29.04.1977
Neðri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3999 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

213. mál, Skálholtsskóli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt í Ed. og hefur fengið þar einróma afgreiðslu, að ég hygg, og er nú komið til Nd.

Eins og kunnugt er hefur um hríð starfað skóli í Skálholti. Þessi skóli var reistur fyrir forgöngu þjóðkirkjunnar og Skálholtsfélagsins. Áhugasamir aðilar á Norðurlöndum veittu mjög mikilsverðan fjárstuðning við byggingu skólans og einnig ríkissjóður, sem hefur lagt fram fé á fjárl. nú um nokkur ár sem stofnkostnað. S. l. ár var þetta framlag 6 millj. kr.

Skálholtsskólinn hefur frá upphafi starfað með líku sniði og lýðháskólarnir á Norðurlöndunum hinum. Vísir að slíkri starfsemi var hér upp kominn í landinu áður, þar sem voru héraðs­skólarnir. En eftir að þeir voru felldir inn í hið almenna skólakerfi hefur ekki verið völ á hliðstæðri skólagöngu hérlendis eins og kostur er á á Norðurlöndunum hinum.

Með flutningi þessa frv. er stefnt að því að setja löggjöf um Skálholtsskóla. Starfsemin yrði með sama sniði og áður, en hér er lagt til að ríkissjóður veiti skólanum fjárstuðning í sama mæli og Samvinnuskólinn og Verslunarskólinn njóta nú samkv. nýrri löggjöf um viðskipta­fræðslu. Ákvæðin um hluttöku ríkissjóðs í kostnaði eru sniðin eftir þessari löggjöf. En skólinn verður hins vegar sjálfseignarstofnun, eins og raunar fyrrnefndu skólarnir, og ber kirkjuráð ábyrgð á fjárreiðum hans, eins og segir í 8. gr.

Í frv. er ákvæði um stjórn skólans og ákvæði um hvernig ráðstafa skuli húsnæði hans ef skóla­hald yrði lagt niður.

Það er óhætt að segja að starfsemi þessa skóla það sem af er hefur notið almennra vin­sælda. Það sést á því, að umsóknir hafa verið fleiri en svo að hægt hafi verið að sinna þeim öllum. Alþ. hefur einnig sýnt hug sinn til þessa skóla með fjárveitingum þeim sem ég gat um áðan. Þetta virðist mér mæla með því að nú yrði af hálfu Alþ. tekið af skarið um afstöðu til þessa skóla og sett löggjöf í líku formi og hér er lagt til.

Hagsýslustofnunin hefur fjallað um þetta mál og sendi umsögn sína til menntmn. Ed., en af henni má ráða að sá kostnaður, sem falla mundi á ríkið samkv. lögum þessum og vegna rekstrar skólans, yrði ámóta mikill og sú fjárhæð sem veitt var á fjárl. s. l. ár, örlítið meiri þó, en ekki nema sem svarar nokkur hundruðum þús. kr. meiri samkv. umsögn hagsýslunnar.

Ég held að ég fjölyrði ekki frekar um þetta frv., leyfi mér að vísa til aths., sem því fylgja, og legg til að því verði vísað til menntmn. að lokinni þessari umr. Jafnframt vil ég nú bera fram þau tilmæli að hv. menntmn. og hv. d. veiti frv. brautargengi, þannig að það megi, þó seint sé á ferðinni, verða að lögum á þessu þingi.