02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það hefur komið fram ósk um að umr. um 2. dagskrármálið verði frestað þar til fyrir liggur formleg afstaða ríkisstj. til óska um að láta fara fram almennar og leynilegar kosningar í sveitum sunnan Skarðsheiðar varðandi það dagskrármál. Þegar slík beiðni sem þessi kemur fram nú, þá er tvenns að gæta. Annars vegar er það, að við erum hér nú á síðustu dögum þingsins og það er eins nú og venja er að jafnaði a. m. k. þegar svo stendur á, að það er samkomulag milli ríkisstj. og stjórn­arandstöðu hvenær þinglausnir fari fram. Er gert ráð fyrir að þinglausnir fari fram n. k. miðvikudag. Er því ljóst að það þarf að fara vel með þann tíma, sem við höfum til umráða, ef haldið er við þessar fyrirætlanir, til þess að það verði hægt að ræða sem best dagskrármálin.

Á hinn bóginn er á það að líta, að sumir hv. þm. a. m. k. telja það mikið atriði og e. t. v. ákvörðunarástæðu fyrir afstöðu til málsins hér í hv. d. hverju ríkisstj. svarar óskum um leyni­lega og almenna atkvgr.

Mér virðist að við þurfum að leitast við að samræma þessi tvö sjónarmið og það verði best gert með því að umr. fari nú fram, hins vegar fari 3. umr. ekki fram fyrr en afstaða ríkisstj. liggur fyrir og hefur verið tilkynnt hér í hv. d. og enn fremur að ekki fari fram atkvgr. við 2. umr. fyrr en fyrir liggur formleg afstaða ríkis­stj. Vænti ég þá, ef þessi háttur er á hafður, að allir geti sæmilega við unað.