03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4176 í B-deild Alþingistíðinda. (3241)

235. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. svör hans. Það kemur mér að vísu nokkuð á óvart að þetta mál skuli ekki hafa náð fram að ganga í ríkisstj., vegna þess að fulltrúar beggja stjórnarflokkanna áttu sæti í þessari n., ágætustu fulltrúar, og ég vissi ekki annað eða við í n. en að þeir hefðu fullt samráð við sína þingflokka og ráðh. um samningu þessa frv. En eitthvað hefur þar á skort eflaust.

Það er rétt hjá hæstv. landbrh., að afkoma Stofnlánadeildarinnar í ár verður eflaust betri en á s. 1. ári. Samt óttast ég enn að við sjáum fram á nokkur vandkvæði að sinna öllum þeim lánveitingum sem við gjarnan vildum gera, og ef svo færi, þá yrði það þriðja árið í röð sem við gætum sinnt þessu brýna verkefni. Hann minnti einmitt á vanda frumbýlinganna og ég fagna því, að það verði sérstaklega athugað, en ég tel þó að ef hagur Stofnlánadeildarinnar væri betri en raun ber vitni, þá mætti fullnýta heimildirnar, sem þegar eru til í lögum til handa frumbýlingunum, og létta þannig aðstöðu þeirra að miklum mun. En það er ekki unnt nú eða ég sé ekki fram á að það sé unnt nú að óbreyttri stöðu Stofnlánadeildarinnar.

Hér hefur nýlega verið samþ. till. á Alþ. um lausaskuldir bænda, og ég hlýt einnig að telja, að það sé vonlítið að framkvæmd þeirrar till. sjái dagsins ljós á þessu ári með því fyrirkomulagi sem þar er gert ráð fyrir, að Stofnlánadeildin eða veðdeildin taki þetta verkefni að sér. Ég sé ekki fram á það og hlýt að harma það, vegna þess að hér er um mjög brýnt verkefni að ræða þar sem margir bændur eiga í miklum erfiðleikum.

Ég skal ekki fara nánar út í þau önnur atriði sem til umr. komu í n. hjá okkur, aðeins ítreka það enn einu sinni, að ég held að við höfum stefnt í rétta átt, þegar við ákváðum að leggja til að húsbyggingar í sveitum færu inn í Bygging­arsjóð ríkisins. Það er nauðsynlegt að allar íbúðarbyggingar í landinu séu á einum og sama stað.