28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2952 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil biðja afsökunar á því að ég skuli trufla — koma inn í umr. á milli vestfirðinganna. Það versta við þá er að þeir eru svo sterkir í fótunum að þeir geta talað lengi.

Ég veit ekki í hvaða ummæli hv. 5. þm. Norðurl. e. var að vitna þegar hann vitnaði í ummæli hv. 4. landsk. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar. Ég var ekki viðstaddur. En mér skildist á málflutningi hv. þm. Stefáns Jónssonar að þessi Reykjavíkurþm., eins og Stefán Jónsson kallaði hann, hefði lýst óánægju sinni með hlut Reykjavíkur til vegalagningar. Og ég vil taka undir með hv. 5 þm. Norðurl. e., að ég er alveg furðu lostinn að slík ósvifni skyldi koma fram hjá þm. Reykv., að vera ekki búinn að átta sig á því fyrir löngu að það er alls ekki ætlast til þess að þm. Reykv. taki til máls eða fari fram á eitt eða annað, hvorki við afgreiðslu fjárl. né vegáætlunar, um framlag af vegafé til okkar kjördæmis. Og mér mér liggur við að taka mér það bessaleyfi í fjarveru hv. 4. landsk. þm. að biðja afsökunar fyrir hans hönd og annarra þm. Reykv. að hann skyldi blanda sér inn í úthlutunarmál á peningum hér á hv. Alþingi.

En ég verð að segja það, að við þm. Reykv. verðum að vera ánægðir og reyna að láta sem allra minnst á okkur bera nú til þess að það verði ekki skornar niður þessar 98 millj. sem af einhverjum ástæðum standa nú á vegáætlun til Reykjavíkur af þeim 3000 millj. sem er verið að úthluta. Ég ætla ekki að gera það að neinu atriði að taka undir með hv. 4. landsk. þm. Það klingir alltaf í eyrum, bæði hér og annars staðar, að Reykjavík er svo rík að hún getur séð um sig sjálf. Og mér er næst að halda að sama skoðun ríki hvað Reykjaneskjördæmi allt snertir.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri, þau eru kannske orðin of mörg, en hlakka til að hlusta á framhaldsumr. utanbæjarþm. um baráttu þeirra um skiptingu á kökunni.