03.05.1977
Efri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4226 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónason:

Herra forseti. Ég hafði ekki búist við því, að yfirlýsingu ríkisstj. um að hún skeytti engu um álit íbúa fjögurra hreppa sunnan Skarðsheiðar mundi nú farið að styrkja með því að vitna í bréf frá 8 bæjarstjórnarfulltrúum á Akranesi og bera það fram hér í þessari hv. d. sem vott um lýðræðisleg viðhorf í þessu máli. Það vita allir þm. að bæjarstjórn Akraness var ekki falið sérstakt umboð til þess að fjalla um Grundartangaverksmiðjuna eða tilorðningu orkufreks iðnaðar í Borgarfjarðarsýslu í síðustu bæjarstjórnar­kosningum, og hv. þdm. eru engu nær — alls engu nær um viðhorf fólksins í Mýra- og Borgarfjarð­arsýslu eða fólksins sunnan Skarðsheiðar þótt þetta bréf hafi verið lesið hér í d. Ef þetta bréf vottar eitthvað er það aðeins þetta, að meiri hl. bæjarstjórnar á Akranesi hafi hvorki vaxið að visku né dáð síðan fjallað var um samninginn við Union Carbide. Ef viðhafa á nokkra viðleitni til lýðræðislegrar meðferðar á þessu máli á loka­stigi af hinum æðstu aðilum, þá kemur ekkert til greina annað en að verða við beiðni íbúanna í sýslunni, lögsagnarumdæminu, um það að látin verði fara fram lýðræðisleg atkvgr. þar sem vilji íbúanna komi í ljós. Ég er því vitaskuld fylgjandi að sú atkvgr. verði einnig látin ná til Akraness. Ég efast ekkert um úrslitin. Og mér finnst það við hæfi að hin leynilega atkvgr., sem minnst hef­ur verið á, verði einnig látin ná til Akraness. Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við till. Ragnars Arnalds, brtt. hans um ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að lög þau, sem hér er um fjallað, verði ekki látin taka gildi fyrr en hin leynilega atkvgr. hefur farið fram og því aðeins að meiri hl. íbúanna á þessu svæði samþykki tilorðningu verksmiðjunnar.

Ég hafði raunar ekki búist við því að umr. yrðu vaktar aftur um málið hér í Ed., taldi eðli­lega kurteisi af hálfu hæstv. forsrh. að hann flytti d. sérstaklega svar ríkisstj., eins og hann hafði boðað okkur hér í d. Það taldi ég eðlilegt. Fyrir háttvísi hans þakkaði ég honum áðan þó að ég lýsti yfir óánægju minni með efni svarsins, svo sem við var búið. En ég hafði ekki búist við því að efnislegar umr. um málið yrðu hafnar hérna í d. umfram það sem gerð var grein fyrir brtt. um ákvæði til bráðabirgða.

