03.11.1976
Neðri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

44. mál, skólakostnaður

Flm. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Á þskj. 44 hef ég leyft mér að flytja ásamt Jónasi Árnasyni, hv. 5. þm. Vesturl., og Sighvati Björgvinssyni, hv. 8. landsk. þm., frv. um breyt. á l. nr. 49 frá 1967, um skólakostnað. Frv. þetta felur í sér þá breyt., að á eftir 1. mgr. 7. gr. l. komi ný mgr. sem hljóði svo:

„Þó skal ríkissjóður ávallt greiða 75% áætlaðs stofnkostnaðar sundlauga í útgerðarstöðum sem hafa innan við 4000 íbúa.“

Frv. sama efnis flutti ég á síðasta þingi og fékk það þá afgreiðslu frá n., en varð ekki útrætt í þinginu. Hér er um að ræða í þessu frv. þá breyt. frá því, sem er í gildandi lögum, að hækka þátttökukostnað ríkissjóðs úr 50% upp í 75% í í sambandi við stofnkostnað sundlaugarbygginga. Þá er í þessu frv. eins og hinu fyrra ákvæði til bráðabirgða, og þar er gert ráð fyrir að einnig skuli þessi aukni þátttökukostnaður ríkissjóðs úr 50% í 75% ná til þeirra bygginga sem enn hefur ekki verið gerður formlegur samningur um.

Þegar þetta frv. var til umr. í fyrra, á s.l. þingi, tóku þátt í þeim umr. nokkrir hv. þm. og þeir lýstu allir ákveðnum stuðningi við málið, m.a. tveir hv. þm. sem sæti áttu og eiga enn í þeirri hv. n. sem málið fékk til meðferðar þá og fær væntanlega nú. Ég vænti þess, að enn sé sami hugsunargangur og stuðningur hjá þessum hv. þm. og raunar fleirum.

Ég gerði grein fyrir því í framsögu fyrir frv. á síðasta þingi hversu sundkennsla hlyti að vera og ætti að vera ríkur þáttur í námi. Í gildandi fræðslulöggjöf er gert að skilyrði að ljúka ákveðinni sundskyldu til þess að fá fullnaðarprófsskírteini, og þessi ákvæði hafa verið í gildi frá árinu 1938, ef ég man rétt. En sannleikurinn er sá, að á fjöldamörgum stöðum allt í kringum land hefur þessum þætti fræðslulöggjafarinnar ekki verið fullnægt. Hundruð unglinga, sem átt hafa að ljúka fullnaðarprófsstigi, hafa því ekki fengið skírteini afhent, vegna þess að þennan þátt hefur vantað inn í þannig að hægt væri að ljúka til fullnustu prófi og þau fengju sin prófskírteini þar með afhent.

Þó að þetta sé að sjálfsögðu stórkostlegur galli almennt talað, þá hlýtur þetta þó fyrst og fremst að teljast mjög slæmt ástand á þeim stöðum þar sem atvinnulíf er með þeim hætti að fyrst og fremst er byggt á sjósókn og sjávarútvegi, sjómennsku. Þó að sundkunnátta og sundiðkun sé holl og nauðsynleg öllum almenningi, þá er hún þó fyrst og fremst, að ég held, lífsnauðsynleg á stöðum þar sem sjósókn er alfarið atvinnuvegurinn. Það hefur sýnt sig að í ótalmörgum tilfellum að hefði slík aðstaða verið fyrir hendi og sundkennsla átt sér stað, þá hefðu ótalmörg mannslíf bjargast sem ella hafa týnst vegna þess ástands sem ríkt hefur í þessum málum á undanförnum árum og áratugum.

Það hefur, að ég held, valdið nokkurri umhugsun sumra hv. þm. að í þessu frv. er gert ráð fyrir að þessi aukna þátttaka ríkissjóðs í kostnaði við byggingar slíkra mannvirkja eigi aðeins að ná til afmarkaðra staða, þ.e. staða sem hafa 4000 íbúa eða færri.

