04.05.1977
Neðri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson):

Virðulegi forseti. Samgn. d. hefur haft til meðferðar till. til þál. um framkvæmd lagaákvæðis um ókeypis símanot aldraðs fólks, öryrkja o. fl. Till. er í tveim þáttum. Í fyrsta lagi er þess farið á leit, að Alþ. álykti að fela samgrh. að gefa út reglugerðarákvæði um ókeypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja með lágmarkstekjur o. s. frv. Enn fremur að Alþ. álykti að fela ráðh. að beita sér fyrir því, að aldrað fólk og öryrkjar fái verulegan afslátt við kaup farmiða með almenningsfarartækjum.

N. varð ekki öll sammála um þetta mál. Málinu var vísað til n. s. 1. laugardag, 30. apríl. Tveir nm. skila séráliti. Fjórir nm. eða meiri hl. samgn. leggur til að frv. verði vísað til ríkisstj.

Fyrri hluti till., sem ég nefndi, gengur út á það að skora á ráðh. að nota heimild sem hann hefur í lögum til þess að gefa út reglugerð. Þetta er í lögum sem sett voru á Alþ. 1975. Er skorað á samgrh. að beita þeirri heimild sem hann fékk með þeim lögum. En í ræðu, sem hæstv. samgrh. flutti í Ed. 25. f. m., kom fram að hann teldi þessi mál á margan hátt erfið úrlausnar. Hann lýsti því jafnframt yfir, að orðið hefði samkomulag milli sín og þriggja annarra ráðh., sem þessi mál heyra undir, að láta fjalla um þau sameiginlega. M. ö. o.: er það svo, að fjögur rn., sem þessi mál heyra undir, hafa ákveðið að ráða fram úr málinu sameiginlega, þ. e. a. s. fjmrn., menntmrn., samgrn. og heilbr.- og trmrn. Þessi rn. munu sameiginlega skipa n. hinna hæfustu manna til þess að fjalla um þessi mál og finna leið til þess að greiða úr þeim á sanngjarnan og eðlilegan hátt. Með hlið­sjón af þessu og í trausti þess, að fundin verði réttlát lausn á þessum málum hið fyrsta, leggur meiri hl. samgn. til að till. verði vísað til ríkisstj.