24.11.1976
Neðri deild: 14. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur verið til meðferðar í hv. Ed. og var einróma mælt með því af þeirri n., sem þar fjallaði um málið, og það afgr. frá deildinni óbreytt.

Með breyttri greiðslutilhögun, sem tekin var upp um áramótin síðustu í tengslum við þær breytingar sem þá voru gerðar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, var stefnt að því að flytja ákveðin verkefni frá ríkissjóði til sveitarfélaganna, en ekki ætlunin að draga úr framlagi til verkefnanna. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa áfram ákvæði í lögum um rekstrarframlag dagvistarheimila og í þessu frv. er gert ráð fyrir að heildarframlagið haldist innan sömu marka og áður. Þá greiddi sveitarsjóður helming rekstrarframlagt á móti ríkissjóði, en nú er gert ráð fyrir að sveitarfélögin ein greiði rekstrarframlögin jafnframt því sem þeim var séð fyrir tekjuauka. Með ákvæðum, sem að þessu lúta í þessu frv., er einungis verið að tryggja áframhaldandi stuðning opinberra aðila við rekstur dagvistarheimila, bæði við þau, sem rekin eru af sveitarfélögum, og einnig þau, sem rekin eru eða rekin kunna að verða af öðrum aðilum en sveitarfélögum.

Þó hér sé flutt frv. til heildarlöggjafar, — það er að vísu ekki langt fremur en lögin sem nú gilda, — þá eru ekki stórvægilegar breytingar hér. Þetta eru fyrst og fremst lagfæringar sem þurfti að gera til viðbótar þeim sem gerðar voru um leið og verkefnatilfærslan átti sér stað, og það þótti heppilegra að forma þetta sem frv. til sjálfstæðra laga heldur en að byggja það upp sem frv. til l. um breyt. á fyrri lögum.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að ég fari að rekja breytingarnar hér grein fyrir grein. Það er gert í aths. við frv. En ég hlýt að geta þess hér, að fyrir mistök í menntmrn. er nauðsynlegt að leiðrétta orðalag á tveimur málsgr. í 9. gr. frv. Rn. var búið að senda þessa leiðréttingu áleiðis til þeirrar n. sem fjallar um málið í Ed., en vegna þess hve Ed. vann rösklega að málinu kom hún ekki í tæka tíð. Menn áttuðu sig ekki á þessum mistökum fyrr en nú fyrir skemmstu. En ég held að þetta komi ekkert að sök. Þetta eru örlitlar orðalags- og formsbreytingar, og mun ég gera ráðstafanir til að viðkomandi n. fái skýringar rn. míns á þessu atriði.

Frv. var til meðferðar hjá félmn. Ed. Það kann að orka tvímælis hvort ekki eigi öll þau mál. sem menntmrn. stendur fyrir að fara til menntmn. En þetta mál snertir vitanlega mikið sveitarfélögin og þar sem það var til meðferðar í félmn. Ed., þá vil ég, virðulegi forseti, leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. einnig vísað til félmn. í þessari hv. deild.