Vel má vera að þetta sé þyrnir í augum sumra, og æskilegast væri auðvitað að hægt væri að búa þannig að málum, að þessi aukna þátttaka næði til alls landsins. En ég sem ábyrgur stjórnarandstæðingur hlýt að taka tillit til þess ástands, sem ríkir í þjóðfélaginu, og skoða í kassa hæstv. ríkisstj. að því er að fjármálum lýtur, og þar sem ekki er talið fært að láta þetta ná yfir allt landið í öllum tilvikum, til allra staða á landinu, þá held ég að allir ættu að geta verið um það sammála, að á þessum stöðum, á útgerðarstöðum, fyrst og fremst tiltölulega fámennum útgerðarstöðum, sé nauðsynlegt að snúa sér fyrst að þessari breytingu. Væntanlega batnar ástand fjármála ríkissjóðs svo á næstunni að hægt verði að láta þetta ná yfir allt landið, til allra staða, þannig að hægt sé að framfylgja áratugagamalli fræðslulöggjöf að þessu leyti. En mér sýnist sem sagt að öll sólarmerki bendi til þess, að slíkt sé ekki talíð framkvæmanlegt nú, og verði því að horfast í augu við þá staðreynd að sníða sér að því leytinu stakk eftir vexti og takmarka þetta fyrst og fremst við þessa staði sem er lífsnauðsynlegt að þarna verði á breyting gagnvart.

Það fylgir þessu frv. nokkru ítarlegri grg. heldur en fylgdi hinu fyrra, og einnig er með frv. fskj. sem ætti að gefa hv. þm. nokkra innsýn í það, hvernig þessum málum er í raun og veru háttað hér á landi. Það kemur sem sagt í ljós, að miðað við þessa afmörkuðu útgerðarstaði, sem hafa 4000 íbúa eða færri, þar er um að ræða 62 staði, 62 útgerðarstöðvar á landinu, sem mundu falla undir þetta, og 30, nær helmingurinn af öllum þessum stöðum, hefur enga sundaðstöðu til þess að framfylgja fræðslulöggjöfinni eða til þess að hægt sé að iðka sund að neinu marki. Nær helmingur allra þessara útgerðarstaða hefur enga sundaðstöðu, aðeins 21 af þessum 62 stöðum hefur slíka aðstöðu, og 11 af þessum 62 stöðum hafa ófullnægjandi aðstöðu eða aðstöðu sem er í smíðum.

Ég trúi ekki öðru en hv. þm, verði það ljóst, þegar þeir sjá svart á hvítu hvert ástand þessara mála er í raun og veru, þeim hljóti að verða það ljóst, að hér verður að bæta um og það verður ekki komist hjá því að taka á þessu máli á þennan hátt, að byrja á þeim stöðum sem þurfa þess fyrst og fremst með að fá slíka aðstöðu fyrst ekki er hægt að snúa sér að málinu í heild.

Nú má vel vera að það komi fram sem mótrök í þessu máli, að jafnhliða þessari breytingu sé ekki lagt til fjármagn til þess að standa straum af þessum aukna þátttökukostnaði ríkissjóðs. Ég sagði það við umr. í fyrra um sama mál og vil segja það enn, að ef það er svo, að ekki sé talið framkvæmanlegt við núverandi aðstæður að bæta því fjármagni við sem til þarf til þess að hægt sé að gera þetta nú, þá er ég þeirrar skoðunar að það séu aðrir þættir í fræðslukerfinu, sem vissulega eru mikilsverðir og nauðsynlegir, en eru þó minna nauðsynlegir að mínu mati heldur en þetta og það sé því framkvæmanlegt og forsvaranlegt, sé ekki fyrir hendi fjármagn til þess að bæta við til þessarar uppbyggingar, að draga úr öðru til þess að láta þetta mál hafa forgang. Og ég trúi því ekki, ef hv. þm. kynna sér þetta, að þeir komist ekki að eitthvað álíka niðurstöðu um þetta og ég.

Það er kannske rétt að láta þess getið strax, að þær tölulegu upplýsingar, sem hér fylgja, eru fengnar í mars s.l., þannig að vel má vera að einhver breyting hafi þar á orðið síðan. Ég skal ekki um það fullyrða, hvort á þeim mánuðum, sem liðnir eru frá því í mars s.l. þegar þessar upplýsingar voru fengnar frá menntmrn., geti ekki einhverjar breytingar hafa á orðið. En í meginatriðum held ég að sé öruggt að treysta þeim upplýsingum sem hér fylgja sem fylgiskjal með frv.

Það var sagt af nokkrum hv. þm , sem ræddu þetta mál á síðasta þingi, að það væri flutt á þeim tíma að útilokað væri að gera ráð fyrir því að lögin gætu öðlast gildi á árinu 1976. Það var mér fyllilega ljóst og hefði að sjálfsögðu á það fallist að gildistaka breyttra laga, hefði frv. náð fram að ganga, hefði miðast við áramótin næstkomandi.

