna, en markmiðið var að koma henni innan skamms í um 15% svo að verðbólga á Íslandi yrði hliðstæð því er væri í nágrannalöndunum, þó nokkru meiri hér en gerðist almennt í Evrópu. Frá hendi vinstri stj. sálugu var tekið við um eða yfir 50% verðbólguskriðu. Það má því segja að markmiðið hafi verið sett nokkuð djarft, að geta á fáum mánuðum komið verðbólgunni niður í 15%, en þessu var hátíðlega lofað bæði fyrir kosningar, ef almenningur veitti Sjálfstfl. brautargengi, sem og raun varð á, og einnig varð þetta loforð ítrekað í fyrstu stefnuræðu, eins og ég sagði áðan. En hvernig hefur þetta tekist? Það er vert að hugleiða það aðeins.

Það er staðreynd að s.l. þremur árum hefur verðbólga hér á landi verið um 40%. Þetta er margfalt, margfalt Evrópumet og mun engan langa að reyna að slá slíkt met. Aðeins — og ég undirstrika: aðeins í hinum illstjórnuðu Suður-Ameríkuríkjum er verðbólgan meiri. Svo ömurlega hefur til tekist í baráttunni við verðbólguna hér á landi að það eina jákvæða, sem sést nú, er að s.l. 4–5 mánuði hefur verðbólgan verið sennilega um 25%. Samt sem áður er hún miklu, miklu meiri en gerist alls staðar í Evrópu.

Mig langar til að minna á að á síðasta landsfundi sjálfstæðismanna var greinilega undirstrikað af sumum ræðumönnum að verðbólgan afskræmdi þjóðfélagíð og skekkti. Morgunblaðið slær þessu mjög upp og birti stóra fyrirsögn um þetta í frásögn af fundinum. Þessi staðhæfing er rétt. En hvað hefur gerst? því er afskræmingunni haldið áfram? Því er hinum ríku gert að verða ríkari og ríkari og hinum efnaminni gert að verða fátækari og fátækari?

Gífurleg eignatilfærsla gegnum verðbólguna á sér stað í þjóðfélaginu. Ég vil minna á að sparifé landsmanna hefur á þessu tímabili verið um eða yfir 40 milljarðar kr., og þótt vextir af sparifé séu 18% eða jafnvel yfir 20% í vissum tilfellum tapast nærri hliðstæð upphæð og þessari vaxtatölu nemur, þ.e.a.s. ég vil meta verðrýrnun sparifjár á yfirstandandi ári u. þ. b. 9–10 milljarða kr. Hvað þýðir þessi upphæð? Hún er nokkurn veginn sú sama og allur tekjuskattur á komandi ári ef gengið er út frá því sem gert er ráð fyrir í frv., en tekjuskattur er þar reiknaður 9.9 milljarðar kr.

Landsmenn mega sjá og hv. þm. að við svo búið getur ekki staðið lengur. Höfuðverkefni Alþ. hlýtur að vera að koma í veg fyrir verðbólguna og móta fjárl. skv. því og aðra fjármálastefnu í þjóðfélaginu í samræmi við gerð fjárl. Hver hefur gefið hæstv. ríkisstj, eða fjármálastjórn landsins leyfi til að svipta sparifjáreigendur 9–10 milljörðum kr. á ári? Enginn hefur slíkt vald og á ekki að fá slíkt vald? Það verður að stöðva þessa þróun. Vissulega verður þetta ekki stöðvað nema það komi við einhvern. Hvernig á að snúa við? Um það deila menn. En ég vil segja, að meðan vextir eru hér yfir 20% í atvinnulífinu og jafnvel mun hærri undir vissum kringumstæðum er engin von til þess að verðbólgan fari hraðminnkandi. Menn verða að horfast í augu við þá staðreynd að rétt er að færa vexti niður um u.þ.b. helming og síðan setja bindingu á öll útlán við ákveðið hlutfall í samræmi við byggingarkostnað og framfærslukostnað svo að verðbólguspekúlasjón hætti. Önnur leið er vart til. Þetta er grundvallaratriði og þarf ekki að leita marga mánuði í því efni fram í tímann að vandamálinu.

Spurningin er, hve margir þora að standa við slíkt og þora að takast á við þann vanda sem þessu fylgir. Vitanlega munu stóreignamenn og margir lánsfjárhafar öskra og láta öllum illum látum. En þeir hafa fengið meira en sitt undanfarið og mál er að linni. Nú er rétt að gera ráðstafanir er allur almenningur nýtur góðs af.

