23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér liggur fyrir á þskj. 75 till. til þál. um athugun á áhrifum af starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins og einkum lánveitingum Byggðasjóðs á atvinnu- og byggðaþróun í landinu.

Ég vil taka það fram í upphafi, að ég hefði gjarnan viljað koma töluvert betur undirbúin í þessu máli, svo að það, sem ég segi hér, verða aðeins nokkrar sundurlausar ábendingar um einstök atriði. Ég vil í upphafi tjá mig sammála hv. þm. Ingólfi Jónssyni. Hann flutti hér mjög ítarlega og fróðlega sögulega ræðu og tók þar með af mér ómakið að gera virkilega málefnalega grein fyrir þessum málum eins og þau hafa þróast. Ég er sammála honum um það, að ég held að það sé ágætt að þessi till. er komin fram, og ég er engan veginn á móti því að sú könnun, sem þessi till. fer fram á, verði gerð. En ég vildi gjarnan bæta því við, að ég tel óhjákvæmilegt að þessi könnun verði látin ná töluvert lengra aftur í tímann. Með því að taka aðeins 5 ár aftur á bak sýnum við að sjálfsögðu aðeins eina hlið málsins og ekki þær forsendur sem þessi 5 ára þróun hvílir á.

Hv. 1. þm. Suðurl. benti réttilega á að tilkoma Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs er í sjálfu sér framhald af fyrri aðgerðum sem við það voru miðaðar að stuðla að æskilegri byggðaþróun og að hinu svokallaða jafnvægi í byggð landsins. Hann gat réttilega um ýmsar stofnanir sem unnu að þessu markmiði. Hann nefndi Framkvæmdabankann, Atvinnubótasjóð, Atvinnujöfnunarsjóð, sem allir miðuðu að sama takmarki, að efla atvinnulífið úti um land allt.

Hv. þm. benti á fólksfjölgunaratriði og tók þar til nokkrar tölur sem náðu, að mig minnir, í hans máli frá árunum 1969–1975, og þar komu vissulega fram margar mjög upplýsandi staðreyndir. Sannleikurinn er auðvitað sá, að á 20 árum, þ.e.a.s. á árunum 1950–1970, varð slík byggðaröskun í landinu að til hreinnar landauðnar horfði víða. Ég get þeirri staðhæfingu til stuðnings bent á að á árunum, sem ég nefndi, 1950–1970, fjölgaði íbúum Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins um 78%. Af 66 þús. íbúa heildarfjölgun þjóðarinnar á þessum tveimur áratugum fjölgaði um 54.6 þús. manns á ofangreindum tveimur svæðum, þ.e.a.s. í Reykjavík og á Reykjanessvæðinu.

Það er engum blöðum um það að fletta að þessar tölur sýna okkur, svo ekki verður um villst, að þarna var um geigvænlegan þjóðarvanda að ræða og það hlutu að koma fram markvissar aðgerðir til þess að breyta þessari þróun, ekki aðeins landsbyggðinni í vil, heldur einnig Reykjavík — og þá tiltek ég sérstaklega Reykjavík. Og ég verð að segja það, að ég skil það miður vel af munni hv. þm. Reykv. og borgarfulltrúa Alberts Guðmundssonar að hann skuli líta það svo alvarlegum augum að þróunin hefur þarna stöðvast, þannig að nú stendur íbúatala Reykjavíkur nokkurn veginn í stað, en fækkunin úti um land hefur stöðvast og það er komið á þarna visst jafnvægi hvað íbúatöluna varðar. Ég hygg að Reykjavík hafi verið svo mikill vandi á höndum þegar þessi fólksfjölgunarskriða féll með fullum þunga á Reykjavík sem sveitarfélag, að borgin geti vel við unað að þarna hafi nokkuð dregið úr. Sannleikurinn er sá, að Reykjavík hafði engan veginn undan að sinna öllum þeim verkefnum sem þessi feiknalega og óeðlilega fólksfjölgun hafði í för með sér. Og ég veit raunar að Reykjavíkurborg er ekki enn búin að bita úr nálinni með þau vandamál, sem sköpuðust á þessum offjölgunartíma.

