07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

72. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. að Framkvæmdasjóður Íslands greiddi fyrir vandamálum allmargra aðila sem áttu í vandræðum vegna endurnýjunar á stórvirkum tækjum á sviði samgöngumála. Þessi fyrirgreiðsla, sem raunar var gerð í samráði við og með aðstoð Seðlabankans að hluta til, en síðar verður þannig að Framkvæmdasjóður Íslands þarf að greiða þetta fé eða standa skil á þessu fé, 40 milljónum, — þessi fyrirgreiðsla var hugsuð þannig, að ef af sjóðsstofnun yrði á þessum vettvangi, þá yrði þetta fé, þessar 40 millj., lánað þeim sjóði til þess að greiða fyrir áframhaldandi fyrirgreiðslu á þessu sviði.

Ég álít að það sé ákaflega þýðingarmikið að hraða þessu máli, vegna þess að það er gert ráð fyrir því að þeir aðilar, sem reka þau tæki sem hér er um að ræða, hvort sem eru langferðabílar, þungavinnutæki eða önnur tæki, þeir greiði af höndum fjármagn í slíkan sjóð. Þess vegna er þýðingarmikið að hraða málinu til þess að sjóðsstofnunin geti orðið staðreynd sem allra fyrst og þannig safnist saman fjármagn á þessum vettvangi til þess að greiða fyrir endurnýjun og uppbyggingu.