08.11.1976
Neðri deild: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

44. mál, skólakostnaður

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það frv., sem hér er á dagskrá, er shlj. frv. sem lagt var hér fram á síðasta þingi. Þá var því máli vísað til menntmn. þessarar hv. d. og n. lagði til að frv. yrði vísað til ríkisstj. Mér kemur því nokkuð á óvart að sjá að þetta mál er hér endurflutt svo fljótt eftir að fyrsta frv. fékk afgreiðslu frá deildinni á s.l. vori. (Gripið fram í.) Þá er það upplýst, að deildin sem slík afgreiddi málið ekki frá sér og er þá í sjálfu sér ekki óeðlilegt þó að málið sé flutt aftur af þeim sökum. Sýnist þá ekki óskynsamlegt að reikna með því, að n. bregðist eins við og hún gerði á síðasta þingi.

Ég lét þá skoðun í ljós í þeirri n., sem fékk málið til meðferðar á síðasta þingi, að ég teldi þetta frv. nokkuð gallað og gæti því ekki samþykkt það eins og það lá fyrir og liggur nú fyrir. Ég tek fram að ég er ekki á móti því að fjárframlög séu aukin til byggingar íþróttamannvirkja eins og sundlaugar eru og fagna hverri þeirri till. sem fram kemur í þá átt. Ég held hins vegar að það sé ekki skynsamlegt og ekki rétt að taka eina sérstaka gerð mannvirkja út úr heildinni og hafa sérstakar reglur gildandi um fjárframlög til þeirra. Ef Alþ. á annað borð er hlynnt því að breytt sé reglunum um fjárframlög til íþróttamannvirkja, þá finnst mér að eitt eigi yfir öll að ganga, a.m.k. þá tegund mannvirkja sem þar er um að ræða, án tillits til þess hvort það skuli byggt í einu eða öðru byggðarlagi. Í þessari till. er gert ráð fyrir því, að þau einu byggðarlög njóti ákveðinnar fyrirgreiðslu sem hafa innan við 4000 íbúa. Ég sé ekki haldbær rök til að mæla með þessu fyrirkomulagi.

Ég vil líka minna á það, að í sambandi við byggingar íþróttamannvirkja af þessu tagi hefur það verið vaxandi vandamál og áhyggjuefni þeirra, sem til þekkja, hversu óeðlileg og oft óskynsamleg þau norm eru sem gilda um byggingu slíkra mannvirkja. Ég tel að það megi mjög draga úr kostnaði við byggingu íþróttamannvirkja með því að breyta reglunum og þeim skilyrðum sem sett eru til að byggingar eða framkvæmdir megi fara af stað. Það mun vera starfandi n. á vegum menntmrn. sem endurskoðar norm að þessu leyti, og ég tel rétt að ýta á eftir því að sú n. skili áliti og láta þá endurskoða stofnkostnaðarframlög, fjárframlög til slíkra mannvirkja, í framhaldi af niðurstöðum þeirrar n. og þá sé gerð heildarúttekt á þessum málum. Að vísu er gert ráð fyrir því að 75% áætlaðs stofukostnaðar skuli greiða úr ríkissjóði sem slíkum, en ekki úr Íþróttasjóði. En þó er rétt að minna á að skuldahali Íþróttasjóðs lengist stöðugt. Hann gerir það þrátt fyrir að skylt er að sjóðurinn leggi fram ákveðinn hluta af stofnkostnaði þegar framkvæmd og bygging íþróttamannvirkja hefur verið samþykkt. Íþróttasjóður hefur ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir þessum skuldbindingum, og tel ég það mjög miður. Mér finnst full ástæða til þess að Alþ. geri átak til þess að laga þetta óviðunandi ástand.

Niðurstaðan hefur þess vegna orðið sú, að sveitarfélög og aðrir þeir aðilar, sem reisa íþróttamannvirki og hafa treyst á þetta framlag, skylduframlag af hálfu Íþróttasjóðs, hafa lent í mjög miklum erfiðleikum með sínar byggingarframkvæmdir vegna þess að á þessum greiðslum hefur staðið. Ef hlutur ríkissjóðs á nú að aukast varðandi kostnað af byggingu sundlauga, þá óttast ég að niðurstaðan verði sú, að sveitarfélög lendi í enn meiri vandræðum með þessar byggingar heldur en raun er á fram að þessu. Ég held því að þetta verði allt að skoðast í einu og í heild og það sé ekki ástæða og ekki rök til þess að fara að taka þetta sérstaklega út úr núna og samþykkja þetta frv. án þess að öll myndin sé skoðuð í einu.

Þessum aths. vildi ég koma hér á framfæri strax við 1. umr. svo að það lægi ljóst fyrir hver mín afstaða er til þessa frv.