Ég tel að þessi till., — þó að hún sé engan veginn þannig að telja beri hana fánýta að öllu leyti, þvert á móti, — hún sé byggð á miklum misskilningi, grundvallarmisskilningi um það hvers vegna var stofnað til Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs. Það var beinlínis gert til þess að snúa fólksfjölgunarþróuninni við og stefna að alhliða uppbyggingu atvinnulífsins utan Reykjavíkur og þéttbýlissvæðanna hér á Suðvesturlandi. Það er því grundvallarmisskilningur þegar verið er að tala um að Reykjavík hafi ekki notið til jafns við önnur byggðarlög framlaga úr Byggðasjóði. Það stóð aldrei til. Byggðasjóður var stofnaður til þess að forða vissum byggðarlögum frá atvinnulegu hruni og fólksflótta þaðan, sem að því er virtist ætlaði ekki að stöðvast á tímabili.

Í till. er talað um að kannað skuli hvaða áhrif þetta hafi haft á atvinnulíf á þessum svæðum, og því er haldið fram statt og stöðugt að Reykjavík og Reykjaneskjördæmi séu svelt í ýmsum skilningi hvað fjárveitingar snertir. Það er eins og formælendum þessarar stefnu og þessarar skoðunar gleymist að það eru til fleiri sjóðir en Byggðasjóður. Þegar talað er um Framkvæmdasjóð, þá vita þessir menn jafnvel og ég að Framkvæmdasjóður fjármagnar aðra fjárfestingarsjóði, sjóði eins og Iðnlánasjóð, Fiskveiðasjóð og marga fleiri, svo sem kom fram hér í máli hv. 1. þm. Suðurl.

Það væri til fróðleiks gaman að benda á, sem ég man að ég gerði í fyrra í umr. hér á Alþ. og get endurtekið það hér, að ef við snúum okkur að sjóði eins og Byggingarsjóði ríkisins, þá sýna tölur það svart á hvítu að á árunum 1971–1914 - ég hef ekki nýjustu tölur - þá námu framlög úr þessum mikilsverða sjóði um 70–80% framlaga til Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. 70–80% úr þessum opinbera sjóði runnu til þessara svæða. Á þessum árum var stofnað til hinnar svokölluðu Breiðholtsáætlunar þar sem með lögum var gert að skyldu að Byggingarsjóður ríkisins skyldi fjármagna 1000 leiguíbúðir með 80% lánum til þess að byggja upp leiguhúsnæði í Breiðholti. Það er ekki fyrr en nokkru síðar, að mig minnir 1972 eða 1973, sem sett eru lög um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga þar sem heimilað er — og við skulum taka eftir því: það er ekki gert að skyldu í lögunum, heldur er heimilað að veita þessa fyrirgreiðslu til leiguíbúða, til 1000 leiguíbúða úti á allri landsbyggðinni á næstu 5 árum. Við vitum öll hvernig þessi góðu lög, sem vissulega voru spor í rétta átt, hafa verið í framkvæmd. Framkvæmdin hefur orðið margfalt hægari en til stóð.

Ég vil benda á sjóð eins og Iðnlánasjóð. Ég hef hér í höndunum tölur fyrir s.l. 5 ár sem sýna að af heildarútlánum Iðnlánasjóðs nú undanfarin 5 ár, árin 1971–1975 að báðum meðtöldum, hafa 74.37% farið til þessara tveggja kjördæma á móti 25.63% til allra hinna samanlagt, þ.e.a.s. Reykjavík og Reykjaneskjördæmi hafa fengið 74.31 % á þessum 5 árum. Á einu ári, árinu 1971, var þetta hlutfall þannig að Reykjavík og Reykjanes fengu 84% af lánveitingum þessa sjóðs á móti afganginum, 16%, til allra hinna kjördæmanna samanlagt.

Um verslunarlánasjóðinn hef ég ekki handbærar tölur, en mér segir svo hugur um að þar fari Reykjavík og Reykjaneskjördæmi síst með skarðan hlut frá borði. Ég get ímyndað mér að þar sé hlutfallið eitthvað svipað og að því er varðar Byggðasjóð og Iðnlánasjóð.

