07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þarf þó a.m.k. að fá að bera af mér sakir. — Hæstv. heilbrrh. gat þess í sinni ræðu að sumt fólk væri svo einsýnt að það sæi ekki nema eitt mál sem það hefði áhuga á. Það er þá illa komið fyrir stærsta stjórnmálaflokknum, Sjálfstfl., ef einn af hæstv. ráðh. hans telur það um málefni, sem bæði landsfundur flokksins og margar aðrar stofnanir flokksins hafa gert ítrekaðar yfirlýsingar um að hafi forgang, að það sé einsýni af hálfu þm. að skírskota til slíks. Hæstv. ráðh. bætir því við, að hér sé um dæmigerðan þrýstihóp að ræða. Ég þakka hólið. Ég hef aldrei fyrr verið kölluð þrýstihópur og ef ég hef eitthvað svipuð áhrif og þrýstihópur hér á Alþ., þá veit ég að þessu máli er borgið. Þrýstihópar fara oft dálítið öðruvísi að. Ég vil í þessu máli nota þinglega aðferð, og það tel ég mig nú vera að gera og hafa fyllsta rétt til. Ég vil hins vegar ekki sitja undir því að mér sé brigslað um einsýni þegar ég bendi á hrópandi vanda sem menn hafa lengi horft á og flokkurinn minn og hæstv. ráðh, hefur gert um ítrekaðar yfirlýsingar að skuli hafa forgang, fyrir nú utan það, sem fram hefur komið í ræðum ýmissa manna utan þings og innan á ýmsum tímum, að það sé ekkert vit í öðru en að leggja áherslu á eina stórframkvæmd í einu. Það er ekki þar með sagt að allt annað sé látið sitja á hakanum. Það er ekki þar með sagt að heilbrigðismál ýmis úti um land séu látin sitja á hakanum. En ég bendi á það, hæstv. ráðh., að það er geðsjúkt fólk úti um land sem þarf á sjúkrarúmum í geðdeild Landsspítalans að halda mjög tilfinnanlega.