Nú er það náttúrlega mála sannast, að frv. hefur alls ekki verið rætt til hlítar. Eins og ég greindi frá í framsögu minni með nál. minni hl. í gær fór því víðs fjarri að ég hefði tæmt umræðuefnið þar sem ég átti enn þá eftir að gera grein fyrir fjöldamörgum skjölum, m. a. fskj. þeim sem fylgja áliti minni hl. n., og út frá þeim má leggja á óteljandi vegu. Einnig lét ég hjá líða í framsöguræðu minni að rifja upp mjög þýðingarmikil atriði málsins sem fram komu við umfjöllun um frv. um samn­inginn við Union Carbide á sínum tíma, m. a. þau atriði sem varða umhverfi þessarar verksmiðju og þá hættu sem lífríki Hvalfjarðar og nærsveita stafar af mengun frá verksmiðjunni. Þær umr. voru mjög ítarlegar og út í einstök atriði, sem þá var fjallað um, hefur alls ekki verið farið að þessu sinni við umfjöllun málsins. Einnig gat ég þess, að sennilega væri nauðsynlegt að lesa fyrir þá þm. hv. d., sem ekki hafa fengið tóm til, um­sögn til heilbrrh. vegna umsóknar Íslenska járn­blendifélagsins hf. um starfsleyfi fyrir járnblendi­verksmiðju að Grundartanga við Hvalfjörð, fskj. sem skýra mismuninn á ýmsum atriðum í starfs leyfinu, sem út var gefið, og till. Heilbrigðiseftir­lits ríkisins um starfsleyfi, skýra m. a. hvers vegna hætta af kísilryki er svo bráð að dómi sérfræðinga Heilbrigðiseftirlitsins fyrir heilsu starfs­manna að Heilbrigðiseftirlitið telur bráðnauðsyn­legt að hafa ákvæðin varðandi kísilrykið miklu strangari en kveðið er á um í starfsleyfinu. Þar er lýsing á þeim sjúkdómum — ítarleg lýsing á þeim hræðilegu sjúkdómum sem kísilrykið getur leitt til meðal starfsmanna, og í fjölmörgum atriðum öðrum er hættunni, sem af mengun frá verksmiðjunni stafar, lýst ítarlega í þessari bók Heil­brigðiseftirlitsins. Sem sagt, ég geri ráð fyrir að það mundi taka þó nokkrar klukkustundir að fjalla til hlítar um þessi atriði málsins, og má vera að ekki yrði fjallað til hlítar, svo sæmilegt væri, um frv. þetta á miklu skemmri tíma en þeim sem tæki að láta framkvæma leynilega at­kvgr. meðal fólksins þarna efra, ef vel ætti að vera.

Ég hafði heitið því við upphaf á umfjöllum þessa máls hér í d. að tefja ekki fyrir afgreiðslu þess með málþófi. Þó er það nú svo, að skapi væri mér það næst að ræða málið með þeim hætti hér í d., að hv. þm. Sjálfstfl. neyddust til þess að heiðra bjarta sali þessa húss öðru sinni að loknum landsfundi. Mér væri það skapi næst eftir þær undirtektir sem beiðni fólksins þarna efra hefur fengið um fyllilega lýðræðislega um­fjöllun þessa máls. En mér er það ljóst af þeim umr., sem þegar hafa farið fram, að það muni ekki stoða. Mér er það ljóst, þó að ég hafi fundið það á þorra þm. að þeir eru hræddir við þetta mál, að þeir óttast að hér sé stefnt í voða, bæði hvað varðar efnahagshlíðina og umhverfishliðina, að þeir eru gæddir þess háttar geði, blessaðir, að þeir munu eigi að síður staðráðnir í því að fylgja foringjum sínum í svaðið í þessu máli. Þess vegna mun ég ekki leggja út í það, a. m. k. ekki fyrr en við 3. umr., að orðlengja um afstöðu mína frekar eða freista þess frekar að brýna hv. þm. til að endurskoða afstöðu sína og taka sjálf­stæðari afstöðu til málsins heldur en þeir virðast hafa gert fram að þessu. Ég ítreka aðeins þetta, að ég tel að hæstv. ríkisstj. hafi verið bent á leið til þess að afgreiða málið héðan úr þinginu með þeim flýti sem henni finnst svo æskilegur, en eigi að síður að taka tillit til vilja fólksins þarna efra, ef ríkisstj. er nokkuð í mun að taka tillit til vilja fólksins í þessu máli. Með því gæti hv. Alþ. orðið hvort tveggja við vilja ríkisstj. um að halda áfram að hraða afgreiðslu málsins og taka tillit til vilja fólksins að samþykkja till. sem hv. þm. Ragnar Arnalds hefur borið fram um ákvæði til bráðabirgða, þar sem kveðið verði á um að hin leynilega atkvgr. fari fram efra og verði látin ráða því hvort lögin taki gildi. En að sjálfsögðu mun ég óska eftir nafnakalli við at­kvgr. um brtt. um ákvæði til bráðabirgða.