07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

249. mál, rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mér skilst á fjölmiðlum að frá og með síðasta föstudegi teljist ég ekki til þrýstihópa. Hins vegar er ég hér að gera fyrirspurn um báta sem eru fylltir upp af þrýstilofti, og þessir bátar voru á dagskrá í fyrirspurnarformi seint á s.l. vori, en því miður of seint fram borið til þess að svar fengist. Vera má að nú sé svo einnig, vegna þess að mér er kunnugt um að þegar hefur verið hafist handa og það mjög verklega við að koma þessari rannsókn í framkvæmd og þar hafi komið margt forvitnilegt í ljós.

Ég vil taka það fram til þess að firra misskilningi, þegar ég ber fram þessa fyrirspurn til ráðh., að það var hvorki mitt álit þá né þeirra félaga minna, sem áhuga höfðu á málinu, að hreyfa því á neinn alvarlegan hátt meðan við vissum að þau skip, sem til staðar voru til rannsóknanna, sem sagt skip Landhelgisgæslunnar, stóðu í baráttu sinni. Kannske er það þess vegna sem þessi fyrirspurn er svona seint fram borin og kannske ástæðulaust að láta hana koma fram. En ég vænti þess samt sem áður að hæstv. dómsmrh. gæti gefið einhverja skýrslu til alþjóðar um þetta mái, þannig að fólk, sem hefur áhuga þar á, og það eru þá sérstaklega þeir sem við sjó búa, sjómenn á skipum okkar, þeir mættu verða nokkurs vísari, og ekki aðeins þeir, heldur sérstaklega þeir menn sem vinna að björgunarmálum sjómanna. Þar á ég sérstaklega við Slysavarnafélag Íslands og að sjálfsögðu við Landhelgisgæsluna sem er undir hans stjórn. Ég held að það sé rétt að fyrirspurnin eigi heima hjá dómsmrh.