28.04.1977
Efri deild: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3869 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

208. mál, byggingarlög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég taka undir það með honum, að það er að sjálfsögðu rétt að þessi ákvæði eru út af fyrir sig ófullkomin og ófull­nægjandi, en þau eru grundvöllurinn sem við þurfum til að byggja á. N. lagði fram í smá­atriðum sundurgreindar till. um hvað gera þyrfti og hvaða kröfur þyrfti að setja fram, og það varð að samkomulagi við m. a. skipulagsstjóra ríkisins, að flest af þessum ákvæðum væru betur komin í byggingarsamþykktum og reglugerðum, en grundvöllurinn þyrfti að vera í lögum, og það er hann sem kemur hér inn. Ég held að við eigum tiltölulega auðvelt með að fá þessi ákvæði í byggingarsamþykktir og að við getum síðan einfaldlega með breytingu byggingarsamþykkta fylgst með tímanum, vegna þess að þessir þættir eru í mikilli mótun víða um heim og okkur er alger nauðsyn að fá þetta inn í byggingarsam­þykktirnar og geta svo breytt því auðveldlega ef ástæða er til.

Það er líka komið vel á veg að taka saman sérstakan bækling um þarfir fatlaðra í umferð­inni og í byggingum. Þessi bæklingur á að vera tiltækur öllum þeim sem að hönnun bygginga vinna þannig að þeir eigi hægara með að átta sig á því sem nýjast er að gerast í þessum mál­um á hverjum tíma.