Þetta fjárlagafrv. ber það ekki með sér að ráðist verði að þeim vanda er ég fjallaði hér um. Mér virðist að mörgu leyti að hopað sé enn undan og ekki stefnt um of í rétta átt. Það skal þó viðurkennt að viss viðleitni er til að hamla á móti, og það er jákvætt að ströng greiðsluáætlun er tekin upp hjá fjölda ríkisfyrirtækja og aukið aðhald um fjármuni ríkisins er fyrir hendi. Slíkt var nauðsyn, og lög í því efni, að banna að frjáls yfirdráttur væri tekinn í bönkunum fyrir ríkisfyrirtækin, voru samþ. samhljóða hér á hv. Alþ. og veittu forsvarsmönnum ríkisfyrirtækja aukið aðhald. Um þennan áfanga voru allir sammála. En hitt er staðreynd, að hæstv. fjmrh. eða aðrir fyrir hans hönd varðandi stjórnun á sjálfum ríkissjóði hafa yfirdregið hjá Seðlabankanum í sívaxandi mæli og skuld Seðlabankans nú er með mesta móti og skiptir milljörðum kr. Þetta er ekki rétt. Jafnframt þessu hefur erlend skuldasöfnun vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum, og er nú svo komið að um fimmta hver króna af gjaldeyristekjum okkar rennur til að standa í skilum með vexti og afborganir af erlendum skuldum. Hér er of langt gengið, því að slík skuldasöfnun og slíkt fjármagnsstreymi sem þetta hefur ýtt undir verðbólgu og rýrt sparifé landsmanna, eins og ég sagði áðan, um annan tug milljarða kr. á s.l. tveimur árum. Þetta eru svo geigvænlegar tölur og svo geigvænlegar staðreyndir að þetta er óþolandi. Einnig verð ég að minna á það, að í frv. er gengið út frá því að 18% vörugjaldið haldi áfram og hefur nú mjög brugðið til hins verra. Tekjur ríkissjóðs af þessu vörugjaldi eru á sjötta milljarð kr., og þegar 20% söluskattur leggst ofan á gjaldið í tolli er augljóst að alls fær ríkissjóður nær 7 milljarða kr. vegna þessarar ráðstöfunar. Því var marglofað á sínum tíma, er vörugjaldið var sett á, að það væri bráðabirgðaskattur til lausnar skyndilegum aðsteðjandi vanda, og því var lofað að það skyldi falla burt innan skamms. Auðvitað hækkaði vörugjaldið margvíslegar vörur og jók þannig á verðbólguspennuna. En rök voru fyrir því að ríkissjóð vantaði meira fjármagn vegna sérstakra verkefna, og reynslan sýnir marga áratugi að nýr tekjustofn fellur ekki svo mjög af þeirri breiðu eik er ríkissjóður þarf til að fá í sinn sarp ef hann einu sinni kemst á. Viðurkenning á þörf 18% vörugjaldsins fyrir næsta ár, er á að gefa um 7 milljarða kr. eða liðlega það, er enn ein staðfesting á þessari gömlu skoðun.

Hæstv. fjmrh. kann að segja að mjög væri þröngt fyrir víða ef við hefðum ekki þetta vörugjald. Svo kann að vera. En er rétt að láta undan öllum? Er rétt að kynda undir verðbólgunni, eins og ástandið hefur verið varðandi verðbólguþróun og atvinnustig í landinu? Það er ekki ný staðreynd, og svo mun jafnan verða, að þarfir í okkar þjóðfélagi eru óþrjótandi. Spurningin er hvernig við förum með það fjármagn sem er til ráðstöfunar í uppbyggingu hverju sinni. Að mínu mati þarf enga hagsnillinga til þess að sjá það, að óhóflegt útstreymi úr ríkissjóði hlýtur að auka á eftirspurn eftir vöru og þjónustu og skapa þannig betri skilyrði fyrir verðbólgu. Því miður er það staðreynd, að óhóflegt fjármagn hefur komið í gegnum ríkissjóð með gífurlegri skuldasöfnun hjá Seðlabanka Íslands og gegndarlausri erlendri lántöku og því verið sem olía á verðbólgubálið. Þessu verður að linna.