Fiskveiðasjóður er einn af okkar mikilvægustu fjárfestingarsjóðum, og það hefur verið ítrekað kvartað yfir því að þarna hafi Reykjavík og Reykjaneskjördæmi verið svelt. Ég hef bent á það áður í umr. á Alþ. að þetta eru hreinar rangfærslur. Að því er varðar kaup á fiskiskipum að undanförnu hefur Reykjavík ekki einungis setið við sama borð, hún hefur haft forgang. Hún hafði forgang um kaup á skuttogurunum á sínum tíma. Ég get minnt á það hér og rifjað það upp, að á sínum tíma, þegar Reykjavík keypti sina skuttogara, þá fékk Reykjavíkurborg 95% lánafyrirgreiðslu út á sín skuttogarakaup. Það voru 80% ríkistryggð lán að viðbættu 71/2% láni úr borgarsjóði og 71/2% sérstöku láni úr ríkissjóði. Og þetta var áður en nokkrir skuttogarar komu út á land. Reykjavík var þarna látin ganga fyrir. Lánafyrirgreiðsla til skuttogarakaupa úti á landi hefur ekki numið meira en 85%.

Ég vil líka benda á að að því er varðar hraðfrystihúsaiðnaðinn hér í Reykjavík og á Suðurnesjum, þá hafa útgerðaraðilar hér notið nákvæmlega sömu fyrirgreiðslu og önnur byggðarlög, 60% lánafyrirgreiðslu úr Fiskveiðasjóði. Þar hallast ekkert á. Hitt er svo annað mál, að Byggðasjóður hefur í ýmsum tilvikum hlaupið undir bagga með byggðarlögum, sem eiga í sérstökum erfiðleikum, og þar með gegnt því hlutverki sem honum er ætlað.

Hitt er svo einnig annað mál, að margar upplýsingar benda til þess að fiskvinnsluiðnaður hér á Suðurnesjum eigi í vök að verjast og eigi í sérstökum erfiðleikum, og það hefur ekki verið dregin nein dul á það, að þar hefur verið kennt um, að ég tel réttilega, rangri skipulagningu. Það hafa verið byggð allt of mörg frystihús hér á suðvestursvæðinu, sérstaklega á Suðurnesjum, enda mun það svo að mörg frystihús í smáum sjávarþorpum úti á landi framleiða á við 4–5 hér á Suðurnesjasvæðinu. Ég hygg að þarna þurfi að koma til meiri og betri skipulagning. Líka kemur það til að aflasamsetning er erfiðari hér sunnanlands heldur en t.d. vestanlands og austan, þannig að þetta á sér sínar skýringar. Ég man ekki betur en ég læsi það einhvern tíma ekki alls fyrir löngu í merkilegri áætlun um hraðfrystihús landsins að þar er beinum orðum viðurkennt að þarna hafi orðið þau mistök í uppbyggingu að allt of mörg frystihús hafi verið byggð upp á of litlu svæði.

Ég vil líka minna á það, þegar talað er um mismunun til handa Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, — og ég vil nú sérstaklega halda mér við Reykjavík af því að hv. flm. tók hana sérstaklega til viðmiðunar, — að við megum hafa í huga hvernig atvinnusamsetningin er hér í Reykjavík og úti á landi. Ég get bent á það, sem ég hygg að sé rétt tala fengin frá athugun á vegum Háskólans, að á Vestfjörðum, svo við tökum nú það kjördæmi sem oftast er vitnað í að bruðlað sé með opinbera fjármuni í, að þar vinna 60% íbúanna að framleiðslustörfum, hins vegar um 23% í Reykjavík. Þetta þarf ekkert að koma okkur á óvart. Hér í Reykjavík er samanþjöppuð öll stjórnsýsla og öll þjónusta. En hvort skyldi gefa þjóðarbúinu meira í arð: skrifstofubáknið hér í Reykjavík, sem er að sliga þjóðarbúið, eða arðbær framleiðsíustörf úti um byggðir landsins? Þetta skulum við líka hafa í huga þegar talað er um mismunun að því er varðar fjárveitingar úr opinberum fjárfestingarsjóðum.

