03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4245 í B-deild Alþingistíðinda. (3309)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta mál, járnblendiverksmiðja á Grundartanga, hefur nú verið rætt meira á Alþ. heldur en ég ætla flest önnur mál sem verið hafa til meðferðar á seinni árum. Á Alþ. 1974–1975 voru mjög langar og ítarlegar umr. um málið, og nú aftur á þessu þingi hafa verið langar og ítarlegar umr. Ég ætla ekki að lengja mikið þessar umr., enda óþarft. Varðandi það, sem fram hefur komið í þessari hv. d., vil ég sérstaklega vísa til hinnar ítarlegu ræðu hv. frsm. meiri hl. iðnn., 2. þm. Vestf., Steingríms Hermannssonar, sem svaraði með skýrum rökum ýmsum þeim ádeilum sem þm. Alþb. hafa haldið uppi. En ástæðan til þess, að ég tek samt sem áður til máls nú, er að mér þykir hlýða að svara fsp. sem beint er til mín.

Vil ég þá fyrst víkja að fsp. hv. síðasta ræðumanns sem var efnislega, að ég ætla, á þá leið, hvers vegna ég ætli ekki að standa við fyrri yfir­lýsingar sem ég hafði gefið eyfirðingum um að gegn vilja heimamanna yrðu stóriðjufyrirtæki ekki sett á fót.

Hv. þm. Alþb. hafa rangfært í báðum d. og í Sþ. ummæli mín og er þó í lófa lagið að fletta þeim upp í Alþingistíðindum. Þessi ummæli, sem þeir hafa í huga, eru í 14. hefti umræðuparts Alþingistíðinda, í dálki 2005, það eru umr. í Nd. 10. febr. Þar er rætt um hugmyndir um álver í Eyjafirði. Hv. 5. þm. Vesturl. hafði fagnað því mjög í ræðu, að eyfirðingar hefðu risið upp gegn byggingu ál­vers þar nyrðra, og sagði, að þetta hefði dugað, „stjórnvöld sáu að sér“. Út af þessu fórust mér orð á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta, ég spyr:

„Hvaða stjórnvöld voru það sem sáu að sér eða gáfust upp á einhverjum áformum? Ekki ég. Ég hef aldrei látið í ljós neinar sérstakar óskir eða áform um að reist yrði álver í Eyjafirði. Ég hef þvert á móti, þegar farið var að ræða um þetta nýlega opinberlega, lýst því yfir, að það yrði ekki, meðan ég sæti í þessu embætti, byggt álver þar gegn vilja heimamanna.“

Þessi voru mín orð og við þetta verður að sjálfsögðu staðið. Það er algerlega heimildarlaust þegar hv. þm. fara svo að leggja út af þessu þannig að ég ætli ekki að standa við þau orð sem ég hafi viðhaft á Alþ. 10. febr., þar sem ég vilji ekki leyfa íbúum nokkurra hreppa í Borgarfjarðarsýslu að greiða atkv. um þetta mál. Ég vil taka það skýrt fram, að ég er sama sinnis um stóriðjuver annars staðar á landinu og í Eyjafirði. Ég hefði verið því eindregið fylgjandi, að atkvgr. færi fram meðal heimamanna varðandi þessa verksmiðju á Grundartanga, ef þær óskir hefðu komið fram á eðlilegum tíma.

Þetta mál hefur verið til umr. í rösk fjögur ár. Það byrjaði í tíð vinstri stjórnarinnar, eins og kunnugt er, þetta Grundartangamál. Það er sameiginlegt málefni núv. og fyrrv. ríkisstj. Þetta mál hefur verið á döfinni í rösk fjögur ár. Rétt eftir að núv. stjórn var mynduð tóku tveir ráðh. úr núv. stjórn sig til í desembermánuði 1974 og boðuðu fund að Leirá í Leirár- og Melasveit til þess að kynna þetta mál fyrir heimamönnum. Fyrirrennari minn í embætti, sem hafði í nær þrjú ár fengist við undirbúning þessarar verksmiðju, hafði aldrei haft fyrir því að kynna málið heimamönnum, þó að hann hefði ákveðnar till. og tilbúinn samning og lagafrv. um málið. Þetta var gert. Á þessum nær fjórum árum hefur engin sveitarstjórn á þessu svæði nokkurn tíma óskað eftir atkvgr. heimamanna um málið, engin hrepps­nefnd, ekki bæjarstjórn Akraness, ekki sýslu­nefnd. Mér hafa ekki borist neinar slíkar óskir eða uppástungur um atkvgr. Þessu máli er fyrst hreyft, það er fyrst sett fram ósk um atkvgr. fyrir um það bil viku, eftir að þetta mál hefur verið á döfinni í fjögur ár, eftir að búið er fyrir tveimur árum að fjalla um málið á Alþ. og afgreiða frv. og lögfesta um byggingu þessarar verksmiðju og eftir að málið hefur nú verið vikum saman til meðferðar í Alþ. Það er alls ekki hægt að taka það alvarlega á síðustu stund, þegar eftir eru tvær umr. í seinni deild málsins og örfáir dagar eftir af þinghaldi, að þá séu bornar fram kröfur um að nú þurfi að fara fram atkvgr. meðal heimamanna. Vitanlega verður að vera einhver skynsemi í því hvenær slíkar óskir koma fram. Bið í fjögur ár með að láta uppi slíkar óskir bendir ekki til þess, að mögnuð andstaða hafi verið þar gegn þessu máli, enda er líka flest sem bendir í aðra átt.