Ég undirstrika að höfuðmarkmið hverrar ríkisstj. og ekki síst hæstv. núv. ríkisstj. hlýtur að vera að draga úr verðbólgu og hafa sómasamlegan hemil á henni. En er þetta hægt við núverandi aðstæður? Ég fullyrði, að svo sé, vegna þeirrar staðreyndar að hækkun á erlendu verðlagi varð að meðaltali árið 1975 um 5–6%, og eftir því sem útlít er nú á erlendu verðlagi að meðaltali fyrir yfirstandandi ár má reikna með að það sé liðlega 1% hærra. Það þýðir að það geta orðið 6.–7%. Það eru því alls ekki hin erlendu áhrif nú, sem eru orsök svona gífurlegrar verðbólgu á Íslandi. Ég vil að menn veiti þessu athygli. Það eru fyrst og fremst innlend áhrif. Það er innlent stjórnleysi sem gefur verðbólgunni þetta líf. Þess vegna er hægt að ráða við vandann. Vegna áhrifa erlendis frá ættum við að geta haft hér verðbólgu sem væri örugglega undir 15%, eins og hið fagra markmið gaf fyrirheit um á sínum tíma, og þá er okkur sómasamlega borgið miðað við verðlag á afurðum okkar erlendis s.l. mánuði, og útlitið er nú mjög jákvætt fram á við.

Ég tel því, eins og ég sagði áðan, að forsendur fyrir breyttri stefnu verði að vera vaxtalækkun og afnám 18% vörugjalds og meira aðhalds í ríkisbúskapnum. Almenningur hefur verið rólegur, og hinn almenni launþegi í landinu hefur tekið á sig ótrúlegar byrðar til þess að svigrúm gæfist í því efni að lækka verðbólguna og draga úr rýrnandi kaupmætti. En þess sjást nú merki að launþegasamtökin eru orðin óróleg. Það má segja að ekki sé framkvæmanlegt í fjárlagafrv. að gera ráð fyrir öllum launahækkunum á komandi ári. En engu að síður hlýtur það að vera ljóst fyrir áramót að um verulega launahækkun verður að ræða á næsta ári ef fram heldur sem horfir, og því brýnni nauðsyn er á að koma í veg fyrir óhóflega verðþenslu hér innanlands á neysluvörum. Þessi skoðun er staðfest í einni setningu á bls. 157 í aths. við frv., en þar segir orðrétt: „Traustur fjárhagur ríkisins er nú enn brýnni en fyrr þar sem verslunarárferði hefur að nýju snúist okkur í hag.“ Þetta er auðvitað laukrétt.

Í aths. við fjárlagafrv. fyrir árið 1976 sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Brýnustu viðfangsefnin á sviði efnahagsmála um þessar mundir eru að hamla gegn verðbólgu og draga úr hallanum í greiðsluviðskiptum við erlendar þjóðir. Forsenda árangurs í þessu efni er að ríkisbúskapurinn stuðli að almennu jafnvægi í þjóðarbúskapnum.“ Ég vil spyrja: Var farið eftir þessari kenningu sem stendur í frv. hæstv. ríkisstj.? Gleymdust ekki ein brýnustu verkefnin. Það sannaði raunar ræða hæstv. fjmrh. áðan er hann las upp hinar margvíslegu hækkanir til þenslu á alla kanta. Og síðasti ræðumaður hér benti á hvernig frv. byggist á áframhaldandi gegndarlausri þenslu.

