18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

48. mál, litasjónvarp

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. í lokin. Ég vil aðeins segja það, að ég hef satt að segja ekki tíma til að fara að rökræða við hv. þm. Karvel Pálmason um þetta mál. Það er alveg augljóst að hann skilur alls ekki hvað hér er á ferðinni, og það er sjálfsagt ekki í fyrsta skipti sem það reynist honum erfitt. Ef við erum að tala um að afla fjár til þess að bæta dreifikerfið og koma sjónvarpi til þeirra sem ekki hafa það í dag, þá er þetta leið til þess: Það er meginforsendan fyrir þessari till., og ég er margbúinn að taka það fram, þannig að það fellur alveg heim og saman við það sem menn eru að tala um: að afla fjár til þessara mála, þessi till. er meginþáttur í þeirri viðleitni.

En hitt er annað mál, að ég stóð hér einkum upp vegna þess að mér leiddist að hæstv. ráðh. skyldi tala eins og hann gerði áðan, og ég vil trúa því að það sé vegna þess að hann hafi ekki fullkomlega áttað sig á því hver kjarni málsins er. Hann sagði í fyrsta lagi að ég hefði sagt að tækin væru öll ónýt. Það sagði ég ekki. Ég sagði að það væri komið að því að það þyrfti að endurnýja þau eftir um áratugsnotkun. Og þegar að þessari endurnýjun kemur, þetta er bara tæknileg staðreynd, þá þurfa menn að kaupa ný tæki ef þeir ætla á annað borð að hafa sjónvarp. Vegna þess að að mínu mati og allra þeirra, sem til þekkja, er af tæknilegum ástæðum óumflýjanlegt að litasjónvarp ryðji sér til rúms á Íslandi, þá hefði ég haldið að það væri skynsamlegt að láta það haldast í hendur um leið og þessi þróun kemur hingað til okkar og verður staðreynd, að menn hafi þá aðstöðu til þess að njóta þessarar þróunar og þeim sé gert kleift að kaupa tæki til þess arna. Á þann hátt erum við bæði að mæta þörfum og óskum fólksins í landinu og líka að afla fjár til þessarar stofnunar og þeirra framkvæmda sem þar er um að ræða.

Í öðru lagi dró ráðh. í efa að við hefðum efni á þessu af gjaldeyrisástæðum. Ég vek athygli á því í grg. að á þessu ári, í ágústlok, hafa íslendingar keypt gjaldeyri fyrir 60 milljarða, og það er áætlun sem ég geri í grg., að ef ca. 2000 tæki væru seld á ári, stjórnvöld gætu beinlínis kannske takmarkað innflutninginn við það, 2000–2500 tæki, þá væru það um 200 millj. kr. í gjaldeyriseyðslu. Og ég hefði haldið að það mundi ekki ráða úrslitum í gjaldeyrisviðskiptum íslendinga á meðan stjórnvöld leyfa ótakmarkaðan innflutning á bílum, kæliskápum,alls kyns rafmagnstækjum, hverju nafni sem þau nefnast. Meðan fer tiltölulega frjáls innflutningur á þessu, eftir því hvað fólkið biður um og telur sig hafa þörf fyrir, af hverju á þá að taka þetta eina tæki út úr og banna það eða takmarka innflutning á því, þegar staðreyndin er líka sú að það er ekki meiri gjaldeyriseyðsla heldur en ég nefni og raun ber vitni um, og þegar það fer saman við það, að með því að gefa þennan innflutning frjálsan erum við að fá í ríkiskassann 200–300 millj. til viðbótar — aðrar 200–300 millj. — beinlínis til þessarar stofnunar, þ.e.a.s. Ríkisútvarpsins? Og ég spyr líka: Þegar svona bann er eða takmörkun á innflutningi, hvað flyst þá mikið inn í landið eftir ólöglegum leiðum, hvað er mikið smygl á ferðinni, hvað tapar ríkissjóður miklu á því? Þetta dæmi hefur á sér ýmsar myndir, og ég bið hæstv. ráðh. eindregið að skoða þetta mál með hliðsjón af þeim rökum, sem búa að baki till., og standa með mér í því að samþykkja þessa tillögu.