02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4064 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um þetta mál og eins og kemur fram á þskj. 626 varð n. ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. iðnn. mælir með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir. Hv. þm. Stefán Jónsson hefur skilað minnihlutaáliti og mun að sjálfsögðu gera grein fyrir því.

N. fékk að vísu ekki eins langan tíma og mikinn til að fjalla um þetta stóra mál og við hefðum viljað. Hins vegar hygg ég að við höfum bætt nokkuð úr því með því að halda daglega fundi og kveðja á okkar fund alla þá aðila sem ósk kom fram um að þar mættu. Þar mætti fjöldi manna og raunar allir sem óskað var eftir og áttu þess nokkurn kost. N. fékk jafnframt til meðferðar þau skjöl sem hv. iðnn. Nd. hafði aflað í þessu máli.

N. lagði sérstaka áherslu á að athuga þær breytingar sem gert er ráð fyrir á gildandi lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, fór yfir frv. með tilliti til þess og fjallaði sérstaklega um þá þætti sem mikilvægasta má telja í þessu sambandi, eins og t. d. arðsemi, markaðsmál, orkukaup, hollustuhætti og umhverfismál.

Á fundi n. komu eftirgreindir sérfræðingar: Jón Steingrímsson frá Íslenska járnblendifélaginu hf., Garðar Ingvarsson frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, Jón Sigurðsson og Gamalíel Sveinsson frá Þjóðhagsstofnun, Þorvarður Elías­son frá Verslunarráði Íslands, Jóhann Már Maríusson, Gísli Júlíusson og Elías Elíasson frá Landsvirkjun, Ásmundur Ásmundsson og Elías Davíðsson frá starfshópi um auðhringa, Páll Sig­urðsson ráðuneytisstjóri heilbrrn., Ólafur Ólafs­son landlæknir, Hrafn Friðriksson og Eyjólfur Sæmundsson frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, Eysteinn Jónsson, Árni Reynisson og Vilhjálmur Lúðvíksson frá Náttúruverndarráði. Auk mjög ítarlegrar umr. sem varð á fundi n. um öll þau mál, sem þessir sérfræðingar eru fulltrúar fyrir, skiluðu sumir þeirra allítarlegum grg. Svo er t. d. um forstöðumann Heilbrigðiseftirlits ríkisins, einnig um starfshóp um auðhringa, og fleiri mætti nefna. M. a. kom bréf frá Náttúruverndarráði sem hélt einmitt í síðustu viku fund í ráðinu um þetta málefni.

Ég mun í þessari framsögu fyrst og fremst ræða þær breytingar, sem orðið hafa, og þá nokkurn veginn í þeirri röð sem við fjölluðum um þær í iðnn. og rakið er í nál. Ég geri það m. a. til þess að stytta umr. hér og fara að heil­ræði hv. þm. Stefáns Jónssonar við l. umr. þessa máls, að hafa ekki umr. of langar.

Ég hef gert grein fyrir nefndarstörfunum og mun þá byrja með því að rekja nokkuð þær meginbreytingar sem koma fram í frv. til 1. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.

Í 1. gr. frv. er sú breyting, að þar er fellt niður 75% kísiljárn í lýsingu á þeirri framleiðslu sem ráðgerð er að Grundartanga. Ég sé ástæðu til að minnast á þetta, því að þetta hefur valdið nokkrum misskilningi. Haft var eftir hv. for­manni iðnn. Nd., að hér væri ætlunin að heimila framleiðslu annars konar járnblendis. Þetta er misskilningur og mun hann hafa mismælt sig þar. Hér er eingöngu um það að ræða að fram­leiðsluleyfið er ekki háð 75% kísiljárni, heldur er það frjálsara, og raunar var strax ljóst eftir samþykkt þeirra laga, sem nú eru í gildi, að þarna var um mistök að ræða, því að það er ákaflega erfitt að binda framleiðslu á kísiljárni svo nákvæmlega við prósent og æskilegt að verksmiðjan geti haft á nokkurn sveigjanleika, en yfirleitt mun sú framleiðsla vera á bilinu frá 45%–90%.

Í 3. gr. frv. er sú breyting helst, að í 6. lið er gert ráð fyrir að félaginu verði veitt lán að fjár­hæð allt að 24.2 millj. n. kr., eða réttara sagt: ríkisstj. er heimilað að veita félaginu lán að upphæð allt að 24.2 millj. n. kr. eða leggja fram sömu fjárhæð til aukningar á hlutafé þess. Hér er raunar um það að ræða að stofnkostnaður verksmiðjunnar hefur aukist nokkuð á því tíma­bili sem liðið er frá því að lög um járnblendi­verksmiðju voru samþ. og því eðlilegt að auka hlutafé þannig að það yrði viðunandi hundraðs­hluti af stofnkostnaði. Hins vegar var valin sú leið að heimila ríkissjóði og þar með hluthöfum að fara annaðhvort þá leið að auka hlutafé eða veita „víkjandi“ lán, sem stundum er svo nefnt, til þess að ná þessu eðlilega hlutfalli.

Í 6. gr. frv. er viðbót, síðasta mgr., þar sem ríkisstj. er heimilað að semja við samstarfsaðila sinn í hlutafélaginu um gagnkvæmar skuldbindingar til að tryggja félaginu fjármagn til að ljúka byggingu á verksmiðju með tveimur 30–45 mw. bræðsluofnum fyrir kísiljárn o. s. frv. Hér er raunar um það að ræða að ríkisstj. er heimilað að ganga til samninga við hinn hluthafann um að skuldbinda sig til þess að ljúka við byggingu þessarar verksmiðju. Þetta ákvæði er til komið að ósk Norræna fjárfestingarbankans, sem eftir ítarlega athugun á arðsemi þessa fyrirtækis hvarf frá þeirri kröfu sinni að óska eftir ríkisábyrgð, en lagði þá jafnframt áherslu á að fá nokkra tryggingu fyrir því að byggingu verksmiðjunnar yrði lokið. Hluthafar fá aðgang að lánsfé því, sem hér er um að ræða, 200 millj. n. kr., áður en verksmiðjan er orðin veðhæf, og taldi Fjár­festingarbankinn því nauðsynlegt að fá slíka tryggingu. Ég held að varla verði um það deilt, að þetta er eðlileg ósk frá lánveitanda.

Aðrar breytingar sé ég varla ástæðu til að nefna. Hér eru ýmsar orðalagsbreytingar á frv. M. a. er að sjálfsögðu fellt út nafn fyrra hlut­hafa, Union Carbide, einnig verða breytingar á tvísköttunarákvæðum, þar sem tvísköttunarsamningur er við Noreg, og raunar einnig nú genginn í gildi tvísköttunarsamningur við Bandaríkin. Ég vil þó geta þess, að í 9. gr. er bætt við mgr. sem kveður upp úr með það, að rafmagn til rekstrar verksmiðjunnar skal undanþegið sölu­skatti og öðrum gjöldum í sambandi við sölu eða notkun raforku. Í raun tel ég að þessu ákvæði sé fullnægt í því ákvæði 7. gr., að verksmiðjan skuli njóta sömu kjara og annar rekstur hér í landi með hliðstæðu rekstrarformi. En slíkur rekstur er fyrst og fremst rekstur eins og Áburðarverksmiðja ríkisins, Sementsverksmiðjan og önnur stærri fyrirtæki sem nota verulega orku. Ég tel að með þessu ákvæði hafi nægilega vel verið fyrir þessu séð og sömuleiðis með öðrum ákvæðum 7. gr., þar sem er ítarlega tekið fram að þessu fyrirtæki skuli ekki íþyngt með álögum umfram það sem sambærilegir aðilar búa við í þessu landi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að tína hér fram aðrar smærri breytingar á þessu frv. og læt þetta nægja um þennan þáttinn.

