10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði áðan að ég hefði lýst því yfir að hæstv. ráðh. hefðu gefið villandi yfirlýsingar. Man ekki hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson eftir fleiri en einu og fleiri en tveimur dæmum þess eðlis, að yfirlýsingar, sem fram hafa verið bornar af erlendum aðilum á erlendri grund varðandi landhelgismálið og hæstv. ráðh. hér hafa lýst ósannar, hafa þegar á reyndi komið fram í raunveruleikanum sem réttar? Og hvað kallast þetta? Man hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ekki eftir neinu slíku tilfelli? Ef svo væri ekki, sem ég veit að ekki er, þá væri ástæða til þess að rifja það upp fyrir hv. þm.

Þá sagði hv. þm. að menn hefðu talað og töluðu, að mér skildist, yfirleitt á annan veg hér innan veggja Alþ. heldur en utan dyra. (Gripið fram í.) Já, ég vildi gjarnan óska eftir því við hv. þm., — hann talaði ekkert um suma, — að hann nefndi nöfnin, hverjir það eru. A.m.k. kannast ég ekki við það að ég hafi talað á annan hátt við aðila erlendis. Hv. þm. getur fullvissað sig um, vegna þess að ég hef ekkert farið út úr landinu á þessum tíma. Ég óska því mjög gjarnan eftir því að hv. þm. tali ekki þetta rósamál. hann nefni þau nöfn sem hér er um að ræða.

Hér hafa komið upp þrír hv. þm. sem styðja ríkisstj. Tveir af þessum hv. þm. hafa tekið hátt í samningaviðræðum á öllum stigum í tíð núv. hæstv. ríkisstj. varðandi landhelgismálið, þ.e.a.s. hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Þeir hafa báðir lýst undrun sinni yfir þessum ummælum sendimanns EBE. Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði beinlínis að sér fyndist að það ætti ekki að fara

til viðræðna í Brüssel við EBE, nema því aðeins að áður hefðu þessi ummæli verið tekin til baka.

Og þetta er auðvitað hárrétt. Bæði hv. þm. Þórarinn Þórarinsson og Guðmundur H. Garðarsson tóku undir þetta, og ég vænti þess að hæstv, forsrh., hversu miki5 tillit sem hann hyggst taka til málflutnings stjórnarandstæðinga, taki þó a.m.k. eitthvert tillit til ummæla þessara hv. þm. sem eru stuðningsmenn ríkisstj. og taki af öll tvímæli um það, að þessi erlendi sendiboði hafi hér farið með algerlega rangt mál.

Ég tók eftir því að hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, sagði að sér fyndist að báðir aðilar ættu að forðast yfirlýsingar af öllu tagi um það sem í vændum væri. Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Það þýðir í raun og veru að það á að halda öllum fyrirætlunum hæstv. ríkisstj, leyndum þangað til þær einn góðan veðurdag dynja á landslýð sem afgreitt mál. Þetta er boðskapurinn. Vel má vera að frá þessu hafi verið gengið í viðræðum þessara aðila við fulltrúa Efnahagsbandalagsins hér fyrir nokkrum dögum og það sé þess vegna sem þessum hv. þm., Þórarni Þórarinssyni og Guðmundi H. Garðarssyni, komi illa þessar yfirlýsingar sendimanns EBE, ef það hefur verið frá því gengið að það ætti að forðast allar yfirlýsingar um það sem í vændum væri. En ég vona að afstaða þessara hv. þm. sé ekki af þessu tagi.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson sagði að það lægi ljóst fyrir að sínu mati, að hvorki Efnahagsbandalagið né við íslendingar værum reiðubúnir til þess að gera samninga fyrir áramót eða jafnvel í náinni framtíð, ekki heldur, að því er mér skildist á hans tali, í sambandi við fiskveiðar. Hann sagði a.m.k. að þeir væru ekki reiðubúnir til þess enn, það væri ekki farið að vinna það mál nægilega enn til þess að þeir væru til þess reiðubúnir. Ef ég man rétt, þá var það í sameiginlegri yfirlýsingu fulltrúa ríkisstj, hér og sendimanns EBE orðað á þann veg, að það væri um það talað að ganga frá samningum um friðunarmálin um miðjan des.

Og í áframhaldi af því, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði hér áðan, að það væri vitað að hvorki ráðh. né neinir þm. yrðu í væntanlegri sendinefnd til Brüssel: Hvað á þá að fara að semja um? Á þar að semja um fiskfriðunina eingöngu í höndum embættismanna í Brüssel, eða hvað á að gera þar? Ég held að það sé nauðsynlegt að menn, hv. þm. og þjóðin öll, fari að fá um það ótvíræðar yfirlýsingar á hvern hátt hæstv. ríkisstj. ætlar sér að halda á málinu. Það eru engin vinnubrögð að standa þannig að þessu máli né öðrum stórmálum að hafa ekki ákveðna stefnu í máli þegar farið er til viðræðna, hvort sem það eru erlendir aðilar eða aðrir. Það er augljóst mál, að það verður að hafa einhverja ákveðna stefnu til þess að hægt sé að ræða um þá stefnu. Ef hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið hvaða stefnu hún ætlar að hafa, þá á hún að segja það. Ef hún hefur ekki ákveðið það enn, þá er hún ekki reiðubúin til þess að fara í neinar viðræður. Númer eitt er að hæstv. ríkisstj. komi sér niður á þá stefnu sem hún ætlar sér að hafa.

Ég fagna því sérstaklega að hér hafa í dag gerst þeir atburðir, að þrír hv. þm. stjórnarliðsins eru nú komnir á sömu skoðun og við stjórnarandstæðingar, þó að vissulega skuli viðurkennt að þeir eru ekki eins ákveðnir í henni. Þeir eru kannske hálfreikandi enn, en fyrsta skrefið er stigið. Þeir telja a.m.k. að áður en nokkrar frekari framhaldsviðræður eigi sér stað við EBE, þá eigi alveg ákveðið að gera kröfu til þess að ummæli af því tagi, sem hér hafa verið rædd í dag frá sendiboða EBE, verði dregin til baka og lýst ómerk, Og ég vænti þess, eins og ég sagði áðan, að hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. taki a.m.k. eitthvert tillit til þessara okkar væntanlegu stuðningsmanna í sambandi við landhelgismálið.