19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3371 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

206. mál, atvinnumál á Suðurlandi

Fim. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Nú er orðið mjög áliðið dags, nýr sólarhringur hefst innan 10 mínútna. Kannske er það af þeim sök­um sem því miður allt of fáir heyra, því svo sannarlega hefðu menn gott af því að hlýða á þegar rætt er um góð málefni og nytsamleg.

Það er fleira en málmblendiframkvæmdir eða prestatal sem ætti að geta vakið athygli á hinu háa Alþ. En sökum þess að nú munu allir hv. þm. vera horfnir úr salnum, þá sé ég ekki ástæðu til að halda hér um þetta langa ræðu, en að sjálf­sögðu verður að mæla fyrir þessari till. til þál. um atvinnumál á Suðurlandi sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 413.

Þessi þáltill. er flutt að gefnu tilefni. Þetta er ekki neitt auglýsingaplagg af neinu tagi. Ég álít að það hafi orðið nauðsyn að hreyfa þessu máli hér á hinu háa Alþ. vegna þess, að Suður­land hefur dregist aftur úr í uppbyggingu at­vinnuvega á undanförnum árum, og ástæðan til hess er fyrst og fremst sú, að þar er ekki um hafnir að ræða nema á vesturmörkum kjör­dæmisins.

Till. sjálf hljóðar svo, upphaf hennar:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að gera nú þegar áætlun um að treysta atvinnugrundvöll í Suðurlandskjördæmi, einkum í þeim hlutum þess þar sem atvinnuástand er verst og ný atvinnutækifæri fæst.“

Sannleikurinn er sá, að nú í vetur og raunar áður hefur borið allmikið á atvinnuleysi í sveitarþorpunum á Suðurlandi. Um leið og dró úr vinnu við virkjanirnar á hálendinu kom í ljós að mjög margir urðu atvinnulausir, og síðan hefur margt fólk orðið atvinnulaust sem stundað hefur ýms­an iðnað sem lagst hefur niður, eins og t. d. Selfossi, en þar voru atvinnuleysingjar nú í vetur á milli 70 og 80 manns og raunar fleiri, vegna þess að um 50 manns þar á ofan sóttu vinnu sína til Reykjavíkur.

Það er af þessu tilefni sem þáltill. er flutt. Ég legg áherslu á það í till., að kannað verði í fyrsta lagi hvort ekki sé unnt að framleiða gras­köggla og annað kjarnfóður í stórum stíl. Í öðru lagi að það hráefni, sem til fellur úr þessu mikla landbúnaðarhéraði, flytjist ekki óunnið á brott, heldur verði aðeins flutt þaðan fullunnið. Og í þriðja lagi að leita eftir því, hvort ekki sé unnt að nýta hin margvíslegu og mörgu ágætu gos­efni sem til eru í mjög stórum stíl á Suðurlandi. Þar nægir að nefna vikur úr Heklu og ýmis önnur efni sem mjög þægilegt er að nota til framleiðslu á ýmsum byggingarefnum sem eru nú orðin mjög eftirspurð, ekki síst hér í ná­grannalöndunum, þar sem tilfinnanlega vantar efni í slíka framleiðslu. Í fjórða lagi minni ég á hvort ekki sé unnt að fara út í það að fram­leiða grasplötur úr innlenda hráefni. Þetta er byggingarefni sem er ákaflega mikið notað um allt land og keypt dýrum dómum frá útlöndum. Í fimmta lagi leyfi ég mér að benda á að við rannsóknir, sem fóru fram fyrir nokkrum árum á vegum iðnrn. með aðstoð erlendra sérfræðinga, kom í ljós að á nokkrum stöðum á landinu finnst ákveðin tegund af basalti, svokallað kastbasalt, sem er þeirrar náttúru að úr því má framleiða ákaflega slit sterka fleti, — fleti sem ekki aðeins þola mikið álag og áníðslu, heldur er það einnig mjög vel sýruþolið og þolir ákaflega vel alls kyns kemiskar samsetningar og þess vegna kjör­ið til þess að leggja í alls kyns jarðveg, sem víða er hér á landi sýruborinn, og leggja í alls konar gólf, verksmiðjugólf og annað slíkt. Það kom einmitt í ljós, að á Suðurlandi, a. m. k. á einum stað, fannst mikil náma af þessu efni í Vörðufelli á Skeiðum. Í sjötta lagi er lagt til að kannað verði hvort ekki sé hagkvæmt að leggja aukna áherslu á garðrækt og ylrækt til stórframleiðslu á grænmeti til innanlandsþarfa, því við vitum að grænmeti er flutt í stórum stíl til landsins og enginn vafi á því, að með samstilltu átaki, fjármagni og bjartsýni er hægt að auka þennan at­vinnuveg mjög okkur til góðs og spara okkur einnig innflutning í þessum efnum. Og svo eru í sjöunda lagi önnur atriði sem stuðlað gætu að uppbyggingu atvinnuvega í landsfjórðungnum. Þar er ýmislegt sem kemur til greina, m. a. að efla ýmsar þær iðnaðargreinar sem lögð hefur verið stund á undanfarin ár, og öðru mætti bæta við.