Ályktanir sveitarstjórna hafa mér engar borist um þetta mál utan frá einni, og það er bæjarstjórn Akraness sem samþykkti í des. 1974 eindregin meðmæli með verksmiðjunni á Grundartanga og skoraði á ríkisstj. og Alþ. að samþykkja frv. Sú áskorun var samþ. með 8:1 atkv. Nú í gær hefur þessi áskorun frá því í des. 1974 verið ítrekuð, einnig með 8:1 atkv. í bæjarstjórn Akraness, og það er skorað eindregið á Alþ. að samþykkja frv. um járnblendiverksmiðjuna fyrir þinglausnir. Þær fjórar hreppsnefndir, sem nú eru nefndar í þessu sambandi, hafa aldrei sent neina áskorun, hvorki andmæli gegn verksmiðjunni né kröfur um at­kvgr. Þvert á móti hefur margt bent til þess, að íbúar á þessum slóðum og sveitarstjórnir væru ekki að verulegu marki a. m. k. andvíg verksmiðjunni.

Eitt það fyrsta, sem þurfti að gera haustið 1974, var að kaupa land fyrir verksmiðjuna. Einhverjir höfðu haft það við orð, að e. t. v. væri rétt að taka jörð eða það land, sem þarna þyrfti, eignar­námi. Ég aftók strax með öllu að slíkt kæmi til mála, heldur yrði að sjálfsögðu að leita samn­inga. Og samningar tókust við eigendur jarðarinnar Klafastaða í Skilmannahreppi um að þeir seldu 80 hektara landspildu úr landinu undir járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Kaupsamningur er dags. 16. apríl 1975 og undirritaður af eigendunum þremur, Kristmundi Þorsteinssyni, Ástu Þorsteinsdóttur og Guðmundi Þorsteinssyni. Umsamið kaupverð er 7.2 millj. fyrir landið og 6 millj. kr. fyrir hafnaraðstöðu. Auk þess er ákveðið að eigendur jarðarinnar veita ríkissjóði forkaupsrétt að þeim hluta Klafastaða sem ekki er seldur með þessum kaupsamningi.

Þessi samningur er gerður af fúsum og frjálsum vilja við eigendur Klafastaða. Þeir selja þarna land undir verksmiðjuna og ekki aðeins það, held­ur skrifar á þennan kaupsamning fyrir hönd hreppsnefndar Skilmannahrepps Sigurður Sigurðsson oddviti, þar sem hann hafnar fyrir hönd hreppsins forkaupsrétti á þessari landspildu úr landi Klafastaða. Ekki ber nú þessi samningsgerð og afsal forkaupsréttar af hálfu hreppsnefndar vott um einhverja „magnaða andstöðu“ þessa fólks gegn verksmiðjunni.

Í sambandi við verksmiðjuna þarf að byggja höfn. Það er vitað að hafnargerð á Grundartanga er einn hluti, einn þáttur verksmiðjumálsins. Það hefur verið komið á fót hafnarnefnd sem á að sjá um byggingu þessarar hafnar, og það hefur verið gerður sameignarsamningur um höfn við Grundartanga. Hverjir eru nú aðilar að þessum hluta járnblendimálsins, þ. e. a. s. höfninni? Það er hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps, þar skrifar undir oddvitinn Guðmundur Brynjólfsson, það er hreppsnefnd Innri-Akraneshrepps, undir­ritað af Antoni Ottesen, hreppsnefnd Leirár- og Melasveitar, undirritað af Bergþóri Guðmundssyni, hreppsnefnd Skilmannahrepps, þar sem Grundartangi liggur, undirritað af oddvita, Sig­urði Sigurðssyni, bæjarstjórn Akraneskaupstað­ar, undirritað af bæjarstjóranum, Magnúsi Odds­syni, og fyrir aðra hreppa Borgarfjarðar- og Mýrasýslna sýslumaðurinn Ásgeir Pétursson.

Þessir aðilar allir, sem ég nú hef nefnt, hafa sameinast um þetta mál, um gerð þessara hafnarmannvirkja á því landi sem keypt hefur verið úr landi Klafastaða. Eru nú líkur til þess, ef andstaða gegn Grundartangaverksmiðjunni hefur verið mögnuð og mergjuð í þessum hreppum, að allar hreppsnefndirnar skrifuðu undir samning um að standa að byggingu hafnarinnar sem er líður í verksmiðjubyggingunni? Ég held að það hljóti að liggja ljóst fyrir, að með þetta í huga er ekki ástæða fyrir stjórnvöld til þess að ætla að heimamenn væru andvígir þessari verksmiðju. Ef á þessum tíma hefðu komið fram óskir eða kröfur um atkvgr. heimamanna hefði ég að sjálfsögðu beitt mér fyrir því að hún hefði farið fram.

