27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3845 í B-deild Alþingistíðinda. (2772)

218. mál, verslun með erlendan gjaldeyri

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 451 ásamt hv. 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram, till. til þál. um verslun með erlendan gjaldeyri. Í grg. með till. segir svo m. a.:

„Í 19. gr. laga nr. 10 frá 29. mars 1961, um Seðlabanka Íslands, er stjórn bankans að fengnu samþykki ráðh. heimilt að veita öðrum bönkum en Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands, sem lögin tilgreina sérstaklega, leyfi til verslun­ar með erlendan gjaldeyri. Hefur heimild þessi aldrei verið notuð og er greinilegt að reglur um þetta atriði eru mun þrengri hér en í nágranna­löndum okkar og helstu viðskiptalöndum.

Ástæðan fyrir því, að aðeins Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa haft með höndum verslun með erlendan gjaldeyri af hálfu viðskiptabank­anna, mun vera sú, að á sínum tíma var á þessa banka lögð sú skylda að fjármagna rekstur útflutningsatvinnuveganna og þótti þá eðlilegt að þeir einir ásamt Seðlabankanum hefðu heimild til ráðstöfunar á þeim gjaldeyri, sem inn kem­ur fyrir útfluttar afurðir, og öðrum gjaldeyri, sem til fellur.

Meðan þessir tveir bankar, Landsbankinn og Útvegsbankinn, ásamt sparisjóðum ávöxtuðu meiri hlutann af öllu sparifé landsmanna gat þetta talist eðlilegt. En eins og nú er komið, þegar starfandi eru fimm bankar aðrir í landinu, sem allir hafa verið stofnaðir samkv. sérstökum lög­um og hafa í sinni vörslu um einn þriðja hluta þess sparifjár sem í vörslu bankakerfisins er, verður að teljast óeðlilegt að þeir, sem annast vinnslu útflutningsafurða, eigi ekki um það frjálst val við hvaða banka þeir kjósa að skipta. En til þess að svo geti orðið verða einnig þessir bankar að fá leyfi til gjaldeyrisverslunar, en hljóta þá að taka á sig sömu skyldur og nú hvíla á Landsbankanum og Útvegsbankanum að fjármagna að tilteknum hluta rekstur útflutn­ingsatvinnuveganna í samræmi við gildandi regl­ur um fyrirgreiðslu þeirra, sem afurðir framleiða til sölu á erlendum markaði.“

Til viðbótar þessu vil ég benda á að hér á Alþingi urðu fyrir nokkru allmiklar umr. um Útvegsbanka Íslands, stöðu hans og fjárhagsafkomu. Menn voru þá sammála um að þáttur bank­ans í lánum til sjávarútvegs og fiskvinnslu væri óeðlilega stór, þar sem upplýsingar lágu fyrir um að nær 60% af útlánum hans væru til sjávar­útvegs. Hæstv. viðskrh. veitti við þessar umr. þær upplýsingar, að í athugun væri að létta nokkuð á bankanum skyldulánum hans til sjávar­útvegsins á þann hátt, að viðskiptamenn á þeim stöðum, þar sem bankinn hefði ekki útibú, yrðu yfirfærðar til annarra banka. Ég tel slíkar tilfærslur alveg hiklaust óeðlilegar. Ég tel að það verði að vera frjálst val fyrir aðila, sem sjávar­útveg og fiskvinnslu stunda, við hvaða banka þeir vilja skipta, annað komi ekki til greina.

Till. sú, sem við hv. 11. þm. Reykv. flytjum hér, miðar að okkar dómi í þessa átt. Ef gjald­eyrisverslun yrði gefin frjáls þannig að þeir bankar, sem stofnaðir hafa verið samkv. sérstök­um lögum, fengju leyfi til gjaldeyrisverslunar gegn því skilyrði að þeir tækju einnig að sér rekstrarfjármögnun sjávarútvegs, fiskvinnslu og annarra útflutningsafurða eftir reglum sem um það eru settar, væri frjálst val allra, hvar sem væri á landinu, til að skipta við þá banka sem þeir óskuðu eftir, en væru ekki einvörðungu bundnir við hina tvo viðskiptabanka, Lands­bankann og Útvegsbankann, þó að ég telji að engum sé í kot vísað sem við þessa banka skiptir. En till. okkar miðar að algjöru valfrelsi í þess­um efnum og teljum við það eðlilegast og hag­kvæmast fyrir bankakerfið í heild og allan al­menning. Við teljum satt að segja miður farið að slíku fyrirkomulagi skuli ekki hafa verið komið á fyrir alllöngu.

Af þessari ástæðu er till. sú, sem hér er til umr., flutt. Væntum við þess, að hv. alþm. geti verið okkur sammála um þetta atriði og till. fái góðar undirtektir. Ég tel að efni till. sé þess eðlis að vart sé ástæða til að vísa henni til n. Þar sem ekki er um nein útgjöld að ræða, að­eins farið fram á að ríkisstj. taki til athugunar að framkvæma ákveðna lagaheimild, þá sé ég ekki ástæðu til að vísa till. til sérstakrar n., nema forseti telji að það verði að gerast, en þá er að sjálfsögðu um að ræða fjh.- og viðskn.