Það kemur fram í ræðu hæstv. forsrh. og einnig nú í tali hæstv. fjmrh., að verulega hafi dregið úr hallanum út á víð, viðskiptahallanum, og það er rétt. En það var ekki vegna skipulegrar starfsemi í fjármálum ríkisins. Það var vegna þess að verðlag á útflutningsafurðum okkar tók að hækka verulega fyrir nokkrum mánuðum og hefur haldist enn mjög hátt. M.a. er þorskblokkin á svo háu verði í dag að aldrei hefur annað eins átt sér stað. Það sama má segja um skreið. Og einnig er saltfiskur í góðu verði og vel viðunandi verð er á mjöli og lási. Það eru því hin ytri erlendu áhrif sem björguðu ríkisstj. varðandi stöðuna í lánamálum á erlendum markaði og hagstæðari greiðslujöfnuð. Hins vegar hefur því verið marglýst yfir, að ekki megi hamla um of gegn innflutningi. Það er trúaratriði, a.m.k. hjá öðrum stjórnarfl. Hann skal a.m.k. að nafninu til vera allur frjáls og hver maður má sækja um það sem honum dettur í hug varðandi innflutninginn. Þetta kann að vera góð og gild regla, ef af nægu er að taka til að borga með. En þegar það blasir við að erlendar skuldir skipta mörgum millj. kr. og svo hárri upphæð, eins og ég sagði áðan, að vextir og afborganir erlendra lána taka nú nærri fimmtu hverja gjaldeyriskrónu, þá hlýtur að mega velta vöngum yfir því hvort óhindraður innflutningur sé það sem eigi að bjarga þjóðinni. Þegar hallar undan fæti í vöruskiptum okkar við erlendar þjóðir, þá verður ekki komist hjá því að setja nokkrar hömlur á vissa vöruflokka, þó að það sé leiðinlegt — og það vil ég undirstrika — og erfitt verk. En ég endurtek: Ég sé ekki að komist verði hjá slíku svo að ráð verði höfð á þróun fjármála og stöðu heildarríkisbúskaparins. Margar þjóðir, sem eru eins og við hlynntar frjálsum viðskiptum og frjálsri verslun, hafa orðið að grípa til þess að hamla á móti taumlausum innflutningi og frjálsu fjármagni út úr landinu í gegnum innflutning. Þetta eru í flestum tilfellum tímabundnar reglur og tímabundnar aðgerðir og gerðar til þess að koma á jafnvægi. Það, sem við höfum gert til þess að halda við frjálsum innflutningi, er að taka óhemjumikil erlend neyslulán og fleyta okkur þannig yfir lægðina í trausti þess að vel ári innan tíðar og útflutningsafurðir okkar geti greitt úr vandræðum fyrr eða síðar.

Reynslan sýnir að erfitt er að hamla á móti áhrifum skyndilegra verðhækkana á erlendum markaði á afurðum okkar, og mér virðist að slíkt eigi sér stað enn einu sinni. Ég fullyrði að enginn var harðari hér á hv. Alþ. um áramótin 1973 og 1974, þegar allir sáu hinn mikla gróða í óveiddri loðnu, óseldum loðnuafurðum, en ég að vara við þessu háttalagi. Þá hjálpaði núv. hæstv. forsrh. þáverandi ríkisstj. og viðskrh. í því efni að færa til í þjóðfélaginu gífurlegar álögur á milli aðila, og að mínu mati náði það ekki nokkurri átt. Miklu skynsamlegra, eins og reynslan hefur sýnt, var að fara gætilega og eiga nokkuð í handraðanum ef illa tækist til siðar á árinu eða næstu árum. Þá hefði krónan okkar ekki verið skráð það sem hún er skráð í dag. Það hefði verið stöðugra gengi. því miður reyndist þetta svo.

Reynslan ætti að kenna okkur nokkuð frá liðnum árum. Við verðum að muna að verðlag á erlendum markaði á afurðum okkar sveiflast mjög mikið, kann skyndilega að risa mjög hátt vegna óvæntrar eftirspurnar, kann einnig að falla mjög ört vegna dvínandi eftirspurnar. Þar sem ríkisbúskapur okkar er svo háður erlendum viðskiptum verður að vera fyrir hendi það þrek að hamla á móti þessum áhrifum með aðgerðum í fjármálum þjóðarinnar, en það hefur ekki verið fyrir hendi í 3–4 ár undanfarið.