Þegar um slíkt mál er að ræða, þá er spurningin: Hverjir eru „heimamenn“ í sambandi við slíka verksmiðjubyggingu? Eru það íbúar í þeim hreppi þar sem verksmiðjan á að rísa? Það er Skilmannahreppur, þar eru kjósendur á kjörskrá eftir síðustu skýrslum 64 að tölu. Mér hefur skilist að menn hafi ekki talið að það ætti að telja þá eingöngu aðila að þessu máli, heldur virðast till. vera uppi um það, eins og hér hefur komið fram, að það væru fjórir hreppar, sveita­hreppar, sem ættu að þessu að standa: Skilmanna­hreppur, Innri-Akraneshreppur, Hvalfjarðar­strandarhreppur og Leirár- og Melasveit. Í þess­um hreppum samtals eru 327 kjósendur. Aðrir hafa látið sér detta í hug, að ef atkvgr. ætti að fara fram, þá væri eðlilegra að íbúar Borgarfjarð­arsýslu ættu þar hlut að og enn fremur Akranes­kaupstaður sem liggur nokkra km þaðan. Í Borgar­fjarðarsýslu eru alls 828 manns á kjörskrá og í Akraneskaupstað rúmlega 2500. En inn í þessar umr., t. d. í Sþ. í dag, hefur það blandast að tveir hreppar sunnan Hvalfjarðar eigi hér vissulega að hafa áhrif á, þ. e. a. s. Kjalarneshreppur og Kjós­arhreppur.

Ef ætti að fara fram atkvgr. meðal heimamanna verður auðvitað að gera sér grein fyrir því, hverjir það eru sem þar eiga hlut að máli, og þá væri ekki fjarri sanni að álíta að það væru íbúar Borgarfjarðarsýslu, Akraness og Kjósar- og Kjalarneshreppa. Ég þykist vita það — ég veit það raunar, að þeir, sem hafa verið að berjast fyrir þessari atkvgr., hefðu engan áhuga á atkvgr. ef hún ætti að ná til þessara hreppa. (StJ: jú, jú.) Hvers vegna flytja hv. þm. þá till. um það hér í þessari hv. d., að það séu eingöngu fjórir sveita­hreppar sem eigi að hafa atkvæðisrétt? Þessir hv. þm. segja að ríkisstj. neiti íbúunum um það að mega segja álit sitt. Þessir hv. þm. neita öllum öðrum íbúum Borgarfjarðar og íbúum Kjalarness, Kjósar og Akraness um atkvæðisrétt. Þeir hafa með till. sinni sannað það, þeir hafa lagt það fram hér, það liggur fyrir prentað, að þeir vildu svipta þetta fólk allt saman atkvæðis­rétti um þessa verksmiðju. Það getur verið að þeir hrökkvi til núna þegar ég bendi þeim á þessa yfirsjón þeirra, en þeir eru búnir að drýgja yfir­sjónina. (Gripið fram í.) Hins vegar skal ég bæta því við, að þegar hv. þm. Ragnar Arnalds talaði áðan út af því að ég hefði talað um heimamenn í sambandi við álver í Eyjafirði, þá virðist hann gera ráð fyrir að allir íbúar lögsagnarumdæmis Eyjafjarðar eigi að hafa þar atkvæðisrétt, ekki að­eins í þeim hreppi sem verksmiðjan hafði komið til orða í. Þessu verða menn auðvitað að gera sér grein fyrir. — Það ber vott um það, hvílíkt áróðursbragð og blær er á þessu öllu saman, þegar þessir hv. þm., sem dag eftir dag berja sér á brjóst og þykjast vera þeir einu sönnu fulltrúar lýðræðis og þjóðarviljans ætla að svipta megin­hlutann af íbúunum á öllu þessu svæði atkvæðis­rétti. Það eru engir aðrir en rúmlega 300 manns, kjósendur í fjórum hreppum, sem áttu að fá þennan atkvæðisrétt. (StJ: Ég bar fram þessa till. munnlega fyrr í kvöld, um níuleytið, að Akranes yrði með.) En ekki Borgarfjarðarsýsla. (StJ: Jú, Borgarfjarðarsýsla og Akranes og Kjós.) Af hverju kom það ekki fram í prentuðu og skrifl. till.? (StJ: Það kom fram í ræðu minni hér fyrr í kvöld.) Af hverju kom það ekki fram í þeirri prentuðu till.? (Gripið fram í: Það kemur núna önnur.) Ég held, að hv. þm. hefði þá átt að hafa forsjálni í því. En það er auðvitað hægt að leiðrétta þetta eftir á, þegar búið er að benda þeim á vitleysurnar. En a. m. k. eiga menn, sem þannig haga sér í tillögu­flutningi, ekki að vera að geipa um að þeir séu þeir einu fulltrúar lýðræðis og vilji taka tillit til vilja fólksins.

