07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

249. mál, rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil enn mikillega biðja hæstv. ráðh. afsökunar þess efnis, að ég skyldi leyfa mér að telja að það teldist ekki til samgöngumála að reka á gúmbjörgunarbát, heldur að það tilheyrði þeim helstu aðilum sem fást við björgunarmál hér á landi, varðskipum okkar. Sýnir þetta kannske okkur hér á Alþ. á hverjum villigötum við erum, ef stærsti björgunarfélagsskapur okkar, sem er að mestu uppbyggður af sjálfboðaliðum, telst heyra undir eitt rn., virkasti kraftur til björgunarstarfseminnar á sjó telst til annars ráðh. eða hans málaflokks. Spurning er hvort þarna sé ekki verið á rangri braut.

Ég verð nú eftir þetta svar, vegna þess að ég þóttist hafa frétt um að eitt af skipum Landhelgisgæslunnar hefði farið til starfa við þetta, að lýsa vonbrigðum mínum með svar hæstv. samgrh. og að það þurfi að standa á því hvort það fáist leigumáli við Landhelgisgæsluna um skip til þessa. Nú veit ég vel að um margra mánaða skeið hefur verið hið heppilegasta skip liggjandi í Reykjavíkurhöfn sem hefði mátt fást til að framkvæma þessar rannsóknir, sem voru einmitt mjög nauðsynlegar strax nú á haustmánuðum og yfir vetrarmánuðina. Hefði jafnvel verið hægt að manna þetta skip sjálfboðaliðum, meðlímum sjóslysanefndar, sem buðust til þess nær allir, og jafnvel sjálfboðalíðum frá Slysavarnafélagi Íslands sem hafa ekki minni réttindi til skipstjórnar heldur en þeir sem hjá Landhelgisgæslunni starfa. Ég verð því miður að lýsa því yfir, að hér finnst mér illa að staðið eftir allan þann tíma frá því að landhelgisstríði lauk. Við vildum ekki vera að hreyfa þessu máli þá vegna skipastólsins sem við vissum að mundi verða kallaður til. En að sjálfsögðu eru fleiri sem þar geta til komið, svo sem hafrannsóknaskip okkar og jafnvel fleiri sem hafa boðist til þess af einstaklingum, ekki aðeins skipstjórum og útgerðarmönnum, heldur og enn fleiri aðilum erlendum sem hér hafa verið við land. En hins vegar vil ég leyfa mér að þakka hæstv. ráðh, fyrir þetta fátæklega svar hans.