29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

14. mál, innlend jarðefni til iðnaðarframleiðslu

Frsm. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., birtist á þskj. 14 og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram ítarlega rannsókn á því, hvaða jarðefni inn­lend eru helst nýtanleg til iðnaðarframleiðslu miðað við arðsemi, staðsetningu og notagildi.“

Atvmn. Sþ. hefur haft þetta mál til athug­unar og á sínum tíma var samþykkt að leita umsagnar nokkurra aðila um þessa þáltill. Þessir aðilar voru Félag ísl. iðnrekenda, Rannsóknaráð ríkisins, Samband ísl. samvinnufélaga og Iðnþróunarstofnun Íslands. Umsagnir bárust frá öllum þessum aðilum. Í umsögnum þessum kennir ýmissa grasa og sýnist sitt hverjum eins og gengur, en allar bera þessar umsagnir með sér að það er álit aðila, að hér sé um mjög þýðingarmikið hagsmunamál að ræða fyrir þjóð­ina alla sem vert sé að athuga gaumgæfilega.

Þá er rétt að geta þess einnig, að atvmn. barst bréf frá fjárlaga- og hagsýslustofnun rík­isins þar sem vakin var athygli á því, að samþykkt og framkvæmd till. mundi hafa í för með sér nokkur útgjöld.

Meiri hl. atvmn. var samþykkur efni og framkvæmd þeirrar þáltill, sem hér liggur fyrir. En til þess að taka af allan vafa þótti rétt að bæta við till, ákvæði um að kostnaður við rannsóknir þær, sem till. ræðir um, verði greiddur úr ríkissjóði. Atvmn. flytur brtt. hér að lútandi með áliti sínu á þskj. 533 sem hér liggur fyrir, og mælir meiri hl. n. með því að þáltill. með þeirri breytingu verði samþykkt.