Nú er þetta frv. flutt það fljótt, að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að málið fengi afgreiðslu það tímanlega að hægt væri að gera ráð fyrir því við afgreiðslu fjárlaga, ef á annað borð er vilji hjá hv. þm. fyrir því að gera slíkar breytingar.

Málið hefur fengið skoðun n., hér er um nákvæmlega sama að ræða og gert var ráð fyrir í fyrra frv, þannig að það ætti ekki að þurfa langa skoðun í þeirri hv. n. sem það væntanlega fer til. Það er því allt sem mælir með því að málið sé það tímanlega á ferðinni að það ætti að geta fengið afgreiðslu og geta verið tekið með í afgreiðslu fjárlaga nú fyrir árið 1977.

Ég sagði áðan að málið hefði fengið afgreiðslu úr n. á síðasta Alþingi, þó ekki aðra afgreiðslu en þá, að sú hv. n. lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstj. Ég á kannske að fagna því að þessi var niðurstaða í n. þá og að málið fékk endanlega afgreiðslu hér í þinginu, vegna þess að þá hefði verið óeðlilegt — kannske vegna þingskapa óheimilt að taka málið upp aftur nú. En líklega hefði það sofnað svefninum langa hjá hæstv. ríkisstj. hefði afgreiðsla þingsins orðið sú sem hv. menntmn. lagði til. En það kom mér á óvart að hv, menntmn, skyldi verða alveg sammála um þessa afgreiðslu á síðasta Alþ., vegna þess að a.m.k. tveir úr menntmn. höfðu talað alveg einróma með þessu frv. og lagt á það áherslu að breyting í þessa átt væri nauðsynleg og hana þyrfti að gera.

En nú er komið að því að nú duga ekki lengur fögur orð og frómar óskir. Nú þarf að standa þannig að málinu að það verði afgreitt á þann hátt sem ég a.m.k. vil vona í lengstu lög að meiri hl. sé fyrir hér á Alþ., að breyta þessu í það horf sem frv. gerir ráð fyrir. Það er allt of lengi búið að dragast og allt of lengi búið að líðast, þetta ófremdarástand að þessu leyti til. ekki bara varðandi fræðslulöggjöfina í landinu og framkvæmd á henni, heldur og varðandi þann þátt hins mannlega lífs að geta iðkað sund, sem er nauðsynlegt margra hluta vegna og er hægt að gera á nokkuð mörgum stöðum hér í landinu sem hafa haft þá sérstöðu að geta fjármagnsins vegna komið því í framkvæmd.

Ég vænti því þess, að hv. þm. taki þannig á þessu máli að því verði borgið nú í annað skipti sem það er flutt. Ég treysti á að þeir hv. þm. sem tóku því opnum örmum í umr. hér síðast og eiga sæti í hv. n. sem málið fer til, láti nú af því verða að sjálfsögðu að standa við fögur orð og frómar óskir, en einnig hitt, að standa þannig að afgreiðslu málsins í n. að það nái fram að ganga hér í þinginu. Það verður ekki leyst með því að endurtaka sama leikinn nú og leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj. Það er engin lausn á málinu. Þetta er vandamál sem verður að horfast í augu við, er búið að vera við lýði í landinu í áratugi, og er raunar hörmungarsaga að slíkt skuli geta gerst hjá þjóð eins og okkur íslendingum sem fyrst og fremst byggjum á sjómennsku og sjávarútvegi.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vísa til nokkuð ítarlegrar grg. sem fylgir þessu frv, og tel raunar ekki ástæðu til að fara hér öllu fleiri orðum um. Þar yrði um að ræða endurtekningu á því sem sagt var í framsögu fyrir þessu frv. á síðasta Alþ. En ég ítreka það, að ég vænti þess að málinu verði nú séð farborða, og treysti á það, að hv. þm. og hv. menntmn, standi þannig að verki að málið geti fengið afgreiðslu það tímanlega að það verði hægt að taka það til greina við afgreiðslu fjárlaga. Það á að vera hægt ef vilji er fyrir hendi. Gerist það ekki, þá skortir þann vilja sem ég vil í lengstu lög vona að ekki sé skortur á hér á hv. Alþingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.