Stofnkostnaður hefur hækkað nokkuð frá því í nóv. 1974, þegar hann var talinn 13 millj. ísl. kr., þar til í nóv. 1976, að hann er nú talinn 15.4 millj. ísl. kr. Hygg ég að það sé óumdeilan­legt, að þessi hækkun er ekki meiri en telja verður eðlilegt með tilliti til verðhækkana sem orðið hafa hér og erlendis. Til viðbótar þessum upphæðum í báðum tilfellum kemur greiðsla fyr­ir tækniþekkingu, vextir á byggingartíma og rekstrarfé á byggingartíma, þannig að kostnaður er nú talinn samtals 18.4 milljarðar ísl. kr.

Gert er ráð fyrir að fyrri ofn verksmiðjunnar verði tekinn í notkun í upphafi ársins 1979, en sökum þess að afgreiðsla þessa máls hefur nokkuð dregist nú í vetur mun talið líklegt að ein­hver dráttur geti orðið á þessu, þannig að fyrri ofn verði vart tekinn í notkun fyrr en undir vor 1979. Gert er ráð fyrir að annar ofn verksmiðjunnar verði tekinn í notkun einu og hálfu ári síðar. Þarna er nokkru lengri tími á milli en ráð var fyrir gert í fyrri samningi við Union Carbide. Er það svo að tillögu hins norska hlut­hafa, sem telur að slík þróun þessarar framleiðslu hér falli betur að markaðsþróun í Evrópu á þeim árum sem fram undan eru.

Iðnn. hefur fjallað allítarlega um arðsemi þessarar verksmiðju og, eins og ég hef áður getið, kvatt á sinn fund fulltrúa Þjóðhagsstofnunar. Einnig mætti á fundi n. Þorvarður Elías­son frá Verslunarráði Íslands, en hann mætti bar fyrst og fremst sem eins konar áheyrnaraðili. Hann hafði verið beðinn um álit og óskaði eftir því að mega kynnast málinu betur með því að mæta á fundi þar sem þessi mál yrðu rædd. En það er rétt að láta það koma hér fram, að hann hefur ekki treyst sér til að láta í té umsögn um arðsemina. Jafnframt var ítarlega fjallað um arð­semi við fulltrúa starfshóps um auðhringa.

Í þessu sambandi vil ég fyrst og fremst vísa til minnisgreinar Þjóðhagsstofnunar sem afhent var iðnn. Nd. 19. febr. 1977. Umsögn þessi er allítarleg og mun ég aðeins drepa á örfá atriði.

Hvað eftir annað kemur fram í þessari umsögn að arðsemin nú er byggð á töluvert traustari grunni en var áður þegar lög um járnblendi­verksmiðju voru samþ. hér á hinu háa Alþ. Bæði er það, að nú eru ýmsar grundvallarstærðir bet­ur þekktar, eins og t. d. stofnkostnaður, þar sem fyrir liggur tilboð í ýmsa þætti stofnkostnaðar. Einnig er hráefnisverð betur þekkt þar sem það er byggt á samningum sem nú eru í gildi og sumum til langs tíma um hráefnisafhendingu til verksmiðja Elkem-Spigerverkets í Noregi. Fleira er þess eðlis, að það liggur betur fyrir. Ýmsar rekstrartölur t. d. eru teknar beint úr rekstrar­reikningum sambærilegra verksmiðja í Noregi. Loks er skylt að nefna að nú liggur einnig fyrir áætlun um lánsfjáröflun og raunar vissa um öflun verulegs hluta þess lánsfjár sem nauð­synlegt er til verksmiðjunnar, svo sem ég mun nefna síðar.

Í þessari umsögn kemur einnig fram að markaður fyrir kísiljárn hefur verið mjög vandlega skoðaður og vandlegar en áður var. Er í því sambandi sérstaklega vísað til ítarlegrar athug­unar Norræna fjárfestingarbankans sem hafði málið lengi til meðferðar og fjallaði mjög ítar­lega um það og, eins og ég hef áður sagt, hvarf frá fyrri kröfu sinni um ríkisábyrgð. Þess er einnig getið í þessari umsögn, að þær tölur, sem lagðar eru til grundvallar um markaðshorfur og sérstaklega söluverð, eru byggðar á áliti sænska Järnkontoret, sem munu vera samtök sænskra járnframleiðenda, og raunar segir í þessari álitsgerð, með leyfi forseta:

„Þótt þessar verðforsendur og forsendur um markaðsverðhækkun, sem glöggt má sjá í meðfylgjandi línuriti, kunni að virðast bjartsýnar er þess að geta, að álits um verðforsendur þessar hefur m. a. verið leitað hjá sænska Järnkontoret sem telur þær forsendur fremur varkárar.“

Um söluverð hefur að sjálfsögðu mikið verið rætt, enda er það ein meginforsenda allra arðsemisútreikninga. Söluverð á kísiljárni hefur sveiflast mjög undanfarin ár samfara verulegum breytingum á járnmarkaði. Það steig mjög ört á árunum 1973–1974 og náði þá algerum toppi eða tæpum 3600 n. kr. hvert tonn, hefur síðan með nokkrum sveiflum farið niður á við og orðið lægst seint á árinu 1975 og síðan um mitt árið 1976, en er nú að nýju á uppleið. Þess­ar sveiflur eru, eins og ég sagði, nokkuð samfara verulegum breytingum á járnmarkaðnum og járn­framleiðslu, m. a. þeirri breytingu, að ýmis lönd utan Evrópu hafa í vaxandi mæli rutt sér inn á þennan markað, t. d. japanir mjög verulega. Einnig hafa ýmis þróunarlönd hafið framleiðslu á járni. Sum lönd, olíuframleiðendur, hafa veru­legt fjármagn og jafnvel orku. Sumt af þessari framleiðslu hefur verið sett inn á Evrópumarkað á undirverði vegna söluerfiðleika þessara verksmiðja, þar sem þróun járnmarkaðar heima fyrir í viðkomandi löndum hefur hvergi nærri þróast eins ört og framleiðslugeta þar, og hefur þetta fyrst og fremst valdið sveiflum. Af þessum ástæðum hefur Efnahagsbandalagið nú síðustu árin verið með í athugun sérstakar aðgerðir til þess að koma betra jafnvægi á þennan markað. Að dómi þeirra, sem best þekkja, bendir allt til að þetta muni takast, þótt skylt sé að taka fram að þetta hefur gengið töluvert hægar en ráð var fyrir gert í upphafi. Engan hef ég heyrt halda því fram, að um offramleiðslu járns verði að ræða um langa framtíð, og engan hef ég raunar heyrt halda því fram, að verð á járni muni ekki hækka eins og verð á öðrum nauðsynjum í þess­um heimi okkar. Sýnist mér satt að segja nokkuð undarlegt að byggja arðsemisútreikninga á lægstu tölu sem finnst á undanförnum síðustu mánuðum og árum, eða um mitt ár 1976, þ. e. a. s. 2800 n. kr. tonnið. Ég vil taka það fram, að ef þetta söluverð á kísiljárni helst er arðsemi þess­arar verksmiðju ákaflega léleg og væri verksmiðjan þá vonlaus að mínu mati og hygg ég allra sem á þessar tölur líta. Ég held hins vegar að það verði að treysta þeim mjög ábyrgu aðilum sem þetta hafa skoðað og ég hef hér nefnt, aðilum eins og samtölum sænskra járnframleiðenda og Norræna fjárfestingarbankanum.