Ég vil undirstrika það, að hefðu till. eða óskir um atkvgr. meðal heimamanna komið fram á eðlilegum tíma, einhvern tíma á þessum fjórum árum áður en málið var svo langt komið eins og nú er, þá hefði verið sjálfsagt að taka það til greina. En hitt er auðvitað ekki hægt að taka alvarlega, þegar þetta er sett fram nokkrum dögum áður en vitað er að á að afgreiða málið endan­lega á Alþ. Slíkt er ekki hægt að taka alvarlega.

Hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, sem talaði hér a. m. k. að verulegu leyti mjög málefnalega vék m. a. að arðsemi þessarar verksmiðju og taldi að þetta væri glæfrafyrirtæki sem væri fyrirsjáanlegur taprekstur á. Ég hélt að þessi hv. þm. hefði nú fengið nokkra reynslu af því í sambandi við fyrirtæki þar sem hann er í stjórn, Kröflu­virkjun, hversu hægt er að búa til alls konar út­reikninga með því að smíða sér margvíslegar for­sendur. Við þekkjum það báðir hvernig blaðamenn og fleiri hafa smíðað áætlanir t. d. um, hvílíkt glæfrafyrirtæki Kröfluvirkjun sé, með því að búa sér til þær forsendur í fyrsta lagi, að virkjunin eigi að greiðast upp að fullu, allur stofnkostnaður hennar, á 6–7 árum, sem mundi lík­lega vera einsdæmi í veröldinni, í öðru lagi, að lítið sem ekkert seljist fyrstu árin af því raf­magni sem hún á að framleiða. Með þeim hætti er auðvitað hægt að fá það fram við hvaða virkjun sem er, að hún sé ekki mjög álitlegt fyrirtæki, að hún verði baggi á þjóðfélaginu og raforku­verðið frá slíkri virkjun hljóti að vera óviðráðan­legt. Ég nefni þetta vegna þess að nákvæmlega sömu aðferðir eru notaðar í sambandi við arðsemi járnblendiverksmiðjunnar. Og að sumu leyti er beitt hér verri vinnubrögðum. Þjóðhagsstofnun hefur verið fengin til þess af fulltrúa Alþb. í Nd. að reikna út arðsemi eða afkomu verksmiðjunnar á forsendum sem hann sjálfur, hv. þm. Sigurður Magnússon, hefur búið til. Með þeim hætti hefur komið út að verulegur halli sé á rekstri þessarar verksmiðju. Svo er því flaggað í þessari hv. d., í Nd., í Sþ., í fjölmiðlum, að Þjóðhagsstofnun hafi reiknað það út að geysilegur halli yrði á þessari verksmiðju.

Þjóðhagstofnun hefur ekki talið rétt að neita hv. þm. um að reikna út forsendurnar sem hann bjó sér til. En þetta á auðvitað ekkert skylt við raunveruleikann. (RA: Hvað er rangt við forsendurnar?) Fyrir nokkrum árum hafði fiskverð hrapað niður. Það var árið 1969 sem verðið á þorsk­blokkinni íslensku var komið niður undir 20 cent fyrir pundið á Bandaríkjamarkaði. Nú í dag er það yfir 90 cent, fór sem betur fer fljótlega hækkandi. Það er alveg eins með íslenska fiskinn og margar aðrar vörur, iðnaðarvörur líka, að verðið, markaðurinn gengur í öldum. Með því að taka lægsta verð sem þekkist á einhverjum tíma, ekki á heilu ári, heldur á einhverjum hluta úr ári, þá býst ég við að það sé hægt með því að dauðadæma hvern einasta atvinnuveg og hvert einasta fyrirtæki hér á landi. Þegar verið er að meta arðsemi fyrirtækis eins og járnblendiverksmiðjunnar, þá verða menn auðvitað að meta horfur, bæði styðjast við reynslu fyrir allmörg ár og styðjast við álit hinna kunnugustu og sérfróðustu manna í þessari grein. Það þýðir ekki að taka verðið á kísiljárni eins og það mun hafa verið í einhverjum tilteknum mánuði á árinu 1976 og segja út frá því að hér hljóti að vera um stórfelldan hallarekstur að ræða.

Það vill þannig til að ýmsir sérfróðir aðilar hafa fjallað um þetta mál. Kannske er rétt að vitna fyrst í hinn Norræna fjárfestingarbanka.

