20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3392 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þetta mál öllu meira, en það var aðallega ræða hæstv. viðskrh. sem gaf mér til­efni til þess að segja hér örfá orð til viðbótar.

Ég heyrði ekki betur en að hæstv. viðskrh. talaði á þeim nótunum að við, sem hér höfum verið að gagnrýna meðferð þessa máls, værum að gagnrýna þjóðhátíðarhöldin þjóðhátíðarárið og hvernig að þeim hefði verið staðið. Það er mesti misskilningur. A. m. k, hef ég ekki gagnrýnt það. Það, sem hér er verið að gagnrýna er að stjórn Seðlabankans hefur ákveðið, ákvað í des. s. l., að stofna sjóð með þeim fjármunum sem urðu af­gangur af andvirði seldrar þjóðhátíðarmyntar. Og hæstv. viðskrh. sagði út af því, sem ég hafði hér um rætt, að boðið hefði verið til samkvæmis, að það hefði einungis verið gert til þess að fagna hversu mikill hagnaður varð af hátíðinni. Ég held að hæstv. viðskrh. sé ekki alveg með á nótunum ef hann heldur þessu fram. Með þáltill. þessari, sem ríkisstj. flytur, er birt fskj. á bls. 5 og það er ávarp seðlabankastjóra, Jóhannesar Nordals, og í upphafi þessa ávarps segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér er það sönn ánægja að mega fyrir hönd bankastjórnar og bankaráðs Seðlabankans bjóða gesti okkar velkomna hingað í dag. Svo sem yður er kunnugt“ — og nú bið ég hæstv. viðskrh. að taka eftir — „Svo sem yður er kunnugt, er tilefnið að gera grein fyrir stofnun sjóðs að þeim ágóða sem orðið hefur af sölu þjóðhátíðarmyntar 1974 og tillögum bankans um ráðstöfun hans.“

Tilefni samkvæmisins var að gera grein fyrir sjóðsstofnun, ekki að fagna upphæðinni sem átti að fara í sjóðinn. Vel má vera að það hafi verið með, hv. þm. skilur hugsanagang þeirra í kerfinu, en aðaltilefni þessa samkvæmis var það, að það var verið að stofna sjóðinn. Fram hjá þessu er ekki hægt að ganga. Oftast er það nú svo, ef menn vilja halda samkvæmi í tilefni ein­hvers, við skulum segja afmælis, þá gera menn það yfirleitt á afmælisdaginn sjálfan eða þá einhvern tíma á eftir, ekki fyrir fram. Venjulegast er það svo.

Það fer því ekkert á milli mála, að hér var búið að taka þessa ákvörðun þegar í desember af bankastjórn Seðlabankans. Það er augljóst mál. Hvað sem hæstv. viðskrh., hæstv. forsrh. eða aðrir hæstv. ráðh. segja um þetta, þá var þessi ákvörðun í raun og veru tekin utan veggja Alþ., og það er það sem er verið að gagnrýna. Það er útúrsnúningur hjá hæstv. forsrh. þegar hann segir hér áðan og hefur eftir mér, að ég telji efnis­atriði málsins ekkert aðalatriði. Það er rangt. Ég sagði einmitt áðan að ég ætlaði ekki að gagnrýna það sem ríkisstj. legði til að gert væri við andvirði þessa. Ég ætlaði ekki að gagnrýna það. Það, sem ég fyrst og fremst vildi gagnrýna og gagnrýndi, var meðferð málsins og hvernig að því var staðið í byrjun. Ég held að hvað sem menn segja hér um þetta og reyna að verja þessar gerðir, þá er það augljóst öllum, sem sjá vilja, að hér er gengið í raun og veru fram hjá Alþ., og þetta er kannske það minnsta eða smá­vægilegasta sem gerist í þeim efnum. Það eru miklu afdrifaríkari ákvarðanir sem eru teknar utan veggja Alþ. í ýmsum málum sem á að taka hér. Og hvað sem því líður, að gagnrýni mín og annarra á kerfið sé farin að fara í fínustu taugar hæstv. viðskrh., þá verður því ekki breytt, a. m. k. ekki af minni hálfu, af því að ég tel að það sé full þörf á gagnrýni í þessum efnum, en auð­vitað ekki bara á þá. Þm. hafa sjálfir á liðnum árum látið mál þróast á þennan veg. Þeir hafa afsalað sér að verulegu leyti því valdi sem þeir eiga að hafa og eiga að beita.

Ég vil þakka núv. hæstv. forseta fyrir þá nafn­gift sem hann gaf orðum mínum hér áðan, þegar hann kallaði þetta frelsisbaráttu. Það er í orðsins fyllstu merkingu raunveruleg frelsisbarátta, — frelsisbarátta í þá átt að þm. verði frjálsir að því að taka ákvarðanir skv. eigin sannfæringu og til efnisatriða mála hverju sinni, en ekki að skipan forustumanna eða foringja í hinum og þessum flokknum. Slík frelsisbarátta er vel þess virði að hún sé háð.

Ég skal gleðja hæstv. forseta með því, að ég skal flytja með honum till. um að verðtrygging verði sett á það fjármagn sem hér um ræðir og Seðlabankinn verði þannig skikkaður til að verð­tryggja þetta fé. Það mun ekki standa á mér í þeim efnum.

Varðandi hitt, eins og hér hefur komið fram, að Alþ. hafi ákveðið að sjá fyrir fjármagni til byggingar Þjóðarbókhlöðu, það er alveg rétt. Alþ. ákvað það á sínum tíma. En það hefur dreg­ist að það loforð væri efnt, við þá ákvörðun væri staðið, og það er ekkert sem bendir til þess frek­ar nú, að það eigi að standa við það á næstunni að veita það fjármagn sem til þarf til byggingar Þjóðarbókhlöðu, eins og búið er að lofa. Það er því ekki að ástæðulausu að upp koma hugmyndir um að verja þessu fjármagni til byggingar Þjóðarbókhlöðu.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. En ég ítreka að sú gagnrýni, sem hér hefur komið fram, er fyrst og fremst á það, hvernig hefur verið staðið að þessu máli í byrjun. Hugmyndin — já, og fæðingin, sagði hæstv. viðskrh., hefði átt sér stað í Seðlabankanum. A. m. k. virðist vera augljóst að það kom undir í Seðlabankanum, það afkvæmi sem hér er lagt fyrir Alþingi.