22.04.1977
Neðri deild: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3502 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Ég ræddi þetta mál allítarlega á kvöldfundi síðasta vetrardag og skal ekki lengja umr. mjög nú. Ég átti þess ekki kost að sitja allan þann fund frekar en 28 aðrir hv. þdm. á því kvöldi, en mikið virtist liggja við að koma málum fram og fyrir því var það að menn vörðu þessum tíma til þess arna. Ég hef þó haft tækifæri til að kynna mér þær umr. sem fram fóru eftir að ég hafði rætt þetta mál, en sé ekki ástæðu til að gera sérstakar aths. við þær nema hjá hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, hv. 4. þm. Vesturl., þar sem hann ræðir hina miklu nauðsyn þess að friða stóraukið svæði á Breiðafirði og suður fyrir Kolluál. Ég get verið honum sammála í þessu efni, en þetta kemur breytingu á fisk­veiðilögsögunni ekkert við, vegna þess að það veit hv. þm. og fyrrv. lögreglustjóri og dómari í landhelgismálum, að í þessu efni getur hæstv. sjútvrh. sett þær reglugerðir sem honum sýnist til þess að friða þetta svæði fyrir ágangi stór­virkra skuttogara. Þess vegna er það, að þetta er algert aukaatriði hvað varðar þær breytingar sem hér um ræðir.

Ég lagði áherslu á það í minni ræðu, að með þessum hætti teldi ég mjög óráðlegt að breyt­ingar á fiskveiðilögsögunni færu fram. Það er ljóst og það kom skýrt fram hjá formanni L.Í.Ú. á fundi með sjútvn. Nd., að um þetta hafði verið samið og niður njörvað á aðalfundi L.Í.Ú. Hann tók það fram, að hér væri um einn pakka að tefla. Menn skyldu athuga það í n., að við þessu mætti ekki hrófla því að þá gengi hann allur úr böndunum. Það var sem sé samið um það milli landsfjórðunga, að norðlendingar skyldu fá að veiða á vissum kafla innan svæðisins milli 9 og 12 mílna allmiklu fyrir vestan Grímsey og austur fyrir Grímsey. Það var samið til handa austfirðingum og vestmanneyingum um að fá að veiða upp að landssteinum eða svo kalla ég það, í Mýrabug eða frá Stokksnesi og vestur um. Það var samið um það, til að leiða togarana stóru af, að þeir skyldu fá að toga á svæði vestast í Háfadýpinu sem fiskifræðingar töldu, þegar við vorum að rannsaka þessi mál, að væri hrygningarsvæði. Og það var samið um það til handa reyknesingum og vestlendingum á Faxaflóa- og Breiðafjarðarsvæðinu að friða all­stórt svæði fyrir línu og net fyrir Reykjanesi, á Breiðafirði og suður fyrir Kolluál, sem hægt er að gera eins og ég sagði, án þess að nokkrar lagabreytingar komi til.

Þetta var sent hingað 11 mánuðum eftir að mjög víðtækt samkomulag náðist um breytingu á fiskveiðilögsögunni, og það er ætlast til að þessi stofnun sé afgreiðslustofnun fyrir þessa verslun þeirra í L.Í.Ú. Við þessu vil ég ekki taka, og ég legg áherslu á það, að í sjútvn. var meiri hl. andstæður því að samþykkja þessar till. 4 af 7. Ég verð þá leiðréttur af þeim sömu mönnum ef ég hef ekki rétt fyrir mér í þessu.

Hins vegar var það fullyrt og á það fallist, að það væri alfarið siður að flytja mál inn í þing sem einstakir ráðh. færu fram á, hvernig svo sem liði afstöðu einstakra nm. Á þetta var fall­ist, enda er auðvitað viðkomandi ráðh. og ein­stökum þm. í lófa lagið að flytja mál sín þannig að ástæðulaust er annað en greiða fyrir því að mál komi til álita á þingi. En ég vona, að það hafi ekkert farið á milli mála í umr. um málið að meiri hl. sjútvn. var andstæður þessum breyt­ingum. (Gripið fram í.) Þessu er mótmælt og þá er að færa sönnur á það. Ég nefni sem dæmi að ég var andstæður þessu, hv. þm. Tómas Árna­son var andstæður þessu, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var það og hv. þm. Jón Skaftason. Þeir segja til sjálfir og þurfa ekki að fara í geitarhús að leita ullar hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni um sínar meiningar.

