30.04.1977
Efri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4023 í B-deild Alþingistíðinda. (3027)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Þar sem ég var fjarverandi við 2. umr. um þetta mál gat ég ekki komið á framfæri örstuttri aths. sem ég vildi gera. Það er í sambandi við ákvæði til bráðabirgða.

Ég minnist þess, að í maí 1975, seint um kvöld, langt fram yfir miðnætti, afgreiddum við þetta mál hér. Ég man það jafnvel, að hæstv. forseti. Nd. fylgdist vandlega með störfum Ed. í það skipti, og til að leysa þá mikinn vanda, sem að steðjaði, var samið ákvæði til bráðabirgða sem svo hljóðar, með leyfi forseta:

„Fyrir 1. jan. 1976 skal ríkisstj. láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni.“

Mér þykir nú bera vel í veiði, þar sem hæstv. félmrh. er hér staddur, og mig langar til að spyrja hvernig í ósköpunum geti staðið á því þegar slíkt kemur í lög, að þetta er ekki framkvæmt. Ég hef ekki orðið var við það. Nú veit ég að hæstv. ráðh. hefur eflaust viljað gera þessa athugun og þetta hefur einhvers staðar fallið niður í kerfinu, eins og oft er talað um. En því segi ég þetta núna, að nú er komið nýtt ákvæði nú er búið að framlengja þetta til 1978, og reyndar er búið að bæta því við, að nú skuli Alþ. gera grein fyrir þessari könnun, og það virðist ekki þarflaust. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vona að slíkt þurfi ekki að koma fyrir aftur.