Mér dettur nú í hug vegna máls sem liggur hér fyrir þinginu núna, till. um að selja ákveðnu fyrirtæki á Siglufirði húsnæði Tunnuverksmiðju ríkisins og leggja þá verksmiðju niður, að á síð­ustu tveimur árum hefur verið og á næstu árum verður leyft að veiða síld, Suðurlandssíld, sem verður hér auðvitað söltuð og úr henni unnið. Þá er ekki nokkur vafi á því, að það er mikið öryggi í því að hafa slíka verksmiðju starfandi. Og þar sem síldin veiðist fyrir Suðausturlandi og Suðurlandi, þá væri eðli málsins samkvæmt eðli­legast að koma þeirri verksmiðju fyrir þar, þegar það stendur fyrir dyrum að leggja hana niður nyrðra, þar sem hún er að vísu fjarri allri síldveiði.

Margar þessar till. fela í sér ábendingar um iðnað og iðju, jafnvel stóriðju, sem er fólgin í því að spara gjaldeyri. Ég vil í fyrsta lagi nefna það sem minnst er á fyrst, framleiðslu á gras­kögglum og kjarnfóðri, að á Suðurlandi eru víð­áttumikil svæði, eins og kunnugt er, þar sem mjög auðvelt er að rækta gras, enda sýnir reynslan að það hefur tekist vel við uppgræðslu á Rang­árvöllum og t. d. á Skógarsandi og hefur gjör­breytt landbúnaði í þeim héruðum. Og það er aðeins sáralítið af þeim möguleikum sem fyrir liggja á þessu sviði.

Við íslendingar flytjum til landsins geysimikið af dýru erlendu kjarnfóðri. Það er ósköp ein­faldlega vegna þess að heyið nægir ekki til þess að gefa skepnunum eða halda þeirri nyt sem verður að vera í nútímabúskaparlagi. En ég fæ ekki betur séð en við sjálfir höfum flest þau efni til sem þarf í slíkt kjarnfóður. Ég er ekki búfróður, en mér telst til að talsverður hluti þess kjarnfóðurs, sem við flytjum inn, innihaldi kolvetni, eggjahvítuefni og ýmiss konar snefil­efni. Vissulega eru líkur sem benda til þess, að við þurfum að flytja inn ýmis steinefni, en eggjahvítuefnaframleiðslu getum við séð um sjálfir og alla blöndun þessa fóðurs sem hægt er að blanda graskögglum til þessara nota. Þannig mætti selja grasköggla í mismunandi mæli til hinna ýmsu kaupenda eftir því, hvers konar innihaldi þeir óska eftir á þessu fóðri.

Með því að nefna þessa fyrstu till. er ég aðeins að gera betur grein fyrir henni og í öðru lagi að renna stöðum undir það, að þessar greinar innihalda margar gjaldeyrissparnað. Ég man nú ekki nú þær tölur sem nefndar eru í sambandi við innflutning á kjarnfóðri til landsins. Þær eru mjög háar og þar gætum við sparað okkar dýr­mæta gjaldeyri sem við eigum greinilega allt of lítið af.

