07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Þegar grunnskólafrv. var til meðferðar Alþ. var ég einn þeirra sem gagnrýndu það frv. hvað harðast, m.a. vegna fyrirsjáanlegs mikils kostnaðarauka af framkvæmd laganna. Lítill póstur í þeim kostnaðarauka eru þær fræðsluskrifstofur sem hér eru til umr. Það má auðvitað um það deila og hefur kannske verið álitamál hvort þessar fræðsluskrifstofur hefðu átt að taka til starfa nú þegar eða hvort hefði mátt fresta því eitthvert árabil. Um það skal ég ekki segja. Hitt er helmingi verra, að þegar þær eru orðnar að veruleika og búið að koma þeim á fót, þá sé ekki fram úr því séð hvernig eigi að standa straum af kostnaði við rekstur þeirra.

Ég get tekið undir margt sem hér hefur verið sagt, m.a. að starfsemi þeirra hefur, þar sem ég þekki til, líkað vei. því er auðvitað mikil nauðsyn að forðast að um mikla útþenslu verði þar að ræða. En ég tel að úr því að búið er að koma þessum skrifstofum á fót og búið að ráða þeim starfsfólk að nokkru með skipan fræðslustjóranna, þá sé ákaflega neikvætt og erfitt spor að láta þær gefast upp af fjárskorti. Þess vegna held ég að það sé ekki um annað að tefla en það verði að kveða á í löggjöf um það, hvernig eigi að leysa þeirra mál til frambúðar, og láta ekki ríki og sveitarfélög vera að kasta því á milli sín eins og gerst hefur til þessa.

Þetta vildi ég láta hér koma fram. Og þó að hér sé að vissu leyti um að ræða óverulegan hlut í þeirri kostnaðaraukningu sem grunnskólalögin hafa í för með sér og ég tel að ekki dugi annað en að halda áfram, þá eru auðvitað margir póstar í þeim lögum sem frekar væri ráð að höggva í og draga eitthvað úr kostnaði við heldur en þennan.