En það er fleira, sem máli skiptir í byggðamálum, heldur en kaup á skuttogurum og uppbygging hraðfrystihúsa. Á þá hlið málanna er svo sem aldrei minnst þegar talað er um og vitnað í milljónir á milljónir ofan sem fara til þess að örva og styðja framleiðslu okkar þjóðarverðmæta og það er að sjálfsögðu fyrst og fremst í okkar sjávarplássum, smærri og stærri, — en það er ýmislegt sem veit að hinni félagslegu hlið í byggðamálum sem sjaldan, sjaldnar alla vega, heyrist minnst á. Við vorum að tala hér rétt áðan um málefni þroskaheftra og ég minntist á það í þeim fáu orðum, sem ég sagði um það mál, að margoft hendir það að fjölskyldur taka síg upp og flytja búferlum hingað til suðvesturhlutans vegna þess að það eru engin skilyrði í heimahéraði til þess að mæta þessum vandamálum. Eða hafa hv. þm. Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis reynt nokkuð að ímynda sér og gera sér grein fyrir því hvað það eru mörg skólabörn úti um hinar dreifðu byggðir landsins sem verða afskipt að ýmsu leyti í skólanum? Hvað skyldu vera margir dreifbýlisskólarnir sem hafa enga tónlistarkennslu, enga sundkennslu, enga leikfimikennslu? Þeir eru býsna margir, og þeir eru fleiri en við í fljótu bragði gerum okkur grein fyrir, þannig að þessi hlið málsins er ekki að sínu leyti ómerkari þó hún hlaupi kannske ekki á jafnmörgum milljónum og skuttogararnir okkar og hraðfrystihúsin. Og þegar talað er um lánveitingar úr Byggðasjóði, þá vil ég vekja athygli á tregðu Byggðasjóðs til þess að veita nokkra fjármuni, nokkurn fjárstyrk til þessara mála, það virðist beinast alfarið og einungis að uppbyggingu atvinnutækja. Sannleikurinn er þó sá, að ef við ætlum að stuðla að byggðajafnvægi og eðlilegri byggðaþróun, þá eru þessi mál, sem snerta félagslegu hliðina, ekki síður þung á metunum heldur en atvinnumálin, þó að þau skipti að sjálfsögðu miklu máli.

byggðaþróun í landinu. 748 Það var getið um það í sjónvarpsfréttum í gær að íbúar Raufarhafnar, sem eru að ég hygg um 480, framleiði sem svarar 1 millj. á hvert mannsbarn. (Gripið fram í.) Ja, sjónvarpsfréttin talaði um eina milljón, 480 millj. alls, sem þetta litla afskekkta byggðarlag norður við heimskautsbaug leggur af mörkum í þjóðarbúið. Ég hef nú ekki komist til að reikna út hvað það þýddi ef sama gliti um reykvíkinga. Ætli það yrðu ekki 80–90 milljarðar á ári sem Reykjavík ætti að leggja til þjóðarbúsins.

Það eru einmitt staðreyndir eins og þessar sem við skulum hafa í huga þegar verið er að tala um að Reykjavík sé svelt og það sé verið að kasta fé í atvinnurekstur úti á landi sem engan veginn sé arðbær.

Nú vil ég taka það fram að ég skal manna síðust mæla því bót, ef rétt er, að eitthvert sukk og óráðsía eigi sér stað í meðferð opinberra fjármuna til þess að fjármagna okkar svokölluðu byggðastefnu. Að sjálfsögðu ber að fordæma allt slíkt ef það viðgengst. Ef því miður eru til dæmi um það í framkvæmd okkar byggðamála, þá þarf ekki langt að leita í önnur horn til að það sama verði uppi á teningnum og það ber að sjálfsögðu að fordæma. Hvert sem milljónin fer, í hvert landshornið hún fer, þá þarf hún að vera nýtt af ráðdeild og skynsemi þannig að hún komi að því gagni sem til er ætlast.