Norræni fjárfestingarbankinn er að sjálfsögðu engin góðgerðarstofnun og hefur lagt mjög mikla vinnu í að skoða þróun þessara mála. Hann hef­ur að sjálfsögðu aðgang að öllum þeim upplýsingum sem fyrir liggja, langtum fleiri en hér hafa verið dregnar fram að sjálfsögðu, og hef­ur komist að þessari mikilvægu niðurstöðu sem ég hef lagt áherslu á hér, að ekki væri þörf ríkis­ábyrgðar fyrir láni frá bankanum. Mælir það eitt að mínu mati mjög sterklega með álitlegri arð­semi þessarar verksmiðju á næstu árum.

En það er rétt, að öllum slíkum rekstri fylgir einhver áhætta. Hjá því verður aldrei komist. Spurningin er hins vegar: Hve stór er þessi áhætta, eru menn reiðubúnir að taka hana eða ekki?

Niðurstaða meiri hl. iðnn. er tvímælalaust sú, að áhættan sé það lítil, að óhætt muni að taka þessa áhættu, og þannig sé um hnútana búið, að ekki sé líklegt að þar bregði mjög út af. Ég vil í sambandi við þessi síðustu orð sérstaklega geta þess, að til meiri tryggingar fyrir afkomu verksmiðjunnar var gengið til samninga við norska hluthafann Elkem-Spigerverket um nokkra tryggingu á sölu á framleiðslu verksmiðjunnar. Samið er um það í fyrsta lagi, að samdráttur í sölu frá þessari verksmiðju verði aldrei meiri en frá þeim verksmiðjum sem það fyrirtæki á sjálft. Í þessu felst að sjálfsögðu veruleg trygging. Í öðru lagi er samið um það, að salan fari fram í gegnum þau samtök sem norskir framleiðendur á járnblendi eða kísiljárni hafa með sér og nefnt hefur verið í daglegu tali Fesil. Það eru ákaflega sterk samtök og með mjög góðan aðgang að járnblendi- og kísiljárn­mörkuðum um heim allan. Þau hafa sýnt það hvað eftir annað á undanförnum árum í þessum sveiflum, að þeim hefur tekist mjög vel að koma framleiðslu þessara verksmiðja á markað. F. t. v. talar það einna skýrustu máli í þessu sambandi, að aldrei, jafnvel í þessum verulegu sveiflum sem hafa verið upp á síðkastið, hefur ekki orðið meiri samdráttur í verksmiðjum Elkem-Spigerverkets en svo, að þær hafa verið reknar á 75% afköstum minnst. Nokkrar birgðir hafa að sjálf­sögðu stundum safnast, sem von er, en á þær hef­ur þó ávallt gengið þegar verð hefur farið hækkandi og eftirspurn hefur aukist, og svo er t. d. mjög ört nú. Einnig er samið um ákveðna lágmarkssölu frá verksmiðjunni fyrstu árin til frekari tryggingar afkomu hennar á erfiðustu tímunum.

Ég gat þess áðan að fjármögnun til þessara framkvæmda er nú stórum traustari en var áður. Samið hefur verið um verulegan hluta af því lánsfé sem nauðsynlegt er. Kemur þetta fram í grg. með frv. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir hluta­fé sem verði 127 millj. n. kr., í öðru lagi hluthafa­lánum sem nema 44 millj. n. kr. og ég hef nefnt hér áður, þar sem í raun og veru er um aukningu hlutafjár að ræða vegna meiri stofnkostnaðar. Þá er þegar tryggt stofnlán hjá Norræna fjárfestingarbankanum til langs tíma að upphæð 200 millj. n. kr. Samið er að hluta um lán frá framleiðendum hinna ýmsu tækja sem munu verða um 120 millj. n. kr. Og að lokum er gert ráð fyrir rekstrarláni, 30 millj. n. kr., sem ekki mun enn vera tryggt, en þar er að sjálfsögðu um mjög lítinn hluta af lánsfjárþörfinni að ræða.

Forseti: Má ég vekja athygli hv. þm. á því, að ætlunin er að fresta fundi núna kl. 4, ef hann gæti fundið heppileg kaflaskil á sinni ræðu. Ég skal gera það.

Ég skal þá ljúka þessu með arðsemina með því að geta þess, að n. hefur einnig haft til at­hugunar innstreymi og útstreymi ríkissjóðs við lántöku til að standa straum af hlutafjárfram­lagi til Íslenska járnblendifélagsins hf. Þar kemur fram, miðað við ákveðnar forsendur um lán­töku, 15 ára lán, til þess að standa straum af hlutafjárloforði, að um útstreymi, mun verða að ræða fram til ársins 1985, en síðan innstreymi, þ. e. a. s. um verður að ræða greiðslur úr ríkissjóði til þess að standa undir lántöku vegna hlutafjár­framlags ríkissjóðs fram til ársins 1985, en snýst síðan mjög ört við. Ég hef aðeins borið þetta undir menn sem vel þekkja þessi mál, og vil ég segja það hér, að ég hef raunar engan fundið sem telur óeðlilegt að um einhverjar greiðslur frá ríkissjóði verði að ræða á fyrstu 4–5 rekstrar­árum þessa fyrirtæks, — greiðslur til þess að standa straum af því hlutafé sem ríkissjóður á að leggja í fyrirtækið. Ég hygg að það sé heldur óvenjulegt að unnt sé að fjármagna slíkt fyrir­tæki með lánum til að standa straum af hlutafjárframlagi án þess að um nokkrar greiðslur frá hluthöfum verði að ræða. Það mikilvægasta er að sjálfsögðu það, að þetta snýst algerlega við eftir um það bil 5 ára rekstur fyrirtækisins. Eykst þá innstreymið hröðum skrefum, eins og taflan, sem fylgir hér með, sýnir, og ég ætla ekki að fara að lesa hér.

Ég held, með tilliti til þess sem hæstv. forseti sagði áðan, að það sé rétt að ég geri nú hlé á ræðu minni. Eins og ég sagði áðan, ætla ég að leitast við að hafa þetta ekki of langt mál, en mun þó að sjálfsögðu ræða um raforku og hollustu­hætti við framhald þesarar umr. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði rætt nokkuð um arð­semi, sölusamning og fjármögnun þegar hlé var gert á fundi. Ég hef aðallega drepið á megin­niðurstöður í þessu, en ekki talið rétt að lengja tímann að þessu sinni með því að lesa upp arð­semisútreikninga sem slíka, en get að sjálfsögðu gert það síðar ef tilefni gefst til. En ég lagði áherslu á þessa meginniðurstöðu Þjóðhagsstofnunar með tilvitnun í ítarlega athugun, sem farið hefur fram á þessu máli, að arðsemisútlit væri gott.