Annar liðurinn hins vegar er miklu fremur fólginn í því að verkafólk á Suðurlandsundirlend­inu fái að njóta þeirrar vinnu eða þeirra atvinnutækifæra sem geta skapast við að fullvinna það hráefni sem landbúnaðurinn leggur til. Frá þorpunum hér á Suðurlandi er stutt og greið leið nú orðið til Reykjavíkur, og það er ekki nokkrum vafa undirorpið að það getur varla munað miklu hvort þeir, sem hafa slíkar vörur til dreifingar og sölu í Reykjavík, panta þá vöru t. d. frá kjötvinnslumiðstöð í Reykjavík, eða frá kjötvinnslumiðstöð austur í kjördæminu sjálfu. En munurinn liggur í því, að kjötið er flutt óunnið til Reykjavíkur og unnið hér í stað þess að það mætti pakka því öllu í neytendapakkning­ar þar eystra í ýmiss konar búning eftir kröfum fólksins og veita þá íbúum kjördæmisins eða landssvæðisins vinnu við það, í stað þess að hráefnið er flutt til vinnuaflsins hér í höfuð­borginni. Og það er í raun langt síðan ég undraðist þá stefnu hins mikla félags, Slátur­félags Suðurlands, sem bændur eiga sjálfir, að mér skilst, að það skuli ekki hafa haft þessa stefnu frá upphafi. Kannske hefur það verið þá, að tregari samgöngur hafa valdið því að það hefur ekki legið eins beint við að gera það eins og nú, þegar það er ekki nema liðlega hálftíma akstur milli t. d. Selfoss og Reykjavíkur.

Í sambandi við þriðja liðinn vil ég segja það, að mér er kunnugt um að í sambandi við eld­gosið í Eyjum, þegar þar kom upp geysilega mikið magn, margar milljónir tonna af vikri, þá komu til okkar margir menn úr ýmsum áttum sem vildu fá að kanna það, hvort unnt væri að fá þetta efni keypt og flytja það til Evrópu og framleiða þar úr því alls kyns léttsteypueiningar og ýmislegt annað byggingarefni, vegna þess að slíkt byggingarefni er á þrotum í mörgum ná­lægum löndum og verður sífellt dýrara að ná í það. Það kom hins vegar í ljós, að það efni, sem þar er um að ræða, er ekki heppilegt í steypu af neinu tagi vegna efnasamsetningar. En þar gegnir allt öðru máli með þau efni sem víða eru til á Suðurlandi. Þar er til vikur sem er ákaflega góður sem einangrunarefni og til íblönd­unar í létta milliveggjasteypu, svo eitthvað sé nefnt. Þarna er mjög margt sem getur komið til greina að unnt verði að koma í það horf, að við gætum jafnvel flutt út í stórum stíl, sem mundi færa okkur sömuleiðis dýrmætan gjaldeyri til ráðstöfunar.

Ég nefndi áðan grasplöturnar, það er einnig gjaldeyrissparandi liður. Sömuleiðis má segja um fimmta liðinn, þar er að langmestu leyti um útflutningsframleiðslu að ræða. Sjötti liðurinn er til þess að spara sér innkaup frá útlöndum og sjöundi liðurinn er almennt um að styrkja almennan iðnað á Suðurlandi.

Ég nefndi það fyrst að þessi þáltill. væri flutt að gefnu tilefni, og ég vil leyfa mér að segja: af knýjandi nauðsyn til þess að vekja athygli ráðamanna á alvarlegu ástandi, og ég tel að þörf sé að grípa til nokkuð róttækra ráðstafana í þessum efnum. Það er ljóst að unnt er að útvega fjár­magn ef mikill áhugi er fyrir ýmsum verkefnum, eins og raun hefur orðið á í sambandi við að leggja mikið fjármagn til stóriðju með útlendingum og til hafnargerðar fyrir útlendinga o. s. frv. En ég tel að það þurfi aðeins smámuni, ef miðað er við þær upphæðir, til þess að reisa atvinnulífið við á Suðurlandi, sem nú er í lægð, upp til þess að verða með því besta sem gerist á þessu landi, því það er enginn vafi að land­kostir Suðurlands eru miklir.