27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

234. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breyt. á 1. um Iðnlánasjóð. Fyrst og fremst er breyting á 6. gr. gildandi laga, um lántökuheimild sjóðsins. Stjórn sjóðs­ins hefur eindregið óskað eftir að það hámark til lántöku sjóðsins, sem er 300 millj. kr., í gild­andi lögum, verði afnumið. Það er þegar búið að taka allt að þeirri upphæð og vegna starfsemi sjóðsins er nauðsynlegt að bæta þar nokkru við. Er þetta aðalefni 1. gr.

2. gr. fjallar um lánadeild veiðarfæraiðnaðar. Það var á árunum 1967–1968 sem ákveðið var að stofna lánadeild veiðarfæraiðnaðar og var þá ákveðið að afla lánadeild tekna sem væru m. a. 1% gjald af innflutningi veiðarfæra. Á síðasta ári voru tekjur af þessu gjaldi 10.9 millj. kr. Þessi ákvörðun og þessi skattlagning á sínum tíma var ákveðin vegna erfiðleika innlends veið­arfæraiðnaðar. Nú hafa þær aðstæður breyst, og hafa borist óskir frá Landssambandi ísl. út­vegsmanna um, að þetta innflutningsgjald af veiðarfærum væri fellt niður, og Hampiðjan hef­ur mælt með því fyrir sitt leyti, en lagt jafn­framt til að lánadeild veiðarfæraiðnaðar starfi að öðru leyti áfram óbreytt.

Það er sérstaklega vegna 1. gr., vegna lántökumöguleika Iðnlánasjóðs, sem er aðkallandi að fá þessa lagabreytingu, sem 1. gr. fjallar um, samþ. nú á þessu þingi.

Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn., og vænti þess, að reynt verði að greiða fyrir málinu þannig að það geti orðið að lögum á þessu þingi.