Ég kem þá að raforkusölunni sem hefur verið mikið rædd og er að sjálfsögðu ein meginundirstaða þessarar verksmiðju.

Fullyrt hefur verið, að ráðgert væri að selja raforku frá Sigöldu töluvert undir kostnaðar­verði. Um er að ræða sölu annars vegar á for­gangsorku, sem er um 244 gwst. á ári, og hins vegar afgangsorku, sem er sama magn, en hvort tveggja hefur nokkurn sveigjanleika. Sérstak­lega er afgangsorkan að sjálfsögðu frá hendi Orkustofnunar tryggð að um það bil 65% samkv. áætlun Landsvirkjunar. Er það þannig skýrt í samningnum, að 20 ára tímabil, samningstímabilið, er hún 80% tryggð, á hverju fjögurra ára tímabili 60%, á hverju einstöku ári 50%, en að meðaltali er talið að þessi afgangsorka sé þannig 65% tryggð. Raforkuverðið annars vegar á for­gangsorkunni og hins vegar á afgangsorkunni er ákveðið í raforkusamningi sem gerður er á milli Landsvirkjunar og Járnblendifélagsins. Verðið á forgangsorkunni verður um 2.02 kr. hver kwst. Í bréfi frá Orkustofnun til iðnn. Nd. er frá þeirri niðurstöðu skýrt, að þetta verð muni verða nokkurn veginn í samræmi við það verð á forgangsorku sem nú gildir frá Landsvirkjun til almenningsveitna sem af Landsvirkjun kaupa, enda er þá miðað við sömu spennu og tekið tillit til nýtingartíma. Í raun og veru er meginmunurinn á þeim samningi, sem gerður hefur verið á forgangsorku, og þeim taxta, sem gildir til almenningsrafveitna, að verð á for­gangsorku er samningsbundið í n. kr. og jafn­framt á það að hækka í samræmi við hækkun sem fram undan er á raforkuverði í Noregi og endurskoða skal á 5 ára tímabili. Með þessum samningi varð raforkuverð fyrir síðustu áramót til Járnblendiverksmiðjunnar nokkru hærra eða um 6–7% hærra en raforkuverð til almenningsveitna á Landsvirkjunarsvæðinu, miðað við þessa spennu og nýtingartíma eins og ég hef áður sagt. En hækkun varð á raforkuverði frá Landsvirkjun 1. jan. s. 1. Eftir að sá verðtaxti hefur tekið gildi rær þetta raforkuverð til Járnblendiverksmiðj­unnar um það bil 95% raforkuverðs til almenn­ingsveitna. Um þetta mætti flytja alllangt mál, en ég mun ekki gera það hér. Fyrir liggja í skjölum n. bæði álit Orkustofnunar og einnig álit eða umsögn Landsvirkjunar um það sem ég hef nú sagt, og læt ég nægja að vísa til þess.

Allmikið hefur verið rætt um afgargsorkuna og því haldið fram, að ekki væri bar um raun­verulega afgangsorku að ræða. Kemur þetta einn­ig fram í bréfi Orkustofnunar, þar sem Orku­stofnun telur afhendingarskyldu Landsvirkjunar nokkuð stífa. Um þetta má að sjálfsögðu deila. En fram hefur komið hjá fulltrúum Landsvirkjunar sem mættu á fundum iðnn., að mjög mikil afgangsorka er í kerfi Landsvirkjunar og töluvert af orku umfram það, sem hér um ræðir, sem unnt er að afgreiða með svipaðri tryggingu og járnblendiverksmiðjunni er lofað. Til viðbótar þessu er að sjálfsögðu í kerfi Landsvirkjunar ákaflega mikið af afgangsorku sem gæti ekki náð þessum tryggingarskilyrðum. Athyglisvert er að Landsvirkjun hefur einmitt nú um síðustu ára­mót hafið að bjóða almenningsrafveitum af­gangsorku á 47.5 kr. kwst. miðað við 220 þús. volta afhendingu. En verðið til járnblendiverk­smiðjunnar er 51 eyrir kwst. Þannig er það verð, sem boðið er nú, nokkru lægra. Hins vegar er skylt að taka fram að ekki hafa verið gerðir samningar við almenningsveitur um sölu eða kaup á afgangsorku og ekki gengið frá þeim skilmálum sem þurfa að gilda um slíka afhendingu.

Mér sýnist því að af öllum þeim gögnum, sem fyrir liggja, sé ljóst að raforkuverð til járnblendiverksmiðjunnar er fyllilega sambærilegt við það sem er nú á hinum almenna markaði sem Landsvirkjun þjónar. Ég fæ ekki séð að um þetta verði deilt. En eins og ég sagði, um þetta má flytja langtum ítarlegra mál og má sannar­lega lesa úr bréfum bæði frá Orkustofnun og Landsvirkjun þessu til staðfestingar. Ég mun ekki gera það nú, en get gert það ef umr. gefa tilefni til.

Mestur tími n. fór að öllum líkindum í umr. um hollustuhætti og umhverfismál. Mættu þar, eins og ég rakti í upphafi þessarar ræðu, fulltrúar frá heilbrrn., landlæknir, forstöðumaður og starfsmaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins og fulltrúar Náttúruverndarráðs. Áður en ég kem að efnisatriðum þess máls þykir mér nauðsynlegt að gera í örfáum orðum grein fyrir þeim lögum og reglum sem gilda um útgáfu starfsleyfis, en það kemur greinilega fram í heilbrigðisreglugerð frá 1972 sem sett er með tilvísun til 1. nr. 12, 1969. Einnig má vísa í reglugerð um náttúru­vernd og lög um náttúruvernd og raunar fleira.

Ljóst er að það er heilbrrh. sem gefur út starfsleyfi, en honum til ráðuneytis um það eru land­læknir og Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Þessir aðilar, þ. e. a. s. landlæknir og Heilbrigðiseftirlit ríkisins, eru ráðgefandi aðilar sem gera till. til ráðh. um starfsleyfi eða setja fram till. um þær kröfur sem gera verður til viðkomandi atvinnurekstrar. Því miður eigum við íslendingar mjög langt í land með að hafa sett reglur fyrir hinar ýmsu atvinnugreinar í þessu landi sem ýmsum erfiðleikum valda í sambandi við hollustuhætti og heilbrigðismál. Þetta eru oft viðkvæm mál, oft ákaflega kostnaðarsöm mál fyrir viðkomandi atvinnuveg, og verður ráðh. þar að sjálfsögðu að gæta þess að stilla kröfum nokkuð í hóf, þannig að ekki valdi meira tjóni en að er stefnt að koma í veg fyrir.

Það starfsleyfi, sem var gefið út 5. apríl s. 1., er mjög ítarlegt. Það er fyrsta starfsleyfi fyrir slíkan rekstur hér á landi og mun vera langtum ítarlegra en almenn venja er, t. d. í nágranna­löndum okkar. Við það er að sjálfsögðu ekkert að athuga, heldur ber að fagna hví, að hið fyrsta starfsleyfi skuli svo vandlega úr garði gert. Ég verð að segja það, að á tveimur löngum fundum n. um þetta atriði voru umr. að verulegu leyti í raun og veru um þá starfsmeðferð, hinn lagalega ramma og reglugerðarramma, sem þetta hvílir á, og má segja að þær hafi þannig að nokkru farið út fyrir starfssvið iðnn. og þá athugun sem hún var að gera á því frv. sem hér er til umr.