Norræni fjárfestingarbankinn hefur veitt lán. um 200 millj. norskra kr., til járnblendiverksmiðjunnar án ábyrgðar íslenska ríkisins og án ábyrgðar hins aðilans, Elkem-Spigerverkets. Bankinn lánar fyrirtækinu þetta með veði í eignum þess. Fjárfestingarbankinn þarf að afla sér fjár á alþjóðlegum markaði, hann þarf að tryggja sig, tryggja að staðið verði í skilum um vexti og afborganir. Þegar haft er í huga að þetta er fyrsta meiri háttar lánið sem þessi banki lánar út og vandar því alveg sérstaklega allan undirbúning að því láni, hvaða manni dettur þá í hug í alvöru að þessi nýi banki hefði farið að lána í fyrirsjáanlegt fjárglæfrafyrirtæki sem væri óhugsandi að gæti borið sig á næstu árum? Fjárfestingar­bankinn leitaði auðvitað upplýsinga hjá hinum færustu sérfræðingum, og mat hans var það, eftir að hafa kynnt sér þau álit, að hér væri um álitlegt fyrirtæki að ræða.

Þjóðhagsstofnun hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu. Hér var að vísu gert ráð fyrir nokkru lægri arðsemi en fyrir tveimur árum, en það mun stafa af því að kostnaðar- og rekstraráætlanir séu vandaðri og varlegri nú heldur en áður. Þjóðhagsstofnun metur það, hverjar séu líklegustu forsendur, og kemst að þeirri niðurstöðu, að arðgjöf fyrirtækisins sé varlega áætluð 9.8%. Það er tæpast heiðarlegur málflutningur að vera hvað eftir annað að nefna þjóðhagsstofnun í þessu sambandi þannig að kenna við hana þá útreikninga sem starfsmenn Þjóðhagsstofnunar gera eftir beiðni Alþb. á þeim forsendum sem það gefur upp. Það eru að vísu útreikningar frá Þjóðhagsstofnuninni, en það er ekki hennar álit, ekki hennar mat.

Vitanlega er hér um áhættusamt fyrirtæki að ræða eins og flest það sem við íslendingar ráðumst í til sjós og lands, hvort sem það er í atvinnurekstri, í virkjunum eða á annan veg. Þetta er allt saman meira og minna áhættusamt. Við verðum að meta áhættuna, við verðum að meta horfurnar. Eftir að hafa kannað það að bestu manna yfirsýn og reyndustu manna í þessum efnum, þá er það mat okkar, að líkur séu til þess að þetta verði arðvænlegt fyrirtæki.

Elkem-Spigerverket er eitt af traustustu fyrirtækjum Noregs. Áður en ég hóf viðræður í apríl­mánuði í fyrra við Elkem-Spigerverket gaf norska ríkisstj. þessu fyrirtæki alveg sérstök meðmæli sem einu af best reknu fyrirtækjum í Noregi, fjárhagslega og mjög traustu og með mikla reynslu á þessu sviði. Það er vissulega nokkur vísbending um að þetta sé sæmilega álitlegur atvinnurekstur, að svo traust fyrirtæki skuli vilja í það ráðast. Ég tel að það sé vissulega mikilsverð vísbending. Hv. þm. Ragnar Arnalds skýrir þetta á sinn veg. Hann segir: Ástæðan til þess, að Elkem-Spigerverket vill vera með í þessu, er að það fær svo mikið greitt fyrir tækniþekkinguna, sem það lætur í té, og fyrir tækniþjónustuna, sem það á að láta í té, söluþóknun o. s. frv. Gott og vel. Það, sem Elkem-Spigerverket fær fyrir þetta: tækniþjónustu, tækniþekkingu, sérleyfi, söluþóknun, það er í meginatriðum eins og búið var að semja um við Union Carbide. Maður skyldi því halda að Union Carbide hefði metið þetta ákaflega mikils virði út frá röksemdafærslu hv. þm. Ragnars Arnalds. Union Carbide lagði þó ekki meira en svo upp úr stórkostlegum gróða af þessum atriðum, sem eru þau sömu og í samningunum við Elkem, að það vildi borga okkur 850 millj. kr. til þess að losna við samninginn. (Gripið fram í: Já, en af hverju?) Já, af hverju? Ég kem að því.

Ég býst við því, eins og raunar hefur komið hér fram oft áður, að það sé ógerningur að fullyrða um það, hverjar voru hinar raunverulegu ástæður til þess að Union Carbide hætti. Ég efa ekki að ein af ástæðunum hefur verið sú, að þá var kísiljárnmarkaðurinn í algeru lágmarki, hann var í lægð. Það kom í ljós að sérfræðingar Union Carbide voru miklu svartsýnni á horfurnar á þessu og næstu árum heldur en aðrir þeir sérfræðingar sem til var leitað, ekki aðeins Elkem-Spigerverkets, heldur ýmsir hlutlausir aðilar sem íslenska ríkisstj. leitaði til þegar þetta var á döfinni. Hins vegar hefur ekki farið neitt leynt að ein af meginástæðunum fyrir því, að Union Carbide dró sig til baka, hafi verið sú, að mannaskipti höfðu orðið í æðstu stjórn Union Carbide og hinir nýju ráðamenn þar vildu stefnubreytingu og leggja áherslu á aðrar framleiðslugreinar, fyrst og fremst beina framleiðslu fyrir neytendur, fremur en þá framleiðslu sem þarna var um að ræða. Margir kunnugir menn telja að þetta síð­asta hafi verið meginástæðan fyrir því, að þeir drógu sig til baka. Ég nefni þetta vegna þess að hv. þm. Ragnar Arnalds telur að hagnaður Elkem-­Spigerverkets af þóknun fyrir tæknikunnáttu og sölulaun sé því svo mikils virði, að þó að fyrir­tækið sé fyrirsjáanlegt glæfra- og tapfyrirtæki, þá græði það samt sem áður á þessu. Það stang­ast gersamlega á við reynsluna.