Þetta frv. til fjárl. fyrir árið 1977 ber þess að mínu mati alls ekki vott að menn hafi lært af reynslunni. Þvert á móti er hækkunin á milli ára í fullu samræmi við verðþensluna innanlands. Mun því verða mjög erfitt, nema gagnger breyting eigi sér stað, að draga úr verðbólgunni sem allir viðurkenna að er höfuðvandi og höfuðóvinur hins almenna borgara í þessu þjóðfélagi. Má ég nefna dæmi um hvernig verðbólgan fer með sparifé manna? Mér er kunnugt um að tvær rosknar konur lögðu hvor sína milljónina til hliðar, önnur inn á sparibók í viðskiptabanka, hin keypti ríkisskuldabréf. Að nokkrum árum liðnum kemur í ljós að sú, er lagði fjármagn inn í sparibók sína og veitti þar með atvinnulífinu rekstrarfé, hefur tapað meira en helmingi á móti þeirri er keypti ríkisskuldabréfin. Þetta er óþolandi, þar sem sú, er fer halloka, hefur veitt atvinnulífinu nauðsynlegt rekstrarfé og margir á því sviði hafa örugglega haft hag af í gegnum verðbólguþróunina. Hins vegar hefur konan, sem keypti ríkisskuldabréfin, veitt ríkisvaldinu fjármagn til ráðstöfunar, til uppbyggingar, segjum skóla, segjum í samgöngukerfið eða raforkuframkvæmdir sem auðvitað er allt nauðsynlegt. En á að refsa þeirri, er veitti atvinnulífinu eðlilegt rekstrarfé, þannig, að hún standi nú yfir 100% verr að vígi eftir ákveðið árabil fyrir það að veita atvinnulífinu eðlilegt rekstarfjármagn og veita viðskiptabanka ráðstöfunarrétt á sparifé sínu? Slíku mótmæli ég. Slíkt er óhugsandi. Þessu verður að breyta, og sá sparnaður, sem á sér stað í þjóðfélaginu, verður að njóta viðurkenningar hvar sem hann á sér stað. Annars næst ekki jafnvægi.

Ég vil einnig minna á að nýverið kom ný króna í umferð, ný mynt. Hún er svo ömurleg útlits og svo létt í hendi að mér er kunnugt um að menn bókstaflega vilja ekki taka við henni sem skiptimynt, og þetta undirstrikar enn einu sinni þá staðreynd, hversu krónan er orðin ömurlega smá og lítils virt. Ég tel eitt af þeim atriðum, sem grípa verður til svo að skapa megi aukna trú á gildi krónunnar, að strika út núll aftan af og koma með nýja þunga krónu. Frumskilyrði fyrir jafnvægi í efnahagsbúskap okkar er að menn virði þann gjaldmiðil, sem notaður er í landinu, svo mikils að rétt sé að ráðstafa honum til eðlilegrar neyslu og afgangi til sparnaðar í banka. Fjármálastjórn landsins ber með Alþ. í fararbroddi að stuðla að þessari þróun og þessari viðurkenningu á sómasamlegu líferni og eðlilegum sparnaði. Það er óverjandi að láta það viðgangast ár eftir ár að menn hugsi sem svo, að það eina rétta sé að eyða, eyða og eyða aflafé sínu umsvifalaust, ella brenni það upp og verði að engu. Þótt sparifé landsmanna sé um 40 milljarðar, má segja að sumum finnist það ekki ýkjastór upphæð. Það er það í raun, mikil upphæð og sýnir vilja margra manna til þess að fara vel með fé sitt og gefa bönkunum og atvinnulífinu færi á því að nota það rétt. En á móti hlýtur sá hópur, sem á þetta sparifé, að gera þá kröfu að aðhald ríki í fjármálastjórn, jafnt ríkisbúskap sem öðru.

Ég hef nú talað almennt um fjármálastjórn hér á undan og staðhæft að um lítið aðhald hafi þar verið að ræða.

Um einstaka þætti frv. mætti fjalla í löngu máli, en ég sleppi því í þetta sinn, sérstaklega þar eð síðasti ræðumaður kom mjög ítarlega inn á hreyfingu á ýmsum líðum á milli ára. Ég mun bíða og sjá hverju fram vindur um frv. í meðförum Alþingis. Þó vil ég minna hér á þrjú atriði.

1. Útflutningsuppbætur eru áætlaðar um 1800 millj. kr. Hér verður um nær tvöföldun til hækkunar að ræða. Ég spyr: Er þetta hægt? Getur þetta verið réttlætanlegt? Er kerfið hafið yfir alla gagnrýni? Öllu þessu svara ég neitandi. Hér er á ferðinni svo mikill vandi að ekki er lengur unnt að skjóta sér undan honum og finna aðra sanngjarna lausn á. Ég vænti þess að hv. þm. sjá sóma sinn í því að koma með úrbætur í þessu efni. tíð viðmiðunar má benda á að öll síldveiði í ár hér við land, sem menn hafa svo mjög fagnað yfir að gefi okkur mikið, gerir aðeins meira en að brúa þetta bil. Þó gæti svo farið, eins og segir í frv., að það stæði mjög á endum og uppbæturnar yrðu jafnvel yfir 2 milljarða. Verðmæti síldarinnar til erlendra kaupenda er talið um 2000 millj. kr. Margir minna nú á í ræðu og riti — og það hér á Alþ. — að bókun 6 og síldveiðar okkar í Norðursjó og einnig að sala á rækju og humri til EBE-landanna sé okkur gífurlega mikilvægt. En þetta al]t samanlagt gerir samt mun minna en útflutningsuppbæturnar sem koma einkum á sauðfjárafurðir. Ég trúi varla öðru en þm. sjái að sífellt hærri krónutala úr ríkissjóði er ekki sú lausn sem vera á. Ég vænti þess að menn geti fjallað um þetta öfgalaust og fundið betri lausn en þetta kerfi.