Ég vil benda á það til handa hverjum er verið að semja hér um auknar veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar. Til handa stóru skipunum sem rökuðu saman fé á loðnuvertíðinni sem ný­liðin er. Hafrannsóknastofnunin mælti eindregið gegn þessum auknu veiðiheimildum fyrir Norður­landi, enda var vitað mál að um það var alger samstaða að vera andvígur því. Ég minni á það, þó að hún tæki ekki afstöðu til veiðanna upp að 4 mílum frá fjöruborði í Mýrabug og vestur um, þá var það álit þó uppi, þegar við þæfðum málið á tugum funda í fyrra, að undir­stöðuatriðið væri að velja nýja viðmiðunarpunkta og draga línur fyrir flóa og firði með þessum hætti sem gert var. Og ég er hræddur um að við þurfum að taka til hendinni og gá að okkur um frekari friðun ef á að fara að skarka svona á þessum stórvirku og öflugu tækjum svo nærri landi sem þarna er lagt til. Þá er ég hræddur um að við verðum að taka til hendi um það að koma frímerkinu eða friðunarsvæðinu á Sel­vogsbanka í réttar skorður eða a. m. k. það nái yfir það svæði sem fiskifræðingarnir hafa lagt til að það næði yfir. Ef á að fara að skarka á stóru togurunum í vestanverðu Háfadýpi þar sem eru hrygningarstöðvar, og við vorum upp­lýstir um að svo væri, þá þurfum við að fara að gá vel að okkur um frekari verndun á Sel­vogsbankanum og fara alfarið að tillögum fiskifræðinganna í því efni. En svo var ekki gert — og af hverju ekki? Vegna þess að menn þæfðu málið og þótti nauðsyn til bera að ná samkomu­lagi um það. Og ég kalla það brigð næstum því að segja af hálfu hv. þm. Garðars Sigurðssonar, þegar hann nú 11 mánuðum síðar, eftir að þetta samkomulag var gert, flytur nú till. um að banna flotvörpuna, því að það mál var rækilega rætt þá.

Og hverjir eru það sem gera um þetta kaup sín í milli á aðalfundi L.Í.Ú.? Þeir hafa haldið því mjög að stjórnvöldum að þeir væru að drepa síðasta þorskinn, þeir í Landssambandi ísl. út­vegsmanna. En hvað gera þeir nú í þessu dæmi? Og hvað gera þeir t. d. eftir að þeim hefur verið veitt aðild að stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands, þar sem þeir eiga nú fulltrúa, bæði sjómenn og út­vegsmenn? Hvernig fylgja þeir fram stefnu sinni um það að minnka sóknina í þorskinn? Með því að afgreiða eftir hendinni allar skuttogara­umsóknir sem þangað berast. Og hvernig birtist stefna þeirra, þessi heilaga stefna þeirra um að þurfa að minnka sóknina í þorskinn, þegar þeir leggja nú til að þessum stórvirku tækjum, þess­um öflugu skipum, eins og stóru loðnuveiðiskip­in eru eða skip undir 39 m eru mörg hver, –­- hvernig samrýmist það stefnu þeirra um að þurfa að minnka sóknina í þorskinn að leggja nú til af kaupmennsku sinni þessar breytingar sem hér liggja fyrir? Auðvitað er holhljómur í þessu. Og auðvitað er stefna þeirra um það, hvernig eigi að haga sókninni í þorskinn, þessi stefna að leggja fiskiskipaflota landsmanna svo og svo langan tíma á árinu, auðvitað er þetta gert til þess síðar að geta sagt, ef illa tekst til: Við vorum þeir sem vöruðum við, og ekki veldur sá er varar. — Auðvitað er þetta til þess, enda stefna þeirra í þessu óframkvæmanleg. En við sjáum hver alvaran er síðan þegar kemur að því að fylgja þessari stefnu eftir, eins og við t. d. sjáum í Fiskveiðasjóðnum og stjórn hans, eftir að þessir aðilar fengu þar aðild að, og eins í þeim till. sem þeir versla með hér. Í allra handa máta er þetta óeðlileg aðferð.