Ljóst þykir mér að þarna eru starfshættir í mótun og menn ekki á eitt sáttir um það, hvernig beri að haga starfsaðferðum í slíkum tilfellum. Heilbrrn. tekur mjög ákveðið þá afstöðu, að starfsleyfið sé á ábyrgð ráðh., en þeir aðilar aðrir, sem undir það rn. heyra, eins og land­læknir og Heilbrigðiseftirlit ríkisins, séu ráðgefandi. Þetta hygg ég að sé tvímælalaust og óum­deilanlegt. Hins vegar er sú spurning vitanlega ávallt fyrir hendi, hve náið samstarf á að hafa við slíka aðila á meðan starfsleyfið er í mótun í höndum heilbrrn. Einnig var vakin athygli á því, að vafasamt getur raunar talist að setja þessa aðila, landlækni og Heilbrigðiseftirlit ríkis­ins, í þá aðstöðu að þeir beinlínis ákveði ýmis endanleg ákvæði starfsleyfis. Þeir eru þá kannske orðnir ábyrgir umfram það sem lög gera ráð fyrir. Þeirra verksvið er að gera till. á þessu sviði — og ekki síst og mjög mikilvægt: að fylgjast með því að því starfsleyfi sé hlýtt sem út hefur verið gefið.

Ég læt þennan inngang nægja um mjög miklar og langar umr. um þessi atriði þar sem ákaflega margt var tíundað sem eins og ég sagði í upp­hafi, fyrst og fremst hendir til þess að starfsemin er í mótun. Ég tel að þær umr. hafi verið gagnlegar, þótt þær hafi, eins og ég sagði áðan, farið töluvert út fyrir hinn eiginlega ramma sem iðnn. að sjálfsögðu hafði með því frv. sem nú er um fjallað.

Heilbrigðiseftirlit ríkisins gaf út umsögn um starfsleyfi 10. jan. s. l. Það er mikil bók upp á 150 síður, og ég vil að gefnu tilefni taka það fram, að hún er ekki lengur það trúnaðarplagg sem nokkuð var um rætt í Nd. un reyndar hafa verið losað um þann trúnað þar strax og raunar á misskilningi byggð. Þetta er hins vegar vinnuritgerð, vinnuplagg, sem Heilbrigðiseftirlit ríkis­ins hefur látið rn. sínu í té, og í hví eru fjöl­margir hættir sem ekki varða beint það starfs­leyfi sem hér er til umr. En í þessari ritgerð eru einnig till. Heilbrigðiseftirlitsins að starfs­leyfi sem eru upp á 19 síður. Þessar till. voru þegar teknar til meðferðar í heilbrrn. og um þær fjallað ásamt landlækni sem er, eins og ég hef áður sagt einnig ráðgefandi við heilbrrn. um þessi mál og starfar í nánum tengslum við Heilbrigðiseftirlit ríkisins.

Ég ætla ekki að fara að tíunda hér þær umr. sem fram fóru. Ljóst varð af þessum umr., að fjölmörgu var breytt frá till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Hins vegar sýndist mér sannast að segja að mjög mikið af því væru hrein smáatriði og ákaflega mikið væri nánast lögfræðilegar ákvarðanir sem lögfræðingar heilbrrn. hefðu tekið breytingar sem þeir töldu nauðsynlegar með tilliti til þess sem segir í reglugerðum um slík starfsleyfi. M. a. hafði ýmislegt verið strikað út sem er skýrt fram tekið í reglugerðum og ekki sýndist ástæða til að endurtaka í endan­legu starfsleyfi. Þá voru tekin út úr ýmis atriði sem í till. Heilbrigðiseftirlitsins voru þess eðlis, að Heilbrigðiseftirlitinu sjálfu var gert að samþykkja ýmsar ráðstafanir um úrbætur í járnblendiverksmiðjunni. Skýrði ráðuneytisstjóri heilbrrn. svo frá, að rn. teldi skakkt að Heilbrigðiseftirlitinu væri gert að samþykkja slíkar endurbætur því með því móti væri Heilbrigðiseftirlitið vissulega að sumu leyti orðið ábyrgt fyrir þessum ráðstöfunum og ekki þar með hlut­laust þegar þær skal meta síðar. Þetta sýnist mér á miklum rökum reist. Ég held að Heilbrigðiseftirlitið verði að vera óháð og megi ekki bindast á einhvern máta með fyrir fram gefnu samþykki við ákveðnar endurbætur eða ráðstaf­anir sem kann að þurfa að gera. Það á að vera frjálst til þess að gagnrýna þá niðurstöðu eða þann árangur sem fæst með hinum ýmsu ráðstöfunum, hverjar sem þær kunna svo að verða. Ég nefni þetta sem dæmi um þá ýmsu þætti sem þarna bar á góma og ég tel ekki varða efnis­atriði þess máls sem er hér til umr. Hins vegar vil ég endurtaka það, að mér sýnist eftir þessar umr, að þarna eigi nokkuð í land að starfs­hættir mótist eins og vera ber. Hins vegar er þetta ung stofnun, sem þarna er um að ræða, Heilbrigðiseftirlit ríkisins, og þar er unnið af miklum krafti og miklum dugnaði, sem ég veit að við allir fögnum, og enginn vafi að þessi mál skýrast smám saman.

Svipaður vandi kom í ljós gagnvart Náttúruverndarráði. Þar vaknar sú spurning: Hvenær á Náttúruverndarráð að vera kvatt til í sambandi við framkvæmd hinna ýmsu atriða starfsleyfis? Rn. hefur tekið þá afstöðu, að það sé fyrst og fremst Heilbrigðiseftirlit ríkisins og landlæknir sem eigi að fjalla um slík mál fyrir hönd rn. Aftur á móti var á því vakin athygli, að þessar stofnanir hafa í mörgum tilfellum og ber í mörgum tilfellum að hafa samráð við Náttúruverndarráð áður en álit er gefið. Taldi rn. að með því móti væri tryggt það samband á milli heilbrigðisyfir­valda og Náttúruverndarráðs sem öllum ber raunar saman um að er nauðsynlegt. Einnig þarna hygg ég þó að nokkuð sé í land með það að eðlilegt samstarf og samband sé á komið. Og ég vil taka það fram fyrir mitt leyti, að ég tel sjálfsagt að Náttúruverndarráði sé í öllum þeim tilfellum, sem það kann að óska, gefið tækifæri til að fylgjast með framgangi þessara mála og koma till., sem það kann að óska, á framfæri. Þetta tel ég að eigi að vera grundvallarstefna í slíkum málum, og raunar hef ég enga ástæðu til að ætla annað en þessu verði framfylgt. Sér­staklega þótti mér mikilvægt að fá í þessu sam­bandi fram mjög ákveðna yfirlýsingu forstöðu­manns Heilbrigðiseftirlits ríkisins, sem lýsti því yfir að hans stofnun mundi ávallt gæta þess að hafa sem nánast samband við Náttúruverndar­ráð um öll slík mál, og var þessi skoðun full­komlega studd af ráðuneytisstjóra og öðrum sem þarna voru staddir.