Ég hef heyrt og lesið það í skýrslum Framkvæmdastofnunar að það hefur þótt nokkuð á skorta að áætlanagerð og skipulagning atvinnuuppbyggingar úti um land sé með þeim hætti sem æskilegt væri. Þetta viðurkennir stofnunin sjálf, og það er vei að hún gerir það. En þar vitum við að kemur til að hluta skortur á sérmenntuðum mannafla til þess að framkvæma þessar áætlanir svo að gagni sé, og þarna hefur, að því er Framkvæmdastofnunin sjálf viðurkennir, orðið of mikið um að einstakir þrýstihópar hafi getað haft sitt fram með því sem við almennt köllum frekju og ýtni.

Ég veit að vandamál Byggðasjóðs eru mikil, svo mjög sem til hans er leitað, og ég vil að gefnu tilefni taka það fram hér, að ef hv. þm. Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis ímynda sér að þm. dreifbýliskjördæmanna geti gengið út og inn og valsað með fé Byggðasjóðs, þá er það herfilegur misskilningur. Þar er fast haldið utan að fjármunum, og að sjálfsögðu þarf þess með. Sannleikurinn er auðvitað sá, að þörfin er alltaf meiri heldur en hægt er að anna hverju sinni með lána- og styrkjafyrirgreiðslu.

Ég vil að lokum segja það, að hér er að sjálfsögðu um að ræða pólitíska stefnu í framkvæmd okkar byggðamála. Til Byggðasjóðs var stofnað með þá hugsjón að leiðarljósi að við ætluðum og vildum byggja landið allt. Ég get vei ímyndað mér að það væri framkvæmanlegt að draga saman byggðina í nokkra stóra byggðakjarna sem hugsanlega fyrst í stað a.m.k. mundu geta framleitt töluvert á við það sem nú gerist með nokkurn veginn jafnri byggð úti um landið allt. En ég held að sú stefna, samþjöppunarstefna í byggð landsins, sé stórhættuleg, ekki bara frá efnahagslegu sjónarmiði séð, heldur ekki síður menningarlegu. Mér hefur orðið tíðrætt hér um sjávarþorpin okkar íslensku. En það er nú svo, að enn sem komið er liggja að þessum framleiðsluskapandi sjávarþorpum okkar lítil landbúnaðarbyggðarlög, sveitarbyggðarlög, sem ég tel upp á að megi ekki missa sig. Ef aðgerðir í þágu þessara fámennustu landbúnaðarhéraða hefðu ekki komið til, þá væru þau mörg hver nú tóm, það væru orðnar stórar eyður í byggð landsins. Og spurningin er einfaldlega: Stefnum við að því að svo verði, eða viljum við meira en í orði stuðla að því að sjávarsíðan og sveitirnar geti haldist hönd í hönd, byggt hvor aðra upp, séð fyrir þörfum hvor annarrar? Ég veit að þeir, sem þekkja til og eru kunnugir málefnum landsbyggðarinnar, eru í engum vafa. Þeir eru í engum vafa um að við hljótum að stefna að því í framtíðinni að svo verði. En ég ítreka enn og aftur að það munaði mjóu á þessum landsflóttaárum, 1950–1970, að heil byggðarlög leggðust algjörlega í eyði.

Ég vil mælast til þess að við lítum á þessi mál af skynsemi og raunsæi og gerum upp við okkur hvorum megin við stöndum. Afstaða okkar fer eftir því, hvort við viljum halda við nokkurn veginn svipuðu þjóðlífi og við höfum átt við að búa að undanförnu eða hvort við eigum að gjörbreyta því. Og ég vil leggja áherslu á það, að þær raddir, sem fordæma stuðning byggðastefnunnar, eru ákaflega hættulegar og að mínu mati mjög óþjóðlegar um leið. Ég held að formælendur þessarar stefnu geri sér í rauninni enga grein fyrir hvert þeirra stefna mundi leiða íslenskt þjóðlíf og íslenskan þjóðarbúskap.