2. Ég hef oft áður gagnrýnt meðferð áfengismála og sé að þar er haldið áfram á sömu braut: Meiri tekjur, meiri tekjur í gegnum vínið. Miklar tekjur koma upp, einnig stórmikil vandamál í sambandi við lögreglukostnað og fleira sem fylgir á eftir og ekki verður í krónum talið. Ég harma að þetta skuli halda hér áfram á rangri braut.

Í þriðja lagi vil ég minnast á að framlag til íþróttamála er enn þá langt undir sómasamlegu marki. Ég vil nú heita alveg sérstaklega á hæstv. fjmrh., sem hefur í mörg ár verið mikill unnandi íþrótta, að gera hér stórt átak, og þá minni ég einnig á að hæstv. menntmrh. flutti till. á sínum tíma um stóraukið átak í íþróttamálum skólanna. Hér verður ekki sæst á það lengur að svona fjárhæð fari til íþróttamála. Það er ekki hægt. Það verður að auka þessa tölu og spara þá á öðrum liðum. Það er ekki verjandi þegar við fáum fregnir af því að stór hópur unglinga hafi ekki aðstöðu og engin leikfimikennsla geti faríð fram í mörgum skólum landsmanna, þá er ekki verjandi í fjárl., er nema yfir 84 milljarða, að ekki skuli vera komið til móts við þarfir þessara ungmenna í dag. Það er ekki verjandi. Ég nefni þennan eina þátt til hækkunar, og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. gefi tækifæri á því að meira framlag komi til íþróttamála í landinu.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa þessi orð miklu fleiri við þessa 1. umr. Ég leyfi mér þó að minna á þá staðreynd varðandi þau þrjú fjárlagafrv., er hæstv. fjmrh. hefur flutt, að niðurstöðutölur þeirra sýna um eða yfir 117% hækkun, en í raun mun verða á meiri breyting. Í fyrsta frv. var niðurstaðan 38.5 milljarðar, en nú sýnir þetta frv. 83.1 milljarð að niðurstöðu. Fái ráðh. að leggja fram hið fjórða frv., má vænta þess að hann fari yfir hið mikla mark 100 milljarða. Ég leyfi mér að minna hæstv. fjmrh. á fyrri hugmyndir um aðhald, er hann ásamt einum starfsbróður sínum í tíð vinstri stjórnarinnar setti fram þekkta kenningu, þakkenninguna svonefndu, og kom einnig með till. er þá námu um 4.6 milljörðum kr. til sparnaðar, er í dag mundi líklega nema 13–14–15 milljörðum kr. Þessar hugmyndir eru ekki gleymdar, og hann mætti dusta af þeim rykið.

Við umr. í des. á s.l. ári varðandi afgreiðslu fjárl. gerðum við það í Alþfl. að lesa upp svo hljóðandi yfirlýsingu:

„Þingflokkur Alþfl. telur frv. það til fjárl„ sem nú er til lokameðferðar hér á Alþ., bera glögga vott þess að ríkisstj. hefur ekki tekist að móta heilbrigða heildarstefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem dregið gæti verulega úr verðbólgunni, tryggt atvinnu, bætt lífskjör launafólks og lagt traustan grundvöll að öruggum rekstri atvinnuveganna. Þingflokkur Alþfl. telur auk þess, að þetta frv., sem stjórnarfl. virðast nú ætla að samþ., muni reynast pappírsgagn eitt, eins og fjárl. yfirstandandi árs reyndust.“

Reynslan sýndi og ræða hæstv. fjmrh. áðan að við höfðum hér því miður rétt að mæla.