16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

244. mál, fiskvinnsluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég er hér með aðra fyrirspurn á sama þskj., 47, og nú er að vita hvort hún hefur lent í einhverjum hrakningum milli rn. eða einhver líður hennar. Hún er í þremur líðum. Ég hef leyft mér að beina fyrirspurninni til hæstv. forsrh. A-liðurinn er svohljóðandi:

„Hvað hyggst ríkisstj. gera til að bæta úr því slæma atvinnuástandi sem nú ríkir á utanverðu Snæfellsnesi, einkum í Ólafsvík?“

Þetta mál dróst inn í umr. um fyrri fyrirspurn mína. Ég ætla ekki að tefja tíma okkar hér með því að rekja bað náið, en ég lagði fyrirspurnina fram eftir að ég hafði farið um Snæfellsnesið og þá komið m.a. í Ólafsvík og sannfærst um að fréttir um slæmt atvinnuástand þar voru síður en svo ýktar. Síðan ég lagði fyrirspurnina fram hefur svo komið sendinefnd a.m.k. einu sinni hingað suður til þess að ræða við viðkomandi stofnanir. Það, sem þeim í Ólafsvik er einkum kappsmál í þessu sambandi og þeir trúa að geti leyst þann vanda sem þar er við að etja, þ.e.a.s. hráefnisskort, er að fá skuttogara. Mér er kunnugt um að þeir hafi fengið góðar undirtektir hjá Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði eða Framkvæmdastofnun, en hitt veit ég hins vegar ekki, hverjar undirtektir þetta hefur fengið hjá ríkisstj. sjálfri, en þar stendur nú hnífurinn í kúnni, þar sem er ríkisábyrgðin 13% ríkisábyrgðin sem tíðkaðist á árunum 1972–1975. Þess vegna hef ég leyft mér í b-lið að beina til hæstv. forsrh. svo hljóðandi fsp.:

„Getur ríkisstj. fallist á það í þessu sambandi“ — þ.e.a.s. varðandi atvinnuástandið þar vestra — „að heimila togarakaup erlendis frá með hlíðstæðri lánafyrirgreiðslu og almennt var veitt á árunum 1972–1975?“

C-liðurinn snertir svo áform um að byggja verbúðir í Rifi. Það var í des. 1972, hygg ég, að stofnað var hlutafélag þar vestra, en stofnendur þess voru flest fyrirtæki þar í hreppnum og nokkrir einstaklingar, landshöfnin í Rifi og Neshreppur utan Ennis. Um nauðsyn þess að fá góðar verbúðir þar vestra má tilgreina að þarna starfa, hygg ég, 4 eða 5 fiskverkunarstöðvar og nýting þessara fiskverkunarstöðva byggist að sjálfsögðu á því að þær fái aðkomufólk til starfa. Nýting hinnar góðu hafnaraðstöðu í Rifshöfn byggist svo á því að fiskverkunarstöðvarnar geti framleitt með fullum afköstum. Það er enginn vafi á því, að það er þjóðhagslega mjög óhagkvæmt að verða að neita bátum um löndun og aðstöðu einungis vegna þess að húsrými fyrir starfsfólk er ekki fyrir hendi. Helsti þrjóturinn í þessu máli skilst mér að sé Fiskveiðasjóður og svo viðskiptabankar Rifs h.f. eða þeirra aðila sem standa að því félagi. En lánsumsókninni hefur verið synjað a.m.k. tvisvar, ef ekki þrisvar. Fyrstu synjuninni fylgdi sú röksemd einna helst, að þarna væri um að ræða það mikinn lúxus, ef ég mætti orða það svo, það væri áformað að reisa þarna verbúðir sem væru of íburðarmiklar, m.ö.o. það væri verið að bjóða verkalýð þar vestra of mikinn lúxus. Rif hf. eða forráðamenn þess buðust þá til að breyta áætluninni og meira að segja að taka á sig aukakostnað vegna þessa, eins og segir í einu bréfi til Fiskveiðasjóðs:

„Ef stjórn Fiskveiðasjóðs telur að hér sé um byggingu að ræða, sem sé of í borið sem verbúð, erum við tilbúnir til að taka á okkur án lánsþátttöku Fiskveiðasjóðs þann aukakostnað sem Fiskveiðasjóður teldi að væri í byggingunni umfram eðlilega verbúðabyggingu.“

En þetta dugði ekki heldur.

Þess vegna hef ég leyft mér að beina þessari fsp. til hæstv. forsrh.:

„Má ekki vænta þess að ríkisstj. greiði fyrir lánveitingu til byggingar verbúða í Rifi, svo að það mikla nauðsynjamál liggi ekki lengur í láginni vegna tregðu lánastofnana?“