07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það var sannarlega þörf að hreyfa þessu máli. Flestir þm. vita þessa sögu um aðdraganda þessa máls. Í fyrra kom framkvæmdanefnd um byggingaráætlun á landsspítalalóðinni á fund fjvn., og þeir lögðu á það gífurlega áherslu að upphafleg áætlun gæti staðist. Ég man eftir því að fyrrv. heilbrrh., Jóhann Hafstein, lagði á þetta áherslu á sínum tíma, þegar þetta mál var rætt mikið hér, og að allar þessar áætlanir gætu staðist. Svo kemur hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. og segir hér, ef ég hef tekið rétt eftir: „Ef till. til framkvæmda eru enn lækkaðar.“ Það er eins og Alþ. hafi lækkað og skorið niður fyrir rn. Ég held að það sé ekkert leyndarmál núna, að frá hendi rn. liggja fyrir till. til framkvæmda í sjúkrahúsmálum að fjárhæð rúmlega 1770 millj., en ég held ég megi segja það rétt að fjárlög gera ráð fyrir 928 millj. Það er hægt að kasta boltanum yfir á Alþ. og kenna slæmu árferði, en ég vil þó segja það, að það skal ekki standa á mér, kannske sumir segi að það sé létt verk, en ég vil heldur geðdeildina áfram af fullum krafti en sjá minna til t.d. húss verslunarinnar í nærri því steinkasts fjarlægð frá þeim byggingum. Ef um er að ræða að ráðstafa fjármagni til að skapa minni þenslu í þjóðfélaginu, — að vísu er það „opinberi sektorinn“, eins og sagt er í dag, sem um er að ræða, — en ef um það er að ræða að draga úr fjármagni í umferð, þá vel ég geðdeildina. Það er ekki hægt að kasta boltanum hér yfir á Alþ. og segja: Alþm. skera niður svona mikilvægt mál. — Ég vil aðeins vekja athygli á því, að ef það kemur í ljós að verulega er skorið niður í till. frá fjvn., þá hefur hún fengið um það bendingu annars staðar frá, og einhver samþ. fjárlagafrv. þegar það var lagt fram hér í upphafi Alþingis.