Vitanlega er ljóst að ekkert er hægt að full­yrða um afkomu þessa fyrirtækis. Það er áhætta. Áhættuna verðum við að meta. Eftir að hafa kynnt okkur álit hinna fróðustu aðila í þessu efni, m. a. og ég nefni þar alveg sérstaklega það álít sem Fjárfestingarbankinn norræni hefur á þessu máli, þá teljum við að líkur séu til að þetta verði arð­samt fyrirtæki.

Hv. 5. þm. Norðurl. V. notaði nokkurn tíma í ræðu sinni til þess að deila á mig fyrir aðgerða­leysi og trassaskap í orkumálum, sérstaklega varð­andi húsahitun. Hv. þm. hefur, að ég best veit, verið formaður í starfshópi eða nefnd á vegum Alþb. sem samdi og undirbjó ítarlega álítsgerð, heila bók, um orkumál, þar sem margar fróðlegar upplýsingar er að finna. Þar hefur verið safnað saman margvíslegum upplýsingum frá ýmsum stofnunum og úr ýmsum áttum. Hv. þm. ætti því að vera það kunnugt, að einmitt á sviði húsahitunar og nýtingar innlendra orkugjafa fyrir húsa­hitun hefur verið gert stærra átak nú hin allra síð­ustu ár heldur en langan tíma á undan. Þetta stafar fyrst og fremst af því, að strax á fyrstu mánuðum núv. ríkisstj. var lögð á það áhersla að stórauka rannsóknir og jarðhitaleit og afla nýrra og stórvirkra tækja í því skyni. Þetta hefur þegar borið verulegan árangur. Og það er rétt að minna á það enn, sem oft hefur verið gert áður, að við stjórnarskiptin 1974 lágu mál þannig fyrir að iðnrh. Alþb. hafði látið gera áætlun um hversu margir landsmenn mundu geta notið hitaveitna í fyrirsjáanlegri framtíð, og niðurstaðan varð sú, að það væru tæplega 2/3 allra landsmanna. M. a. var gert ráð fyrir í þeirri áætlun, sem var lögð fyrir Alþ. af Magnúsi Kjartanssyni iðnrh., að höfuðborg Norðurlands, Akureyri, gæti ekki notið jarðhita, heldur þyrfti að fá rafmagnshitun. Árangurinn af aukinni jarðhitaleit og m. a. nýjum tækjum, sem aflað var, er sú, að höfuðstaður Norðurlands fær hitaveitu og það nú alveg á næstunni. Það er einmitt hinn nýi bor, Jötunn, sem hefur borað eftir þeim jarðhita sem mun nægja fyrir verulegan hluta Akureyrar og vonandi fyrir allan bæinn.

Lítum á annað í þessu sambandi. Ég minntist á það í útvarpsræðu um daginn, þegar rætt var um till. Alþb. um orkumál, að þegar væri af þessum ástæðum, vegna aukinnar notkunar jarðhita til húsahitunar, farið að draga verulega úr olíunotkun hér á landi og mundi fara stórminnkandi á allra næstu árum. En það er þannig með alþb.-menn, sem kemur því miður allt of oft fram, að þeir virðast hafa miklu minni áhuga á nýtingu jarðhitans til húsahitunar heldur en raf­magni. Nú er auðvitað öllum ljóst, að jarðvarmi er miklu hentugri til húsahitunar en rafmagn, þannig að hvarvetna þar sem kostur er að fá jarðhita til húsahitunar er sjálfsagt að velja þann kostinn fremur en rafmagnshitun. En það kom fram bæði í áætlunartillögugerð Magnúsar Kjartanssonar iðnrh. vorið 1974 og kemur enn fram í þeirri till. sem Alþb. flytur um stefnumótun í orkumálum og liggur fyrir þinginu, að þótt þeir tali um stefnumótun í orkumálum, þá gleymdu þeir hitaveitunum. Hvernig á þessu stendur er mönnum hulin ráðgáta. En það hefur stundum verið þannig um þennan flokk, að hann hefur átt erfitt með að breyta um frá fyrri línum sem lagðar hafa verið, og kannske eru þetta einhverjar gamlar leifar. En ég vænti þess, að þeir fari að átta sig á því, hversu mikils virði jarðhitinn er. Hins vegar vísa ég gersamlega á bug ádeilum hv. þm. um að ég hafi vanrækt húsahitunarmálin með innlendum orkugjöfum. Það er algert rang­hermi hjá hv. þm.

