04.05.1977
Neðri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4290 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég stend að meirihlutaáliti frá samgn. í þessu máli. Ég kem nú hér upp aðal­lega til þess að lýsa undrun minni á hve menn geta leikið tveim tungum eftir því hvar þeir eru staddir, því að hv. þm. Garðar Sigurðsson, 5. þm. Suðurl., var okkur í meiri hl, n. í raun og veru alveg sammála þegar við töluðum um þetta í n. Hins vegar hafði hv. 5. þm. Vestf. hátt eins og fyrri daginn og það svo mjög, að það hefur yfir­gnæft dómgreind og álit hv. þm. Garðars Sigurðs­sonar, svo hann er nú með hv. þm. Karvel Pálma­syni á nál. Þetta kemur mér nokkuð á óvart.

Eftir atvikum og eftir allt of langan drátt á þessu máli þótti okkur í samgn. að málinu væri eðlilegast borgið með því að vísa því nú til ríkis­stj. með tilliti til gefinna yfirlýsinga af hálfu hæstv. samgrh. um að þetta mál væri loksins nú komið til alvarlegrar athugunar af hálfu fjögurra rn. Ég sé ekki annað en við höfum alla aðstöðu til að knýja á um að eitthvað komi út úr þeirri athugun meira en hingað til hefur orðið í með­ferð þessa máls. Við erum öll sammála um að þetta sé mál sem verði að fá fram. Við erum líka sammála um að það þurfi að athuga vel um framkvæmdina því að hætta er á gróflegri mis­notkun. Því getur enginn okkar borið á móti. Ég hefði viljað fara jafnvel nú strax milliveg og takmarka þetta við elli- og örorkulífeyrisþega sem búa einir í húsnæði, því að þeirra er þörfin mest. Því var ekki hægt að koma fram nú. Ég er viss um að ef hugur fylgir máli hjá fylgjendum þessa máls, þá höfum við það í hendi okkar að skora sterklega á hv. fjögur rn., sem þetta hafa til með­ferðar, að leysa það á viðunandi hátt.

Ég vil enn ítreka undrun mína yfir afstöðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar sem talar nú með allt annarri tungu en hann gerði í hv. samgn.