Ég læt þetta nægja almennt um þessa starfs­hætti sem að mínu mati hafa kannske vakið upp nokkurn misskilning á sumum þessum sviðum. Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því, hvernig Heilbrigðiseftirlit ríkisins, landlæknir og Náttúruverndarráð falla inn í þá heild sem hér er til umr. Þetta eru sem sagt ráðgefandi aðilar, sem ráðh. heilbrigðismála hefur sér til aðstoðar, og svo ég endurtaki það: starfshættir eða samband þeirra á milli er á mörgum sviðum í mótun.

Í þessum umr. komu fram ábendingar um fjölmörg atriði í starfsleyfinu, sem út var gefið 5. apríl s. l., sem breytt hefur verið frá fyrstu till. Þó er það kannske nokkur vísbending um það, að starfsleyfið er ekki mjög frábrugðið upphaf­legum till., að það er út af fyrir sig 17 vél­ritaðar síður, en till. voru 19 síður, og ber þar satt að segja ekki mjög mikið á milli.

En til að gera langt mál sem styst ætla ég að vísa til skriflegrar umsagnar sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins lét n. í té á síðara fundi hennar. Ég mun þó ekki lesa þetta álit í heild sinni. Þar er rakinn allur gangur þessa máls og kemur m. a. fram, að allmargir fundir áttu sér stað með forstöðumönnum og starfs­mönnum Heilbrigðiseftirlitsins, landlækni og einnig að sjálfsögðu á vegum rn. og með ráðuneytismönnum. Einnig var fundur með heilbrrh. Sýnist mér að þannig hafi verið allítarlega rætt á vegum þessara aðila um þær breytingar sem heilbrrn. vildi gera á starfsleyfi. Hitt er svo jafnframt ljóst, að endanlegt starfsleyfi virð­ist ekki hafa verið borið undir Heilbrigðiseftir­litið. En ráðuneytisstjórinn telur að öllum hugmyndum rn. um endanlegt starfsleyfi hafi þegar verið komið á framfæri og hafi þegar verið ræddar við starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins á þessum fundum sem haldnir voru áður. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa örfáar mgr. úr þessu yfirliti frá forstöðumanni Heilbrigðiseftirlitsins. Hann segir m. a., með leyfi forseta:

„Á fyrrnefndum fundum Heilbrigðiseftirlits ríkisins með heilbrrh., ráðuneytisstjóra og landlækni gerðu aðilar grein fyrir afstöðu sinni til till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins og fyrstu draga að starfsleyfi frá rn. Varð strax ljóst að full samstaða yrði um langflestar megintillögur Heilbrigðiseftirlits ríkisins að starfsleyfinu af hálfu heilbrrh., heilbrrn. og landlæknis. Enn fremur gat Heilbrigðiseftirlit ríkisins fyrir sitt leyti fallist á að starfsleyfi gilti fyrir tvo ofna að uppfylltum skilyrðum um að síðari ofninn yrði tekinn í notkun innan 20 mánaða frá því að fyrri ofninn var tekinn í notkun.“

Mikilvægustu atriði þessarar mgr. eru að sjálfsögðu þau, að þarna varð full samstaða um langflestar megintillögur Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Einnig eru hér dregin saman í lokin nokkur atriði sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins vildi sérstaklega vekja athygli á. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á þessum vettvangi verður ekki gerður samanburður á einstökum tillögum Heilbrigðiseftir­lits ríkisins og ákvæðum í starfsleyfi heilbr.- og trmrh. Það verður eftirlátið öðrum, enda er um­sögn stofnunarinnar endanleg fagleg umsögn, ef undan er skilinn fjöldi ofna úr einum í tvo og tímalengd rekstrar án fullkominnar hreinsunar útblásturslofts, sem lengd hafði verið úr einni klst. í þrjár, sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins gat fyrir sitt leyti fallist á. Ekki verður samt hjá því komist að drepa á nokkur atriði í starfsleyfinu, sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins telur vera mikil­væg og betur hefðu mátt fara, en það eru eftir­farandi atriði:

a) Nokkur ákvæði í starfsleyfinu eru þannig upp sett og orðuð að merking viðkomandi skilyrðis virðist óljósari heldur en æskilegt er að áliti Heilbrigðiseftirlits ríkisins og draga í sumum tilvikum úr viðkomandi ákvæði.

b) Styrkleikamörk eða hættumörk fyrir kristallað kísildíoxíð, kvarts, dímit, kristobalít og arsenvetni eru sett hærri heldur en Heilbrigðis­eftirlit ríkisins getur fallist á.

c) Taka mætti meira tillit til verksviðs Náttúruverndarráðs en gert er í starfsleyfinu.

d) Of lítið er gert úr starfshæfni Heilbrigðiseftirlits ríkisins og of mikið lagt á vald heil­brrh., heilbrrn. og landlæknis þegar um er að ræða ákvarðanir, t. d. í bilanatilfellum, og gæti það að áliti Heilbrigðiseftirlits ríkisins tafið nauðsynlegar aðgerðir.“

Þetta eru sem sagt þau fjögur atriði sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins dregur sérstaklega fram. Um tvö þau síðast töldu, þ. e. a. s. tillit til verksviðs Náttúruverndarráðs og starfshæfni Heilbrigðiseftirlits ríkisins og valds þess til þess að ákveða um lagfæringar, hef ég þegar rætt. Ég tel fyrir mitt leyti og hef lagt á það áherslu, að Náttúruverndarráð beri að kveðja til í öllum tilfellum, og mætti það vera skýrara í starfsleyfinu, þótt ég hafi ríka ástæðu til að ætla að það muni verða gert eftir þær yfirlýsingar sem gefnar voru á fundinum. Einnig hef ég rakið um síðasta atriðið, að þarna telur rn. varhugavert beinlínis að Heilbrigðiseftirlitið kunni að bindast í sambandi við ákvarðanir um endur­bætur.

Í raun og veru sýnist mér það atriði, sem lang­samlega umdeildast er, vera styrkleikamörk eða hættumörk fyrir kristallað kísildíoxíð, enda er það það efnisatriði sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins dregur eitt fram í lokaatriðum síns samanburðar. Um þetta urðu miklar umr. að sjálfsögðu, og kom í ljós að í flestöllum löndum í kringum okkur eru þessi mál í mjög ítarlegri athugun. Þar eru þessi mörk nokkuð breytileg, allt frá því sem er í Noregi, þar sem gert er ráð fyrir 3.5 mg. í m3 til 5 mg í m3 slíks ryks, og til þess, sem svíar munu nú vera með í athugun, að setja þessi mörk við 2 mg í m3 lofts í verksmiðjum. Hins vegar var upplýst að svíar hafa ekki enn staðfest slík mörk og munu þau vera þar enn í athugun. Einnig upplýsti ráðuneytis­stjóri heilbrrn., sem eins og menn kannast við er læknislærður maður, og einnig upplýsti land­læknir að þeir hafa átt ítarlegar viðræður við landlækna bæði í Noregi og Svíþjóð um þessi atriði. Þeir hafa tekið þessi mál upp á sam­norrænum fundum heilbrigðisyfirvalda, og þeim er ljóst að þessi mál eru öll í athugun. Þeir telja einnig ljóst að norðmenn telji sig fullvissa um að þessi mörk, sem þar eru enn þá ákveðin, nægi til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma af völdum slíks ryks. En þessir menn lögðu á það áherslu báðir, að þetta væri allt í ummótun og beri í því sambandi að sjálfsögðu að hafa í huga að það starfsleyfi, sem veitt hefur verið, er langt frá því að vera endanlegt.