Raforkumálin og virkjanamálin skal ég ekki fara ítarlega út í hér. En það er ákaflega undar­legt hversu stangast gersamlega á yfirlýsingar og fullyrðingar og ádeilur alþb.-manna í þessum efnum. Einn daginn er núv. iðnrh. ásakaður fyrir seinagang í orkumálum, trassaskap, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds mun hafa orðað það áðan í sambandi við húsahitun, og svo hinn daginn ræðst málgagn þessa sama flokks á núv. iðnrh. fyrir að hafa gengið allt of hart fram og fast í þessum efnum. Hvernig þessar fullyrðingar allar stang­ast á kemur m. a. fram í því, að nú telur hv. þm. Ragnar Arnalds hættu á afl- og orkuskorti hér árið 1980, jafnvel 1979 eða eftir 2–3 ár. En fyrir ekki allmörgum dögum stóð í forustugrein Þjóð­viljans að nú væri Sigölduvirkjun tekin til starfa og það væri ekkert að gera við þá orku: „Næst­stærsta virkjun landsins ónýtt,“ eins og stóð í þeirri grein. (RA: Eitthvað hefur nú ráðh. lesið illa.) Nei, ég las hana vandlega. Ég las hana óvenju vandlega í þetta skipti og tók þessi um­mæli orðrétt upp í útvarpsræðu minni um daginn, bæði úr fyrirsögn og lesmáli Þjóðviljans, og það er nú enginn vandi að fá það allt saman orðrétt. Hitt skil ég ákaflega vel, að hv. þm. vilji ekki kannast við þessi ummæli blaðsins síns. Náttúrlega ber þetta vott um mikla fjarstæðu og fákunn­áttu í þessum málum, þar sem vitað er að það lá við borð að hér á veitusvæði Landsvirkjunar yrði alvarlegur afl- og orkuskortur á s. l. vetri. Sig­ölduvirkjun átti að taka til starfa sumarið og haustið 1976, og um það var samið. En bæði vegna þess, hversu mál gengu seint hjá verktakanum, og vegna dráttar, sem varð á afhendingu véla, tókst ekki fyrr en nú á vordögum að koma þessari virkjun í gang. Hins vegar var það þannig, að á s. l. vetri voru iðulega allar vélar landsvirkjunar­kerfisins keyrðar á toppi, t. d. var Búrfellsvirkjun keyrð dag eftir dag yfir ástimplað afl. Ef ekki hefði verið þessi einmuna tíð í vetur, ef eitthvað hefði orðið að veðri eða ef einhvers staðar í kerfinu hefði bilað vél, þá var hér komið alvarlegt ástand á landsvirkjunarsvæði og hefði þurft að grípa í stórum stíl til olíu- eða dísilkeyrslu, e. t. v. komið til skömmtunar. Þegar því Sigölduvirkjun tók til starfa, en hún er eins og kunnugt er þrjár 54 mw. samstæður, var fyrsta 54 mw. samstæðan orðin algerlega nauðsynleg og þó fyrr hefði verið, vegna þess að það skorti afl, bæði beinlínis og einnig varaafl sem þarf að vera í svona stóru kerfi. (RA: Þessu hefur enginn mótmælt.) Nema kannske Þjóðviljinn, að það væru engin not fyrir þessa orku Sigölduvirkjunar. Ég held að hv. þm. ætti nú að fletta þessu upp. Annars býst ég við að hann kunni þetta. Ég fór nú með þetta orðrétt um daginn í þinginu og það liggur allt saman fyrir.

Annars vegar eru svona fáránlegar fullyrðingar eins og í Þjóðviljanum. Hins vegar koma yfirlýsingar frá hv. þm. um að þetta endist ekki nema 2–3 ár. Og á sama tíma er svo deilt á mig fyrir að hafa veitt virkjunarleyfi fyrir næstu virkjun, virkjunarleyfi fyrir Hrauneyjafossvirkjun, sem er algerlega óhjákvæmilegt að komist í notkun sem allra fyrst og helst ekki seinna en eftir fjögur ár. Það er ekki heil brú í öllum þessum málatilbúnaði alþb.-manna. Ýmist eru framkvæmdir allt of miklar eða þær eru allt of litlar og seinar. Stundum er orkuskortur fram undan eftir 2–3 ár, stundum er allt of hratt farið í virkjanir og það á að bíða og bíða.

Þetta eru þau atriði sem ég hafði ætlað mér að víkja hér að: Fyrri yfirlýsingar um vilja heimamanna í sambandi við álver í Eyjafirði og útúr­snúningar sem hv. þm. hafa viðhaft í því sambandi, hvernig eigi að kanna vilja heimamanna, og þar virðast hv. alþb.-menn hafa hlaupið al­varlega á sig ef þeir ætla að neita meginþorra þess fólks, sem býr í nágrenni við járnblendiverk­smiðjuna, um atkvæðisrétt. Ég taldi rétt að víkja hér nokkuð að arðsemispám og útreikningum og nokkuð að orkumálunum. Orkuverðið ætla ég ekki að ræða hér, því að hv. frsm. meiri hl. rakti það mál rækilega áðan.

