13.04.1977
Sameinað þing: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3071 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

148. mál, bygging nýs þinghúss

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég bað um orðið, þegar þessi till. kom til umr. fyrir allnokkru, og vildi gera við hana örfáar athuga­semdir.

Ég vil í fyrsta lagi fagna fram kominni till. sem ég tel mjög tímabæra. Það er enginn vafi á því, að við þurfum fljótlega að fara að vinda okkur að því að taka ákvörðun um framtíðarhús­næði fyrir Alþingi og starfsemi þess. Undir þetta tek ég.

Ég verð hins vegar að taka undir það með síðasta hv. ræðumanni, að mér þykir orðalag till. nokkuð ákveðið, að reisa skuli nýtt hús fyrir Alþingi vestan við núverandi þinghús. Mér sýnist að fjölmargt þurfi að athuga áður en svo ákveðin stefna er tekin. Í fyrsta lagi vil ég nefna skipu­lag Alþingis sem reyndar hefur borið á góma í þessum umr. Á Alþingi að vera í einni deild eða tveimur? Í mínum huga hefur það mikil áhrif á það húsnæði sem Alþ. þarf.

Ég vil mótmæla því, sem kom fram hjá hv. frsm., að leggja eigi niður Ed. Alveg eins mætti leggja niður Nd. En það skiptir kannske ekki öllu máli. Ef þingið yrði sameinað í eina deild hefur það vissulega veruleg áhrif á það húsnæði sem þingið þarf til sinna nota, en ég er ekki sannfærður um að ekki megi breyta þessu húsi sem við erum í. Þetta húsnæði hefur margt til síns ágætis, a. m. k. sögulega. Ég hef ekki heyrt þau rök sem sannfæra mig um að ekki megi t. d. stækka þennan sal ef Alþ. yrði ein deild, t. d. til beggja handa hérna við okkur, og fá þó nokkra aðstöðu umfram það sem er þegar að finna í þessu húsi. Mér finnst nauðsynlegt að skoða þennan möguleika einnig vandlega.

Ég er einnig ósammála því, sem kom fram í framsögu hjá hv. frsm., að starfsaðstaða alþm. væri út af fyrir sig nokkuð sæmileg orðin. Það er að vísu rétt að margir alþm. hafa fengið skrif­stofuholu hér í kring, sumir tveir og þrír í her­bergi, og sums staðar er það þannig að menn verða að tala saman í lágum hljóðum svo ekki heyrist allt á milli herbergja. A. m. k. var ég var­aður við því einu sinni, þegar ég kom út í gamla húsið Skjaldbreið, að tala ekki hátt það sem ekki mátti heyrast. Ég tel þetta ekki bærilega starfsaðstöðu — eða t. d. vélritun og almenna þjónustu sem veita þarf við undirbúning mála hjá alþm., ég tel hana langt fyrir neðan það sem viðunandi er. Ég vil varpa fram þeirri hugmynd, hvort ekki sé jafnnauðsynlegt að byggja t. d. sæmilega skrifstofuálmu einhvers staðar í tengsl­um við þetta hús. Alþ. á hér mikið landssvæði í kring, og vel mætti koma slíkri álmu fyrir án þess að nokkuð skyggði á þetta hús og hafa þó samgang á milli og hafa þar aðstöðu fyrir alla þingflokka og fyrir vélritun og annað sem þeir þurfa að hafa í tengslum við sig. Ég vil leggja á það áherslu, að ég tel starfsaðstöðu að þessu leyti raunar fyrir neðan allar hellur, ef ég má orða það svo. Ég held því að það þurfi einnig að skoðast, hvernig þessu verður fullnægt. Ég tel þetta ákaflega mikilvægt til þess að þm. geti starfað eins og þeim ber skylda til.

Ég vil ekki heldur taka undir orðalagið í þess­ari grein, sem ég reyndar hef minnst á fyrr, um staðsetningu fyrir vestan núverandi alþingishús. Það tel ég ófært og vil því umorða greinina þannig, að húsnæði fyrir Alþ. og til starfsað­stöðu fyrir alþm. verði tekið til skjótrar athug­unar. Ég held að það þurfi að herða þarna mjög á og nauðsynlegt er að fá úr þessu skorið.

Ég hef stundum spurt um n. sem mér er tjáð að sé enn þá til og í sitji nokkrir ágætir alþm. sem áttu að skoða þetta mál. Ég hef ekkert heyrt frá henni í fjölmörg ár. Ég heyrði hana nefnda um það leyti sem ég kom hingað fyrst. En hvar er hún? Er ekki hægt að fara að leita eftir áliti þessarar n.?

Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil endurtaka það, að ég tek undir það í þessari till. að þessu máli þarf að hreyfa og við verðum að fara að skoða það og verðum að fara að at­huga það, en ég vil að það verði skoðað á langt­um breiðari grundvelli en mér þykir fram koma í þessari þáltill.