Það er skýrt tekið fram að sjálfsögðu í samn­ingi, sem gerður hefur verið um þessa verksmiðju, að hún fellur að öllu leyti undir íslensk lög og íslenskar reglur, og samkv. þeim er heilbrigðisyfirvöldum hvenær sem er heimilt að breyta þeim reglum sem gilda um hollustuhætti og umhverfismál. Lögð var á það rík áhersla af ráðuneytisstjóra og landlækni, að með þróun þessara mála í nágrannalöndunum muni verða vandlega fylgst og hert á hverju því atriði sem talið er að þurfi að herða á og talið með sæmilegu móti framkvæmanlegt.

Vitanlega er alveg ljóst að hollustuhátta í sambandi við svona verksmiðju er best gætt með því að byggja enga verksmiðju, og raunar á það við um fjölmarga fleiri þætti í okkar efnahagslífi. Við gætum eflaust lifað hollara og betra lífi, ef við leggðum niður allar bifreiðar og létum þær hætta að spúa eitri út í andrúmsloftið. En þarna verður að finna einhverja millileið. Og ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að þeir sérfróðu menn, sem um þetta hafa fjallað og mikla læknisþekkingu hafa, eins og ráðuneytis­stjóri heilbrrn. lagði áherslu á, meti málin svo að þær reglur, sem settar eru, fullnægi því mark­miði rn. að koma í veg fyrir að heilsu starfsliðsins sé stefnt í hættu.

Ég vil sérstaklega taka það fram, að eftir landlækni var bókuð í fundargerðarbók n. sérstök yfir­lýsing, sem er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Landlæknir lýsti því yfir, að hann sætti sig í höfuðatriðum við það starfsleyfi sem heilbrrn. hefur gefið út handa Járnblendifélaginu, með þeim skilyrðum, að Heilbrigðiseftirlit ríkisins fái nægilegt fjármagn og þjálfað starfslið til eftir­lits að mati landlæknis. Landlæknir tók þó fram, að hann telur að styrkleikamörk eða hættumörk fyrir kristallað kísiloxíð, og arsenvetni séu sett lægri en landlæknisembættið teldi eðlilegt að samþykkja.

Sem sagt, aths. þessara aðila beinast fyrst og fremst að þessum mörkum.

Í þessu sambandi vil ég jafnframt taka fram, að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins notaði nokkurn veginn þau óbreytt orð, að hann teldi það mikinn sigur fyrir Heilbrigðiseftirlit ríkisins að fá nú í fyrsta sinn í starfsleyfi reglur um það, að heilsugæsla skuli vera á vinnu­stað, og undir þetta sama tók landlæknir. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég vil taka undir þetta. Þar sem ég þekki lítillega til erlendis, hef ég séð slíka heilsugæslu, slíka læknisþjónustu. Og að sjálfsögðu er mikilvægast í þessu sambandi öllu, þar sem um töluverða óvissu er að ræða, að undirstrika það, að heilsugæsla á vinnustað sé eins og best verður á kosið. Samkv. starfsleyfinu verður þessi heilsugæsla samkv. þeim till. sem landlæknir mun leggja fram, og ég efast ekki um það eftir viðræður við landlækni á fundi iðnn. að þær till. verða fullnægjandi.

Í sambandi við ryk í andrúmslofti, sem nokkuð hefur verið rætt um, en reyndar kemur fram í umsögn forstöðumanns Heilbrigðiseftirlitsins að hann getur sætt sig við þær breytingar sem þar voru á gerðar, vil ég þó fara örfáum orðum. Í byggingu verksmiðjunnar er gert ráð fyrir því að notaðar verði pokasíur, sem mjög hafa þróast upp á síðkastið, sem einnig var gert ráð fyrir í þeirri verksmiðju sem samþykkt var með lögum vorið 1975. Ákaflega lítill munur er á þess­um síum. Það má segja að þær hafi kannske þróast nokkuð frá þeim tíma, en þó sérstaklega hefur þetta fyrirtæki, Elkem-Spigerverket, í mjög vaxandi mæli tekið þessar síur í notkun og lagt mikla vinnu í það. Má því segja að nú sé orðið viðurkennt um heim allan, að þessi aðferð sé sú sem langsamlega best hentar til þess að hreinsa ryk úr útblæstri slíkrar verksmiðju. Ég ætla ekki að fara að rekja þetta tæknilega, en læt nægja að geta þess, að þetta er gert með mjög stórum blásurum sem taka útblástursrykið og blása því í gegnum mikinn fjölda af pokasíum og verður hreinsunin einhvers staðar í kringum 95%. En algengur mælikvarði er sá, að ryk á ekki að sjást út um reykháf verksmiðju þegar þarna er komið í gegn. Nú er vitanlega svo, að slíkur búnaður getur ávallt orðið fyrir einhverjum bilunum. Í Noregi gilda þær reglur, að starfrækja megi slíka verksmiðju 4% af tímanum án hreinsi­tækja. Þetta var talið óviðunandi hér. Þetta þýðir í raun og veru 13–14 daga á ári sem verksmiðjuna má starfrækja án hreinsitækja. Og ef litið er svo á að það gildi fyrir hvorn ofninn um sig, þá er þetta orðinn tvö­faldur sá tími sem reykur sæist og ryk frá slíkri verksmiðju. Í till. Heilbrigðiseftirlitsins var gert ráð fyrir því, að aðeins mætti starfrækja verksmiðjuna í einn klukkutíma og skyldi síðan stöðva reksturinn ef ekki tækist á þeim tíma að gera við bilun. Þessu er breytt í þrjá klukkutíma, en þá skal leita heimildar ráðh. til þess að mega starfrækja verksmiðjuna áfram.

Þetta er það ákvæði sem í grg. Heilbrigðiseftirlitsins er vísað til þegar talað er um óljós ákvæði í starfsleyfi, og ég get út af fyrir sig tekið undir það. Þetta ákvæði er ekki nægilega ljóst. Hins vegar eru í starfsleyfinu settar mjög strangar kröfur um það, á hvern máta fylgst verði með framkvæmd þessarar hreinsunar, og skýrt tekið fram, að hert muni verða á þessum ákvæðum ef telja má að fenginni nokkurri reynslu og eftirliti með rekstri verksmiðjunnar að þetta sé ekki fullnægjandi. Hins vegar má geta þess, að í nýjustu verksmiðjum, t. d. í nýjustu verksmiðjum á vegum þessa norska aðila, hefur bilanatími ekki verið 4%, heldur einhvers staðar á milli 0.4 og 1% af starfstímanum, þannig að það er full ástæða til að ætla að þarna náist miklu betri árangur en þessar reglur raunar kannske leyfa.

Ég gat þess áðan, að óánægja er hjá Náttúruverndarráði, einkum þó og sér í lagi með þetta ákvæði, sem það telur í bréfi, sem það afhenti n., dags. 29. apríl s. 1., að opni fyrir þann möguleika að verksmiðjan verði um óeðlilega langan tíma starfrækt án hreinsitækja. Ég held fyrir mitt leyti að þetta sé á misskilningi byggt, þótt ég taki undir það með Náttúruverndarráði, eins og ég hef sagt, að þessi ákvæði þurfa að verða harðari og ákveðnari, og ég geri fyllilega ráð fyrir að svo verði.

