02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Yfirlýsing sú, sem hæstv. iðnrh. gaf í febrúarmánuði s. 1., nánar tiltekið 10. febr. s. l., og hér hefur verið gerð að umtalsefni, vakti verðskuldaða athygli um land allt. Þessi yfirlýsing, þess efnis að af­staða heimamanna réði úrslitum um það á hverj­um stað hvort stóriðjufyrirtæki yrði þar byggt, var mjög ánægjuleg og lofsverð, og enginn efaðist um, þegar hún var gefin, að hæstv. ráðh. hefði í huga að standa við svo stóra og mikla yfirlýsingu.

Nú stöndum við frammi fyrir því í fyrsta sinn, að á það reynir hvort mark sé takandi á þessari yfirlýsingu ráðh. Fram er komin ósk um að heimamenn fái að segja álit sitt á bygg­ingu fyrirtækis af þessu tagi áður en það rís, og hví miður verður að segjast eins og er, að það er kominn upp vafi um það, hvert verður svar ráðh.

Það hefur verið borið hér fram af hæstv. for­seta Sb., til að draga úr gildi þess erindis sem bændur hafa borið fram og íbúar þessara hreppa hafa borið fram, að þeir hafi ekki kosið n. til að fylgja málinu fram við hæstv. ríkisstj. Ég held hins vegar að það hafi nú komið nokkuð glögglega fram í þessum umr., að þetta er á mis­skilningi byggt. Fundurinn fól ákveðnum sendi­mönnum sínum að koma þessu erindi á fram­færi. Fundurinn fól ákveðnum þm. að koma erindinu á framfæri. Og til hvers eru þm. ef þeim er ekki treystandi til þess að koma erindum kjósenda sinna á framfæri? Að sjálfsögðu var ekki nokkur maður á þessum fundi sem efaðist um að þm. kjördæmisins mundu sinna þessari skyldu sinni af fullkomnum heiðarleika.

Í öðru lagi hefur hæstv. forsrh. látið að því liggja í þessum umr. að erindi það, sem borist hefur frá þessum fundi, sé of seint fram komið. Ég veit ekki betur en hv. Ed. sé nú í fyrsta sinn að ræða þetta mál eftir að það hefur hlotið um­fjöllun í n., og við umfjöllun n. hafa komið fram fjöldamargar upplýsingar einmitt nú seinustu daga og vikur sem hafa varpað nýju ljósi á þetta mál. Málið hefur skýrst í augum fjöldamargra íslendinga sem áður gerðu sér ekki grein fyrir því, hversu varhugavert fyrirtæki hér væri á ferðinni. Því má raunverulega segja að nú á seinustu dögum og vikum séu allar aðstæður í þessu máli gerbreyttar. Það liggur nú fyrir að verið er að reyna að þjösna þessu máli í gegn með veitingu starfsleyfis sem gengur í ýmsum atriðum í ber­högg við þau skilyrði sem Heilbrigðiseftirlit ríkis­ins hefur sett upp. Það liggur fyrir að Náttúruverndarráð hefur ýmislegt við byggingu þessarar verksmiðju að athuga sem ekki hefur verið tekið tillit til. Það liggur nú fyrir að þeir út­reikningar, sem áður voru gerðir um á hvaða verði væri hægt að selja orku til þessarar verksmiðju, standast ekki miðað við þær breytingar sem orðið hafa á byggingarkostnaði slíkra virkjana. Það hefur líka orðið svo mikill dráttur frá fyrri áformum á því að þessi verksmiðja rísi, að það er ekki lengur hægt að segja að Landsvirkjun sé nokkur greiði gerður að losa hana við orku til þessarar verksmiðju, vegna þess að fyrir liggur að sama árið og þessi verksmiðja á að fara í gang brýtur orka Sigölduvirkjunar, árið 1979. Og það hefur komið einmitt fram núna seinustu dagana, m. a. með vandlegum útreikningum frá Þjóðhagsstofnun að fyrirsjáanlegur er bullandi taprekstur á þessu fyrirtæki. Öllu þessu hefur fólk verið, að gera sér grein fyrir nú seinustu daga og vikur og er hví sannarlega ekki hægt að segja að erindi það, sem nú er fram komið, sé of seint fram komið. Það er aldrei of seint, meðan skaðinn er ekki skeður og meðan enn er hægt að breyta um stefnu. Málið hefur enn ekki verið samþykkt á Alþ., og það er því mjög fráleitt að halda uppi röksemdum af þessu tagi.

Ég vil leyfa mér að efast um, ég trúi því tæpast að hæstv. iðnrh. ætli að ganga á bak þeirra yfirlýsingar sem hann hefur gefið í þessu máli. Ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstj. hugleiði ekki vandlega með hverjum hætti þessu erindi verði jákvætt svarað. Ég veit að um land allt verður mjög náið fylgst með því, hver verða svör hæstv. ríkisstj. Það er ekki aðeins að borgfirðingar bíði eftir svari. Það liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir, að einnig eyfirðingar bíða eftir því að fá að vita hvort yfirlýsingar hæstv. iðnrh. frá 10. febr. s. 1. reynist marklaust hjal eða ekki, nú í fyrsta sinn sem á hana reynir. Og eins er um austfirðinga sem einnig bíða þess með nokkurri óþolin­mæði að vita hvort þeir koma til með að geta haft einhver áhrif á það, hvort þar verður reist stóriðjuver af þessu tagi, eins og rætt hefur verið talsvert um á opinberum vettvangi, eða hvort vaðið verður beint af augum án þess að spyrja þá ráða.

Ég vil í þessu sambandi benda á að þó að langeðlilegast sé að fresta afgreiðslu þessa frv. þar til þessi atkvgr. hefur farið fram, og það þýðir þá, að því er virðist, að afgreiðslu þess verði frestað til haustsins, — þó að það væri að sjálfsögðu langeðlilegast og sjálfsagðast úr því sem komið er, þá er þó rétt að benda á að annar möguleiki er fyrir hendi sem er ekki með öllu óviðunandi, og hann er sá, að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir bráðabirgðaákvæði, sem sett verði inn í það frv. sem hér liggur fyrir, þess efnis, að efni samninganna við Elkem-Spigerverket komi alls ekki til framkvæmda fyrr en þessi áform hafa verið samþykkt í leynilegri atkvgr. í viðkomandi byggðum. Þessi möguleiki er einnig fyrir hendi, og m. a. af þeirri ástæðu er að sjálfsögðu alger­lega fráleitt að halda því fram, að þetta erindi sé of seint fram komið til að unnt sé að verða við því.

Ég vil taka undir ósk hv. þm. Stefáns Jóns­sonar, 5. þm. Norðurl. e., um það, að umr. um næsta dagskrármál, þ. e. a. s. frv. um járnblendiverksmiðjuna, 2. umr. málsins, verði frestað til morguns, þar sem ljóst er að afstaða ríkisstj. til þessa erindis skiptir að sjálfsögðu töluverðu máli varðandi allan málatilbúnað og afgreiðslu og atkvgr. um frv. þegar 2. umr. lýkur.