Hér eru teknar fram fimm till. sem þeir hafa brætt með sér og soðið í L.Í.Ú., en ég veit að einstakir þm. eru margir hverjir upp á vasann með tugi tillagna og ábendinga um það, hvernig þyrfti að breyta fiskveiðilögsögunni. Þetta kann­ast þeir við sem unnu að þessu máli hér í fyrra. Hafrannsóknastofnunin tekur t. d. ekki afstöðu til þessarar opnunar í Mýrabugnum og segir að það sé mest ýsusvæði og hún muni að mestu smjúga hinn nýja stóra moskva, 155 mm. Ef þetta er rétt kenning og ef skip með botnvörpu, stór skip og öflug með botnvörpu, hafa ekki meiri áhrif í togi sínu en það, að t. d. engu máli öðru skipti en hvort fiskur smýgur eða ekki, þá getum við tekið upp brtt. um að leyfa tog­veiðar hér í Faxaflóa, því að varla er ýsan í Faxaflóa öðruvísi í laginu heldur en sú í Mýra­bug, þannig að hún smýgur þá. Og þeir, sem hafa af því mestar áhyggjur að ekki náist upp ýsustofninn í Faxaflóa, geta horfið frá skoðun sinni í þessum efnum. Auðvitað hafa þau gífur­leg áhrif, þessi öflugu skip sem toga á grunnu vatni eins og á að leyfa þeim þarna.

Ég minni á það, að í fiskveiðilaganefndinni og einnig hér á þingi var lögð höfuðáhersla á hina nýju viðmiðunarpunkta og að línur yrðu dregnar með öðrum hætti en áður var. Frá þessu eru auðvitað undantekningar. Það var vegna þess að menn þurftu að ná víðtæku samkomulagi og tókst það.

Ég þarf ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta. Ég sá í vélritaðri ræðu, sem hæstv. sjútvrh. flutti hér við umr. um kvöldið, að hann hafði farið með ýmislegt orðasull í minn garð. Um það hirði ég ekkert, hann er einkavinur minn og lóðs, og það má heita að ég sé þessu vanur frá blautu barnsbeini, og á við hann sem segir í þeim gömlu, að enginn maður kýs orð á sig, og mætti bæta við því: og allra síst frá hæstv. sjútvrh. Matthíasi Bjarnasyni. En það skiptir engu máli í sambandi við afkomuna og útfærslu eða nýtingu fiskveiðilögsögunnar hvernig ég er innréttaður.

Ég legg á það höfuðáherslu að þær brtt., sem hafa verið sendar hér inn frá þeim landssambandsmönnum, verði felldar. Ég hef lagt áherslu á það, að í brbl. fólust engar breytingar við fiskveiðilögin, eins og segir í skýringum við brbl. Þau voru leiðréttingar. Það bar nauðsyn til að leiðrétta ýmis atriði. Engar efnisbreyt­ingar áttu sér þar stað. Ástæðurnar voru ein­göngu þær, að hér seint um nótt gáðu menn ekki að sér vegna skyndibreytinga sem urðu fyrir Bakkaflóanum t. d. og vegna breytingar á viðmiðunarstað hér á Snæfellsnesi, Gelti, Malar­rifi og Skálasnaga. Síðan er hrúgað hér inn, eins og ég hef orðað það, og mönnum gest ekki að því orðalagi, ýmsum grundvallarbrtt. Við þurfum að standa að þessu með allt öðrum hætti. Þetta eru brtt. á þskj. 392 frá sjútvn., 5 þær fyrstu. Annað er að sjálfsögðu sjálfsagt að samþykkja, eins og leiðréttingarnar í brbl. og eins og till. sem komu frá sjútvrn. um stjórn­un veiðanna. Það er byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur við stjórn veiðanna og er eitt meginatriðið í því að lengja frest lokunar upp í 7 daga, enda var fiskveiðilaganefndin að sínu leyti mjög þeirrar skoðunar í fyrra, en fékk því ekki ráðið fyrir eindregnum beiðnum frá sjútvrn. um að þetta yrðu aðeins þrír sólar­hringar.

Ég hef síðan lagt til að kosin yrði sérstök n. sem tæki við öllum þeim fjölmörgu till., sem hafa streymt um breytingar á fiskveiðilögsög­unni, og hefði vakandi auga með nýtingu land­helginnar, það yrði komið á fót fastanefnd í Alþ., eins og 9 manna, þó þannig að allir þing­flokkar ættu þar aðild að, og í n. yrðu enn fremur skipaðir fulltrúar frá sjútvrn., Hafrann­sóknastofnun og Fiskifélagi.

Það eru ekki dæmi um það núna síðustu missirin að breytingar á fiskveiðilögsögunni hafi farið fram með þeim hætti sem hér er verið að gildra til. Það hefur verið unnið árum saman að söfnun upplýsinga víðs vegar um landið tvisvar í röð af fjölmennum n., sem alþm. áttu sæti í. Eitt höfuðatriðið í þessu sambandi er það, að hið háa Alþ. í þessu efni, svo við­kvæm sem þessi mál eru, getur ekki orðið sjálfsafgreiðslustofnun og tekið við því, keypt þá álnavöru óséða sem þeir vefa á aðalfundum, þrýstihóparnir í L. Í. Ú.