Einnig kvartar Náttúruverndarráð sérstaklega undan því, að ekki sé gert ráð fyrir nægilegu sambandi við Náttúruverndarráð, og kem ég þar að því sem ég hef áður nefnt, að þetta samband og starfsaðferðir virðast mjög í mótun. Hins vegar legg ég einnig í þessu sambandi mjög ríka áherslu á það sem kom fram hjá forstöðumanni Heilbrigðiseftirlitsins þegar hann sagði að Heilbrigðiseftirlit ríkisins muni í öllum tilfellum hafa samráð við Náttúruverndarráð. Og kannske síðast, en ekki síst í þessu sambandi legg ég ríka áherslu á það, sem kom fram hjá forstöðumanninum, að Heilbrigðiseftirlit ríkisins muni tvímælalaust og hiklaust beita ákvæðum 14. gr. reglugerðar ef þörf krefur. 14. gr. reglugerðar er svo, með leyfi forseta:

„Nú telur Heilbrigðiseftirlit ríkisins að svo alvarleg hætta stafi af tiltekinni starfsemi eða aðgerðir þoli enga bið, og er því þá heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemina, en tilkynna skal það tafarlaust hlutaðeigandi heilbrigðis­nefnd.“

Sem sagt, þrátt fyrir öll starfsleyfi hefur Heilbrigðiseftirlit ríkisins ávallt heimild til að stöðva slíka starfsemi ef það telur að af henni stafi einhver hætta. Og ég segi það fyrir mitt leyti, að ég ber ákaflega mikið traust til þess unga manns sem þarna er í forustu. Hann er ákveðinn og hikar ekki við að láta sjónarmið sín koma fram, og ég treysti því að hann muni beita öllum slíkum ákvæðum, ef þörf krefur. Í raun og veru er það svo með allt slíkt sem þetta, að framkvæmdin fer fyrst og fremst eftir hinum mannlega þætti. Það er hægt að setja svo strangar reglur að þær verði allar brotnar og það jafnvel látið viðgangast. Við sjáum þess dæmi allt í kringum okkur. Reglur eru settar, þær eru brotnar. Við þurfum ekki annað en ganga um fjörur Reykjavíkur til að sjá það, því miður, og langtum víðar um landið. Aðalatriðið er vitan­lega að reglur séu settar af skynsemi, séu settar þannig að unnt sé að framkvæma þær, settar þannig að þær að bestu manna yfirsýn komi í veg fyrir að heilsu starfsliðs sé stefnt í hættu. En umfram allt er mikilvægt að það starfslið, sem fylgjast á með slíkri framkvæmd, sé vel á verði og vakandi, og það hygg ég að muni verða í þessu tilfelli. Þetta er fyrsta starfsleyfið sem er sett hér á landi, og mér virðist ljóst að þeir menn, sem þar eru ábyrgir, hafi sett metnað sinn í það að sjá um að vel fari, og á það legg ég sérstaka áherslu.

Ég ætla nú ekki að lengja þetta um of. Ég hef drepið á meginþætti sem við ræddum um. Ég hef sleppt fjölmörgu, sem fram kom á löngum fundum n. með aðilum sem ég hef nú talið upp, og ekki farið út í mikinn lestur á tölum, og ég hef sleppt því sem áður hefur verið rætt um í þessu máli.

Ég vil aðeins segja það að lokum vegna þeirra umr. sem var hér áður en þetta mál var tekið fyrir, að ég er því mjög sammála að leita ber álits og samráðs við heimamenn þegar ráðist er í nýjan atvinnurekstur sem valda mun verulegum breytingum, ekki síst í litlum byggðarlögum sem eru algengust hér á landi. Það er óvíða hér á landi hægt að finna byggðarlag sem ekki verður fyrir verulegri röskun þegar slíkur atvinnurekst­ur er staðsettur í slíku byggðarlagi. En vitanlega verður að gæta þess að fara að eðlilegum reglum. Annars er raunar lýðræðið skopstæling ein. Og ég get ekki að því gert í þessu tilfelli, að mér finnst að þarna hafi það ekki tekist hverj­um sem er um að kenna. Ég endurtek það sem hér kom fram, að málið var kynnt fyrir heima­mönnum í des. 1974. Þeir samþykktu gegnum sínar hreppsnefndir að taka þátt í hafnargerð, sem að sjálfsögðu er skýlaus vottur um að þeir óska eftir þessari verksmiðju eða vilja taka þátt í byggingu þessarar verksmiðju eða þeirra mann­virkja sem henni eru tengd. Það verður að segjast eins og er, að það er of seint að koma fram með slíka ósk á allra síðustu dögum þessa máls og raunar löngu eftir að lög hafa verið samþykkt sem heimila þessa byggingu. Ég vil vekja athygli á því, að ef þau lög hefðu ekki sérstaklega getið um fyrirtækið Union Carbide hefði að öllum líkindum ekki þurft að fara með breytingu á þeim lögum inn á hið háa Alþ. Það er fyrst og fremst það sem gerir það nauðsynlegt að mati sérfræðinga að koma hingað inn með breytingu. Þótt ýmsar aðrar breytingar hafi fylgt í kjölfarið var það mat sérfræðinga, að flestum þeim, ef ekki öllum, hefði mátt fullnægja á annan máta, með samningum á milli aðila, þannig að ég get ekki að því gert að mér finnst svona upphlaup á síð­ustu stundu vera heldur slæleg framkvæmd á þessu mikilvæga lýðræðisatriði.

Að lokum vil ég segja það, að ég veit að við óskum þess allir að þessi verksmiðja verði styrk stoð í okkar efnahagslífi. Ég held að það sé alls ekki óeðlilegt að einhver orkufrekur iðnaður rísi hér. Við eigum mikla orku. Og þegar við tölum um að við eigum að leggja áherslu á að nýta innlend hráefni, þá er orkan mjög mikilvægt hráefni í þessu sambandi og það er að sjálfsögðu ekki innflutt, það er innlent hrá­efni í þessu sambandi.

Ég fyrir mitt leyti fagna því, að hér er um tiltölulega lítið fyrirtæki að ræða með, í mesta lagi 150 manna starfslið, sem ekki veldur veru­legri röskun. Ég fyrir mitt leyti fagna því einn­ig mjög, að hér er farið að mjög ströngum ákvæðum, — ákvæðum sem t. d. iðnrh. Alþb. átti virkan þátt í að setja sem skilyrði fyrir slíkri stóriðju. Þetta er raunar fyrsta fyrirtækið sem sett er á fót innan þess ramma, og það hefur ekki hingað til á það reynt, hvernig það muni takast. Helst er þetta sambærilegt við Kísil­iðjuna við Mývatn, sem ég held, þótt menn hafi deilt þar um náttúruspjöll og þess háttar, sem kannske var ekki gætt til fullnustu þegar sú verksmiðja var reist, hafi að flestu öðru leyti reynst mjög innan þeirra marka, sem við getum sætt okkur við. Og það er einlæg von mín að þessi verksmiðja reynist vel.