Að lokum vil ég aðeins nefna eitt og það eru mengunarmálin. Það er ekkert auðveldara en æsa fólk upp út af mengunarhættu og skapa ógn og skelfingu í þeim efnum, að hér sé verið að stofna til verksmiðju sem muni spúa eitri yfir mann­fólkið, eyðileggja allt líf í Hvalfirði og beggja vegna Hvalfjarðar. Þegar hv. þm., sem þannig tala, ræða jöfnum höndum um mengun frá álverinu í Straumsvík og gefa í skyn að það sé viðbúið að það sama muni gerast með Grundartangaverksmiðjuna, þá vita þessir hv. þm. betur. Þeir vita það ósköp vel, að þegar álverið var byggt var ekki komið upp mengunarvörnum þar eða hreinsi­tækjum í þeirri verksmiðju. Þeir vita ósköp vel að það hefur verið lögð á það mikil áhersla nú hin síðustu ár að fá sett þar upp hreinsitæki og nú er ákveðið að þau verði sett upp, þau full­komnustu sem völ er á. Það tekur tíma. En sem sagt, þegar verksmiðjan var byggð voru engin hreinsitæki. Verksmiðjan á Grundartanga verður hins vegar búin frá upphafi þeim fullkomnustu hreinsitækjum sem völ er á í þessum iðnaði. Það er ekki aðeins vitað, að þetta fyrirtæki, Elkem­Spigerverket, sem verður með okkur í byggingu þessarar verksmiðju, hefur lagt í það geysilega vinnu, tækni og fjármagn á síðustu árum að koma sér upp hreinsitækjum í slíkum verksmiðjum með þeim árangri sem allir vita og talið er að sé það besta og fullkomnasta sem nú er völ á. Það er vitað líka, að með starfsleyfinu til verksmiðjunnar eru settar jafnstrangar eða strangari reglur heldur en þekkjast í nágrannalöndum okk­ar. Á sama tíma leyfa þessir hv. þm. sér að hlekkja landslýðinn, safna undirskriftum og kalla fram samþykktir á þeim alröngu forsendum, að hér sé í rauninni verið að fara af stað á sama hátt og með álverið í Straumsvík, þar sem engin hreinsi­tæki voru, í stað þess að hér verða frá upphafi sett fullkomnustu hreinsitæki. Þetta er ekki sæmi­legur og ekki frambærilegur málflutningur.

Til þess að það væri sem best hægt að fylgjast með þessu var sett inn ákvæði um það í lögin um byggingu járnblendiverksmiðjunnar fyrir tveimur árum, að líffræðistofnun Háskólans og Náttúruverndarráð skyldu hafa með höndum rannsóknir á lífríki Hvalfjarðar til þess fyrst og fremst að fá grundvöll fyrir því að fylgjast nákvæmlega með því ef einhverjar skaðlegar breytingar kynnu að verða þar af völdum verksmiðjunnar. Að þessu hefur verið unnið, eins og ég hef skýrt hér frá áður.

Það er létt verk og löðurmannlegt að æsa fólk upp þannig með blekkingum um heilsuspjöll og eitur sem eigi að fara að spúa yfir það. Ef menn reyna að líta á þessi mál með rósemi og skynsemi, þá ættum við öll að vera sammála um það, að allir íslendingar hafa áhuga á því að auka mengunarvarnir og hollustuhætti í hvers konar iðnaði hér á landi. Hér er ákaflega mikið ógert hjá okkur íslendingum í iðnaði okkar, hvort sem það er á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs eða al­menns iðnaðar. Það er talið, að ef bær reglur, sem nú eru settar í starfsleyfi járnblendiverksmiðjunnar, ættu að gilda um allar verksmiðjur á Íslandi, þá yrði þegar í stað að loka sementsverk­smiðjunni, væntanlega áburðarverksmiðjunni og fjölda verksmiðja í eigu íslendinga. Við verðum auðvitað að vinna að því að koma á fullkomnum mengunarvörnum og hollustuháttum í verksmiðjum okkar. En það sýnir yfirdrepsskap og hræsni þessara manna, sem mest fjasa hér með fölskum upplýsingum um mengunarhættu af Grundartanga­verksmiðjunni, að aldrei heyrist orð um það, að neitt þurfi í því að gera að draga úr mengun frá verksmiðjum okkar íslendinga sjálfra, í hvaða atvinnugrein sem það er. Aldrei hef ég heyrt orð frá þessum mönnum, sem mest hafa tekið upp í sig hér, um að það þurfi t. d. að einbeita sér að því að draga úr þeirri mengun sem kannske er nú mest hér, mengun frá bifreiðum. Vitanlega eigum við að kosta kapps um að reyna að draga úr mengun á öllum sviðum. Í sambandi við undirbúning járnblendiverksmiðjunnar hefur verið lögð á það sérstök áhersla að ganga þannig frá málum að þar yrðu hinar fullkomnustu mengunarvarnir og hreinsunartæki sem nú er völ á.